03.06.1933
Neðri deild: 94. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2904 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

Undirbúningur kosningalaga

Héðinn Valdimarsson:

Ég vildi gera stutta fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. Stjskr. hefir verið samþ. í Ed., þing verður rofið og nýjar kosningar fara fram. Menn gera yfirleitt ráð fyrir því, að stjskr. muni verða samþ. á næsta þingi nú í sumar, eftir þann mikla atkvæðamun, sem verið hefir nú við atkvgr. um hana, og þing verði síðan rofið aftur og aðrar kosningar fari fram. Það er því nauðsynlegt að hafa hraðann á að útbúa kosningalög, og jafnaðarmenn hafa verið að tala við ýmsa menn úr stjskrn. um það, að n. fulltrúa flokkanna athugaði kosningalagafrv. það, sem lagt verður fyrir næsta þing eða semdi það. Nú hefi ég lauslega fært þetta í tal við hæstv. dómsmrh., og hann hefir svarað því til, að hann kysi heldur, að ríkisstj. sæi um það, en mér er kunnugt um, að margir þm. óska, að flokkarnir geti athugað þetta fyrir þing, til þess að flýta fyrir flutningi málsins á þinginu. Ég vil spyrja hæstv. dómsmrh., hvort hann vildi ekki haga undirbúningi kosningal. þannig, að fulltrúar frá Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. fengju að fjalla um þetta sameiginlega áður en frv. yrði endanlega lagt fyrir þingið. Mætti á þennan hátt e. t. v. útkljá ýms deiluatriði, sem kynnu að koma fram.