22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Bjarni Ásgeirsson:

Af því að hv. frsm. er veikur, hefi ég tekið að mér að segja ofurlítið f. h. nefndarinnar.

Ég mun ekki fara langt út í þetta mál, þar sem það nýlega hefir verið rætt ýtarlega dag eftir dag; og ég býst ekki við, að neitt nýtt komi fram í þessum umr.

Eins og getið er í nál., hefir n. orðið sammála um það eftir atvikum að mæla með því, að frv. verði samþ. Að vísu hefir einn nm., hv. þm. Vestm., nokkra sérstöðu og skrifar undir nál. með fyrirvara, sem hann mun gera grein fyrir í sérstakri ræðu. Hinsvegar er mér óhætt að segja það f. h. n. sem heildar, að þó að hún hafi sitthvað við samninginn að athuga og hefði óskað, að ýms ákvæði væru öðruvísi en eru, þá álítur hún ekki forsvaranlegt á þessu stigi málsins að fella samninginn. Það er sérstaklega hliðin, sem að landbúnaðinum veit, sem hefir knúð n. til að taka þessa ákvörðun. Eins og vitanlegt er, þá hefir sú hlið samningsins, sem að kjötsölunni veit, ráðizt þannig, að fengizt hafa ekki eingöngu jafngóð kjör hvað tollinn áhrærir eins og áður en samningnum var sagt upp frá Norðmanna hendi, heldur fengizt loforð um lækkun tollsins um 1/3 frá því, sem áður var. Að vísu koma á móti takmarkanir um það, hvað leyfilegt sé að flytja út af kjöti árlega, og fer það magn minnkandi í nokkur ár, og er töluvert deilt um þýðingu þessa atriðis samningsins. En n. lítur svo á, að þar sem vitanlegt er fyrirfram, að kjötmarkaður Íslendinga er að þrengjast í Noregi meir og meir, þó að okkar kjöt hafi alltaf aðstöðu til að þrengja sér nokkuð inn á markaðinn, þrátt fyrir það þótt nægt innlent kjöt sé til framboðs, þá muni þetta ákvæði gera Íslendingum minni skaða en ella. Ég álít, að samningsákvæðin um kjötsöluna hafi tekizt vonum framar. Hinsvegar hefir samningurinn hlotið talsverða gagnrýni vegna þeirrar hliðar, er að síldveiðunum veit.

Það má vera, að ýmsir annmarkar séu á þessum samningi fyrir síldarútgerðina, og verður reynslan að skera úr þeim atriðum. En að mörgum atriðum hefir nú verið fundið, sem eru í sama horfi og áður en samningurinn ver gerður. Þau eru viðurkennd framkvæmdaratriði á fiskiveiðalöggjöfinni, þó að menn hafi ekki rekið augun í þau fyrr en nú. En þar sem segja má þessum samningi upp með hálfs árs fyrirvara og auk þess er hægt að þvinga Norðmenn til þriggja mán. fyrirvara, þá álítur n. sjálfsagt að reyna samninginn í eitt ár og sjá, hversu nauðsynlegur okkur virðist kjötmarkaðurinn í Noregi, sem er mikið komið undir, hversu samningar takast við England. En enski markaðurinn virðist nú vera á hverfanda hveli, og við vitum ekki, hve mikið af því kjöti, sem reiknað er enn með að flytja til Englands, kemst á enskan markað. Teljum við því óforsvaranlegt að halda ekki opnum þeim leiðum, sem við höfum með þessum samningi.

Ég skal aðeins til skýringar á því, hversu hver þjóð álítur sér mikils virði að halda uppi markaðsmöguleikum fyrir sínar afurðir, geta þess, að Danir, einhver mesta kjötframleiðsluþjóð heimsins virðist ekki ráða sér fyrir fögnuði af því að þeir hafa komið auga á einhvern kjötmarkað í Færeyjum. Þegar við athugum þetta, þá sjáum við, hve mikils virði það er fyrir þjóðirnar yfirleitt að halda opnum þeim markaðsmöguleikum, sem til eru í öðrum löndum.

Nú getum við sagt upp þessum samningi með 6 mán. fyrirvara. Við getum sagt honum upp síðasta nóv. næstk., og á meðan er hægt að athuga þá kosti, sem kjötmarkaðurinn hefir í Noregi, og þá annmarka, sem ívilnanir gagnvart Norðmönnum kynnu að hafa í för með sér.

Þegar þetta er allt athugað, þá virðist ekki mikið í húfi gagnvart útgerðinni þótt samningurinn sé samþ. En það er allt of mikið í húfi gagnvart landbúnaðinum, ef ekki eru athugaðir vel allir möguleikar fyrir ísl. kjötsölu, áður en þessu sundi er lokað.