22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég geri ráð fyrir, að umr. um þetta mál fari nú að styttast, en þar sem ég hefi ekki sagt neitt um þessa samninga ennþá, vildi ég segja nokkur orð. Ég vil fyrst og fremst benda á það, að enginn hefir haldið því fram, að hægt hefði verið að komast að betri samningum en þessum. Fyrst svo er, þá er það undarleg afstaða að vilja ekki, að þeim sé tekið. Á þingi í fyrra var ekki minnzt á það einu orði, að fara ætti í tollstríð við Noreg. Samningunum frá 1924 var sagt upp fyrir þing í fyrra og ekki orðað allt þingið, að fara ætti í stríð við Norðmenn út af þessu máli, heldur var almenna verzlunarsamningnum frá 1924 sagt upp með það fyrir augum að hafa óbundnari hendur og leita nýrra samninga. Þeir hv. þm., sem nú mæla á móti samningunum, hefðu átt að athuga það strax í fyrra, að þetta var ekki rétta leiðin til samninga og fitja þá upp á tollstríði við Noreg. Hér hefir ekkert gerzt annað en það, að farið hefir verið eftir því, sem þingið ákvað þegjandi í fyrra. Síðan um þingslit í fyrra hefir heldur ekki komið fram nein rödd um það, að ekki beri að semja við Norðmenn. Og þingið verður að standa við það, sem það hefir gert.

Margir þeirra, sem hér hafa talað, hafa gefið það í skyn, að samkv. samningnum frá 1924 hafi Norðmenn engin réttindi haft hér við land. En eins og búið er að sýna fram á, er þetta ekki rétt. En allan tímann frá 1924 og til uppsagnar samninganna, þá kom engin óánægja fram um það, hvernig Norðmenn notuðu þessi réttindi sín eða samningana yfirleitt. Ég hefi farið vandlega í gegnum þær ívilnanir, sem Norðmenn fá í þessum samningum umfram þær, sem þeir höfðu samkv. samningnum frá 1924, og ég er þeirrar skoðunar, að þau fríðindi svari ekki meiru en því, sem við fáum í staðinn. Ég þekki það vel frá framkvæmd norsku samninganna 1924, hvað erfitt var að fullnægja kröfum Norðmanna um velviljaða framkvæmd samninganna. Þeir færðu sig stöðugt upp á skaftið, og heimtuðu meira og meira. Nú, þegar ákvæðið um þetta er fellt niður, stöndum við miklu betur að vígi.

Ég veit ekki, hvað þeir hv. þm., sem berjast gegn þessum samningum álíta, að stj. hefði átt að gera við þær 7000—8000 tunnur af kjöti, sem Norðmenn keyptu af okkur síðastl. haust. Stj. hafði enga heimild til þess að vísa á neina hjálp frá útgerðarmönnum. Eins hygg ég, að það verði í framtíðinni. Vel getur verið, að við getum selt meira kjöt til Noregs næsta ár; um það veit enginn fyrirfram.

Nú er það svo, að jafnvel þótt engir samningar væru gerðir við Norðmenn, þá gætum við ekki farið með norsk skip eins og að hér byggi villimannaþjóð. Milli allra menningarþjóða eru til reglur, þannig, að þó engir sérstakir samningar séu á milli þeirra, má hvergi fara með erlenda þegna sem væru þeir réttlausir. Auðvitað hafa Norðmenn hér ýms réttindi samkv. alþjóðareglum, hvort sem nokkrir samningar verða gerðir eða ekki.

Í þessum umr. í dag hefir aðallega verið deilt á tvær gr. samningsins, þá 12. og þá 17. Hvað viðvíkur 17. gr., þá hefir hæstv. forsrh. svarað því svo rækilega, að ekki gerist þess frekar þörf. En um 12. gr. ætla ég að segja nokkur orð.

Ég vil þá fyrst minna á, að með 1. frá 15. júní 1926 hefir Englendingum og raunar öllum þjóðum, sem stunda hér botnvörpuveiðar, verið gefnar svipaðar undanþágur og nefndar eru hér í þessari 12. gr. Í þessum 1. frá 1926 stendur:

„Nú er það ljóst af öllum atvikum, að skipið hefir hvorki verið að veiðum í landhelgi né undirbúningur gerður í því skyni, og má þá lúka málinu með áminningu, ef um fyrsta brot er að ræða“.

Þetta á við togara, sem hittast í landhelgi, án þess að hafa veiðarfæri úti. Svipuð eru ákvæðin í 12. gr. samningsins, en þó bætt því við, að skipin verði að hafa sannað, að þau hafi rekið inn í landhelgi vegna straums eða storms. Það er rétt, sem hv. þm. Vestm. sagði, að yfirleitt væri ætlazt til þess, að þegar ekki væri hægt að fá lögfulla sönnun um veiðar í landhelgi, þá sé það látið nægja, að varðskipin veita áminninguna úti í sjó, en þó stendur hvergi, að ekki megi taka skip inn á höfn undir slíkum kringumstæðum, til rannsóknar. Annars standa þarna í 12. gr. svo að segja sömu orðin eins og í l. frá 1926, „ef það er ljóst af öllum atvikum, að þetta hafi ekki átt sér stað vegna stórkostlegs gáleysis eða ásetnings, í þeim tilgangi að veiða eða verka aflann innan landhelgi, enda sé þessu kippt í lag svo fljótt sem auðið er“. Mér finnst, að þarna sé svo vel um hnútana búið, að ég sé ekki, hvernig hv. andmælendur samningsins geta staðið sig við að segja, að hér eftir sé aldrei hægt að taka norskt skip, sem að veiðum sé í landhelgi. Ég vil leyfa mér að efast um, að eftir alþjóðareglum sé það talið sæmilegt að taka skip, sem eins stendur á um og nefnt er í 12. gr., inn á höfn og sekta það, og eftir samningnum 1924 hefði það heldur ekki verið leyfilegt.

Talsvert hefir verið rætt um það, að sá hluti af saltkjöti okkar, sem við seljum nú til Noregs, muni fara minnkandi. Þetta getur verið rétt, því að framleiðsla Norðmanna sjálfra á kjöti fer stöðugt vaxandi. Ef litið er svo til Englands, þá eru allar líkur til þess, að á næstunni verði einnig farið að takmarka innflutning kjöts þar. En þá sé ég ekki, hvað við getum gert við kjötframleiðslu okkar, ef við lokum nú þessari smugu á norska markaðinum. Ég verð að álíta, að betri sé hálfur skaði en allur, og að við verðum frekar að slá af kröfum okkar við Norðmenn en að láta útiloka okkur alveg af kjötmarkaðinum þar.

Um uppsögn þessara samninga er það að segja, að þeim verður auðvitað sagt upp þegar þing og stj. telur þá ekki viðunandi lengur, en ef við samþ. þá nú, en látum jafnframt í veðri vaka, að þeim muni verða sagt upp eftir 6 mán., þá er það auðvitað ekkert annað en skollaleikur, mjög ósæmilegur í milliríkjamálum.