22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. dómsmrh. eyddi nokkrum tíma til þess að útskýra 12. gr. samningsins, og staðfesti sú skýring þá skoðun mína, að hér væri verið að halda út á hála braut. Hæstv. ráðh. minntist á landhelgislögin, og þá gerbreytingu, sem varð á þeim með l. frá 15. júní 1926, þar sem heimilað var að sleppa skipum, sem náðst hefðu í landhelgi og sætt ákæru fyrir ólöglegan umbúnað veiðarfæra, með áminningu eða smávægilegum sektum. Áður var það svo, að ekki var hægt fyrir nokkurn dómara að láta skip undir slíkum kringumstæðum sleppa með minna en 2000 gullkróna hlerasekt. Nú er það komið í ljós, eins og hæstv. ráðh. er kunnugra um en mér, að það var svo mikill munur gerður á, hvernig veiðarfærunum er fest, að ég held, að það hafi komið fyrir, að danska varðskipið hafi kært togara, sem var með einhvern keðjulás öðruvísi en átti að vera og ekki vel fest veiðarfærin, en skipið lá inni á Reykjavíkurhöfn. Togarinn var sektaður eins og lög ákváðu og fleiri dæmi gæti ég komið með þessu lík. Þess vegna var svo löggjöfin til neydd að gera mun á þessu, þar sem aðeins var um rangan umbúnað á veiðarfærum að ræða, og hinu, að skipið lægi undir þeim grun að hafa veiðarfærin laus í þeim tilgangi að fiska ólöglega inni í landhelgi. En það sjá allir, að þegar um slæman umbúnað er að ræða, þá geta komið fyrir þau tilfelli, að það sé ljóst, að það standi ekki í sambandi við ólöglegar veiðar, t. d. eins og á skipinu, sem lá fyrir akkerum inni á höfn. Í því tilfelli var það ljóst, að það var ekki í sambandi við ólöglegar veiðar. Þetta er þá sú grein úr löggjöfinni, sem hæstv. ráðh. álítur, að hér sé tekin til fyrirmyndar. En ég vil benda honum á 12. gr. samningsins, þar sem talað er um, að norsk fiskiskip, sem geti sannað, að þau hafi rekið inn í landhelgi vegna straums eða storms, skuli ekki sæta ákærum, ef ljóst sé af öllum atvikum, að það hafi ekki skeð í þeim tilgangi að stunda ólöglegar veiðar. Hæstv. ráðh. virðist leggja þann skilning í þetta ákvæði, að dómurunum sé gefin heimild til að sleppa þeim við hegningu. Það er aðgætandi, að í l. frá 1926 er gengið út frá því, að sökudólgurinn sé leiddur fyrir dómara, en þó megi sleppa þeim með áminningu, en í 12. gr. samningsins virðist mér, að ekki sé ætlazt til, að hann sé leiddur fyrir dómara. Þar stendur á norsku: „Det skal ikke innledes rettlig forföining mot norske fiskefartöier som kan bevise å være drevet inn på sjöterritoriet pá grunn av ström“ o. s. frv. Þetta virðist mér auðskilið, að það eigi að afgerast úti á hafi, án þess að viðkomandi sé leiddur fyrir dómara. Ef ég skil þetta ekki rétt, þá bið ég hæstv. ráðh. góðfúslega að leiðrétta það. Ég hefi alltaf skilið, að orðalagið: „að sæta ákæru“ þýddi það, að vera leiddur fyrir dómara. Hér er sá stóri munur, að þar sem áður var heimilt að minnka sekt fyrir ólöglegan útbúnað veiðarfæra niður í 500 kr. eða jafnvel aðeins veita viðkomandi áminningu, ef ljóst þótti, að það stæði ekki í sambandi við ólöglegar veiðar, þá er hér með 12. gr. varðskipsforingjunum næstum skipað að sleppa þeim skipum, sem þarna um ræðir, án þess að leiða þau fyrir dómara. Með þessu er vikið nokkuð langt frá þeirri venju, sem áður tíðkaðist í þessum efnum.

Hæstv. forsrh. svaraði þeirri fyrirspurn minni um það, hvort hann vildi beita sér fyrir því, að samningnum yrði sagt upp, ef í ljós kæmi, að hann veitti okkur þyngri búsifjar, að öllu athuguðu, heldur en það fyrirkomulag, sem við eigum við að búa. Mér skildist á hæstv. ráðh., að hann mundi gera það, að því tilskildu, að leið yrði til þess að koma kjötinu á annan markað en hér er fyrir hendi. Það hefir praktiska þýðingu fyrir okkur, að Norðmönnum sé gefið aðhald í þessu efni, með því að gefa í skyn, að við séum reiðubúnir að segja samningnum upp, ef þeir misnota hann á nokkurn hátt, og það er búið að skýra það við umr. um þetta mál, hvað sé misnotkun og hvað sé rétt notkun. Mér finnst sjálfsagt, að þetta spursmál sé tekið til yfirvegunar áður en þingi slítur.

Að því er snertir verzlunarjöfnuðinn, sem menn gera sér mestar vonir um, þegar um samninga milli ríkja er að ræða, skal ég minna á það, sem áður hefir átt sér stað hér á landi. Ég skal viðurkenna það, sem hv. þm. G.-K. sagði, að ef þeirri reglu væri fylgt út í yztu æsar, að láta verzlunarjöfnuðinn ráða, þá yrðum við Íslendingar ekki sem bezt úti. En ég mun fá tækifæri til að minnast á það síðar í öðru sambandi og fer því ekki frekar út í það að sinni.

Afskipti Þjóðverja af verzlunarmálum okkar Íslendinga, vil ég lítilsháttar minnast á. Hæstv. forsrh. drap á það, að þeir væru nýlega búnir að gera þær ráðstafanir, sem giltu næstum því sem algert innflutningsbann á íslenzkum vörum, þrátt fyrir hagstæðan verzlunarjöfnuð okkar við þá. En það er að því að gæta, að þeir hafa gert þetta almennt, en ekki eingöngu miðað við Ísland eða íslenzkar vörur.

En ég vil nú spyrja: er það ekki verkefni utanríkismálanefndar eða stjórnarinnar að leita eftir markaði fyrir íslenzkar afurðir hjá Þjóðverjum eða einhverjum öðrum þjóðum, sem líklegar eru til að veita þeim viðtöku? Af því að ég hefi nú tekið þá afstöðu til þessa samnings að leggjast ekki á móti honum, af því að ég vil ekki á nokkurn hátt rýra markaðsmöguleika bænda, þá vil ég nú alvarlega brýna fyrir hæstv. stj. að ganga ekki fram hjá neinum hugsanlegum möguleika til að efla viðskiptaaðstöðu okkar hjá öðrum þjóðum, hvort sem það eru Þjóðverjar, Englendingar, Belgir eða aðrar þjóðir. Ég veit til þess, að hæstv. stj. hefir möguleika til að selja ísl. afurðir í Belgíu og veit ekki til, að hún hafi sinnt því neitt fram að þessu. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að sú þjóðin, sem ófriðlegast hefir látið í þessu efni, nefnilega Þjóðverjar, hefir nú þegar fengið heimsókn frá Norðmönnum. Þrátt fyrir það, að verndartollastefnan er nú ríkjandi í Þýzkalandi, þá leita Norðmenn nú fyrir sér um hagfelldari viðskipti í Þýzkalandi. Íslenzki síldarútvegurinn ætti það ekki síður skilið, að Alþingi og stjórn gerði það, sem hægt væri til að létta undir með honum, t. d. með því að efla ef unnt væri síldarmarkað í Þýzkalandi.

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um það, að ég fylgdi þessum samningi með samvizkunnar mótmælum. Ég hefi nú bent á ýmsa agnúa á samningnum og hvers vegna ég vil ekki spyrna fæti við því, að samkomulag náist, ennfremur hefi ég bent hæstv. stj. á það, hver nauðsyn er á því að vera vel á verði, ef samningarnir reynast illa á nokkurn hátt gagnvart okkur Íslendingum. En það er á annað að líta í sambandi við afstöðu mína til þessa máls. Það eru örðugleikar bænda að koma afurðum sínum í verð. Ég fylgi þeirri stefnu að fara varlega í því að hindra á nokkurn hátt sölumöguleika fyrir ísl. afurðir, og það getur verið, að það komi fyrir í sambandi við önnur mál, sem fyrir þingi liggja, að afstaða mín markist skýrar um það að fara varlega í þessu efni, því að nú eru þeir tímar, að alla hugsanlega möguleika verður að nota til að selja afurðir landsins. En ef ég hinsvegar hefði haft þá aðstöðu að geta bent á örugga leið til að selja það kjötmagn, sem við flytjum nú til Noregs, þá þættist ég hafa aðra aðstöðu gagnvart þessum samningi. En með því að það er ekki, þá hefi ég tekið þá afstöðu, sem nál. sjútvn. ber með sér, og geri ég það að yfirlögðu ráði, en ekki með neinum samvizkunnar mótmælum, og getur hv. þm. Reykv. verið viss um það, að ég er reiðubúinn að verja afstöðu mína hvar sem er.