29.05.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (1786)

183. mál, þjóðaratkvæði um aðflutningasbann á áfengum drykkjum

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Lögin um aðflutningsbann á áfengum drykkjum frá 1909 eru nú búin að standa í hart nær 25 ár. En þau gengu að vísu ekki í gildi fyrr en 1912. Það hafa orðið allmiklar breyt. á þessari löggjöf, og stærsta breyt. mun hafa verið gerð 1921, þegar leyfður var innflutningur hinna svokölluðu Spánarvína, sem eingöngu var gert til þess að geta komizt að samningum við Spánverja um eina aðalútflutningsvöru landsmanna. Það er kunnugt, að það hefir verið hert á framkvæmd bannlaganna og á þann hátt reynt að stemma stigu fyrir því, að farið yrði út fyrir ramma þeirra. En furðu lítill virðist árangurinn hafa orðið af þeirri viðleitni löggjafarvaldsins að fyrirbyggja notkun áfengis á þann hátt, enda mun nú svo komið, að allir, jafnt þeir, sem telja sig bannmenn og andbanninga, eru á því, að einhverjar breyt. verði að gera á þessu ástandi. Það er allir ásáttir um það, að eins og nú sé um mál þetta, þá sé ástandið yfirleitt óviðunandi, en það munu vera allskiptar skoðanir um það, hvað eigi að gera til breytinga á þessu máli.

Ég ætla mér ekki hér að fara að koma með neina spádóma um það, hvernig ástandið hefði verið hér á þessu sviði, ef bannlögin hefðu aldrei verið sett og ef hefði verið haldið áfram á þeirri braut, sem haldið var til 1909, að efla bindindisstarfsemina í landinu, einkum gegnum stórstúku Íslands, eða eingöngu með frjálsri starfsemi, og í þriðja lagi má nefna ungmennafélögin, sem mjög hafa starfað að því að efla bindindisstarfsemina, einkum áður en aðflutningsbannið var lögleitt, en minna hefir kveðið að þeirri starfsemi þeirra upp á síðkastið, enda virðist svo, sem yngra fólk neyti áfengis miklu meir nú en áður var, og er það ef til vill alvarlegasta atriði þessa máls.

Ég ætla alls ekki að koma neitt inn á það, hvað um það hefir verið talað og þrætt hér á hinu háa Alþingi í sambandi við umr. um það mál fyrr og síðar, og hver áhrif það hefði haft á áfengisnotkun þjóðarinnar, ef bannið hefði aldrei verið sett, en hitt er öllum vitanlegt, að ástandið, sem nú er, er svo alvarlegt að ýmsu leyti, að ekki verður við það unað.

Víns er neytt hér mjög mikið, bæði á leyfilegan og óleyfilegan hátt. Á leyfilegan hátt að því er snertir neyzlu þeirra vína, sem flutt eru inn í landið á leyfilegan hátt, en á óleyfilegan hátt að því er snertir smyglað vín, og í öðru lagi að því er snertir það, sem bruggað er í landinu. Ef til vill er það, hve heimabruggunin hefir aukizt mikið á síðustu árum, sem hefir gert það, að menn eru svo fúsir og ákveðnir í að gera einhverjar breyt. á þeirri löggjöf, sem gilt hefir.

Á þingi í fyrra var borið fram frv. til áfengislaga í Nd., þar sem lagt var til, að bannlögin yrðu afnumin, en sett allsherjarlöggjöf um notkun og meðferð áfengis í landinu. Þetta frv. náði ekki afgreiðslu þá. Það var síðar borið fram í Nd. Alþingis í vetur, og þá af 11 þingmönnum. Það er því auðséð, að það er mikill þingvilji fyrir því, að einhverjar breyt. séu gerðar á þessari löggjöf nú þegar. Allshn. Nd. fékk þetta frv. til meðferðar og athugaði það allrækilega, eftir því sem föng stóðu til, en samkomulag náðist ekki í n. um afgreiðslu málsins á þann hátt, sem frv. lagði drög til. Enda lýstu ýmsir flm. því yfir, að þó þeir gerðust flm., þá væru þeir óánægðir með frv. og vildu breyta því. Í allshn. náðist samkomulag á milli allra nm. um að leggja til, að fram yrði látið fara þjóðaratkvæði um bannlögin. Á þessum grundvelli berum við nú fram þáltill. á þskj. 541 um að nú skuli þegar á þessu ári fara fram þjóðaratkvæði um, hvort bannlögin skuli standa óbreytt eða ekki. Höfuðrökin fyrir því að láta þjóðaratkvæði fram fara um þetta mál eru þau, að bannlögunum var á komið með þjóðaratkvæði og því ekki rétt að afnema þau án þess þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um það áður. Og þó að vitnað hafi verið til þess, að Alþingi geti afnumið bannlögin á sama hátt og það gat gert þá tilslökun á bannlögunum, að leyfður yrði innflutningur á Spánarvínum, þá var þar nokkru öðru máli að gegna, þar sem þessi ráðstöfun var gerð vegna þess, að hún virtist óhjákvæmileg vegna annars stærsta atvinnuvegar þjóðarinnar, og byggðist sú samþykkt eingöngu á þeirri nauðsyn að ná verzlunarsamningum við Spánverja, enda þótt alþjóð þætti þungt að láta erlent ríki beygja sig svo sem þá var gert og þó einkum þegar um jafnóþarfa og skaðlega vöru var að ræða og áfengið er.

Hinsvegar hafa fram komið svo háværar kröfur um afnám bannlaganna, bæði frá þingmönnum og almenningi utan þings, að sjálfsagt er að láta fara fram atkvæði um, hvort bannlögin skuli standa óbreytt eða hvort önnur lausn verði tekin í áfengismálinu.

Við flm. þáltill. gerum ráð fyrir í grg. og teljum sjálfsagt, ef svo fer, að þjóðaratkvæði sýni vilja til afnáms bannlaganna, að þá undirbúi stjórnin löggjöf um áfengismálin og leggi hana fyrir næsta þing. Þá ber við samning slíks frv. að taka tillit til þeirra manna, sem vilja berjast gegn neyzlu áfengra drykkja. Ætlumst við til, að notkun þeirra verði stillt svo í hóf, að sem minnst tjón yrði að fyrir þjóðfélagið. Við álítum óþarft að taka þetta fram í sjálfri þáltill., en töldum það nægja að taka þetta fram í greinargerðinni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að tala lengra mál um þetta að svo komnu, en mæli með því, að Alþingi afgreiði þetta mál í því formi, sem hér liggur fyrir, svo að vilji þjóðarinnar komi fram og ekki þurfi lengur um það að þrátta, hvað þjóðin vill vera láta í þessu máli.