29.05.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (1790)

183. mál, þjóðaratkvæði um aðflutningasbann á áfengum drykkjum

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég verð að segja út af þeim orðum, sem hv. þm. G.K. lét falla í garð okkar þriggja dm., hv. þm. Str., hv. þm. Ísaf. og mín, sem andmæltum frv., að við getum verið upp með okkur út af því, að svona mikið tillit skuli vera tekið til mótmæla okkar gegn meðferð og afgreiðslu þessa máls, án þess að það yrði borið undir atkv. þjóðarinnar. Ég votta hv. flm. þakkir fyrir að hafa tekið svo mikið tillit til okkar, að þeir hafa nú fallizt á að fara þá einu leið, sem sæmilegt var að fara, að láta fram fara þjóðaratkv. áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að tala um, að við þversköllumst við að viðurkenna sannleikann. Hv. flm. hafa viðurkennt þann sannleika, að ósæmilegt væri og með öllu óverjandi að útkljá þetta mál án þess að bera það undir þjóðina. Þeir hafa viðurkennt það með flutningi þessarar þáltill.

Út af því, sem hv. þm. sagði um bannhræsni, skal ég taka fram, að mér finnst óþarfi að fella dóm fyrirfram um það, hvernig kjósendur greiði atkv. í þessu máli. Mér sýnist það ósæmandi af hv. þm. að telja alla mótspyrnu gegn afnámi bannlaganna byggða á hræsni, en hina, sem fylla flokk andbannmanna, hreina af slíku. Það er óþarfi af hv. þm. að gera upp á milli manna á þennan hátt.

Um þátttöku hinna yngri manna veit hv. þm. ekkert fremur en ég. Ég hygg, að meðal þeirra verði skiptar skoðanir alveg eins og meðal eldri manna. Hitt væri ekki nema eðlilegt, að beðið væri eftir þeim flokki manna, sem nú öðlast mjög bráðlega kosningarrétt, svo að þeim yrði gefinn kostur á að láta skoðun sína í ljós. Ég ber þá virðingu og fagna svo þessum mönnum upp í kjósendahópinn, að ég vil unna þeim þess að taka þátt í afgreiðslu þessa stórvægilega máls, þar sem ég sé ekki, að því liggi það á, að það mætti ekki bíða eitt ár.

Sumir menn sjá aðeins gull og græna skóga, bara ef bannlögin yrðu afnumin. Ég vona allt hið bezta í þessu efni, en það get ég fullyrt, að ekki yrði við minni erfiðleika að stríða, þó bannlögin yrðu afnumin, heldur en nú er, þó ófullkomin séu.

Hv. 1. þm. Skagf. talaði um, að ekki væri víst, að stjórnarskrárfrv. næði samþykki á næsta þingi. Ég geng þó alveg að því vísu, að það verði samþ. Þótt sárafáar raddir heyrist um, að þeir vilji haga afgreiðslu þess öðruvísi en samkomulag hefir orðið um, þá stendur þó svo sterkur þingvilji að því samkomulagi, að það er fyrirfram víst, að það verður samþ. Það mál dregur því ekkert úr því, að rétt sé að bíða eftir því, að þessir ungu kjósendur geti öðlazt þátt í atkvgr. Ég vil því leyfa mér að koma fram með brtt., þess efnis, að atkvgr. verði frestað fram á árið 1934, og leyfi mér því að afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt. um þetta. En jafnframt skal ég geta þess, að brtt. er eingöngu fram komin til þess að gefa hinum ungu kjósendum, sem væntanleg stjórnarskrá veitir atkv.rétt, tækifæri til að taka þátt í atkvgr., en hún er ekki fram komin af neinni tilhneigingu til þess að slá málinu á frest.