24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Mér fannst hv. þm. G.-K. vera talsvert utan við efnið í síðustu ræðu sinni. En svo að við séum ekki að rífast okkar á milli, skal ég vitna í mann, sem hann og hæstv. forsrh. munu báðir virða mikils og taka töluvert mark á. Í grg., sem fylgir samningnum, segir svo:

„Noti verksmiðjan heimildina til fulls, er með því dregið úr sölumöguleikum íslenzkra síldveiðiskipa, en þó eigi svo verulegu máli skipti, og eigi meir en svo, að sé miðað við verðlag síðasta árs, lokast markaður fyrir svo sem 50—60 þús. króna virði af bræðslusíld árlega“. (ÓTh: Vill ekki hv. þm. lesa áfram!). Jú, það er ekkert á móti því. „Í þessu sambandi þykir rétt að geta þess, að meðan heimild Krossanesverksmiðjunnar var ótakmörkuð til að fullnægja allri notaþörf sinni með kaupum af erlendum skipum, höfðu Íslendingar ekki umráð yfir neinum bræðslustöðvum og áttu því eigi í önnur hús að venda um aflasölu til bræðslu. Nú er sú breyting á orðin, að Íslendingar ráða yfir 3 stórum verksmiðjum“.

En þetta breytir í engu því, sem áður er sagt, að dregið er úr sölumöguleikum fyrir bræðslusíld, svo sem 50—60 þús. kr. virði árlega. (ÓTh: Hv. þm. fer óráðvandlega með, hann sleppir úr þessum upplestri). Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það á eftir, hverju ég hefi sleppt úr þessum upplestri.

Þá sagði hv. þm., að Norðmenn hefðu haldið því fram, að Íslendingar hafi brotið lög á Krossanesverksmiðjunni. Hv. þm. sagðist að vísu hafa verið afarstífur á móti þessu niðri í Oslo, en nú segir hann, að bak við þessa ásökun liggi óyggjandi rök. Ég veit ekki, hvað hv. þm. er vel með sjálfum sér, þegar hann er að semja niðri í Oslo, en hann hefði þó átt að vera klár á því, að hann var ekki á neinn hátt bundinn af samningnum frá 1924, þar sem búið var að segja þeim samningi upp. Og mér sýnist svo sem Norðmenn hafi ekki verið neitt feimnir við það að krefjast réttar síns, hvorki fyrr né síðar. Og ólíklegt þykir mér, að þeir hefðu látið það kyrrt liggja, að Íslendingar brytu ótvírætt á þeim gerða samninga. Ég verð því að leyfa mér að draga mjög í efa réttmæti skoðana hv. þm. í þessu efni. Ég þykist þá hafa gert hreint fyrir mínum dyrum, með því að leiða sem vitni í máli mínu hæstv. forsrh. sjálfan, höfund grg., og sé ég ekki, hvernig hann og félagi hans, hv. þm. G.-K. geta þar á móti mælt, án þess að verða illilega tvísaga.