24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég greip fram í ræðu hv. þm. Seyðf. og vakti með því hringjaratilhneigingar hæstv. forseta. Ég sagði, að hv. þm. færi óráðvandlega með og skal ég nú sýna fram á, að það var ekki sagt út í bláinn. Hann sleppti nefnilega þeim setningum úr grg., sem mestu máli skipta um það atriði, sem hér hefir aðallega verið deilt um. Ég vil því leyfa mér að lesa þær upp:

„Samkvæmt samningnum frá 1924 hafði Krossanesverksmiðjan ótakmarkaða heimild til að kaupa afla af erlendum skipum. Eftir 1924 höfðu íslenzk stjórnarvöld þó smátt og smátt þrengt að verksmiðjunni, og var svo komið, að verksmiðjan fékk ekki að kaupa nema 40% af notaþörf sinni af erlendum skipum á síðastl. sumri. Norðmenn héldu því fram, að þetta væri samningsrof, en af Íslands hálfu þótti rétt að hækka heimildina upp í 60% til samkomulags“. Hv. þm. ávítti það, að ég skyldi ekki hafa verið óðfús til að játa það, þegar ég var að semja í Oslo, að Íslendingar hefðu brotið l. á Norðmönnum. Þetta finnst mér, að ekki geta verið ámælisvert. Þó að ég hafi vitað, að þetta var staðreynd, að þetta var réttmæt ásökun frá Norðmanna hálfu, þá var engin þörf að vera að flíka því við samningsborðið. En til þess að sýna fram á, að það sé ekki gripið úr lausu lofti hjá mér, að Norðmenn hafi rétt fyrir sér í þessu atriði, vil ég benda á pésann, sem Sveinn Björnsson samdi og stj. gaf út, um samninginn 1924. Þar stendur á bls. 41, að Norðmenn skuli njóta sömu réttinda hvað framkvæmd fiskiveiðal. snerti og þeir hafi áður haft og fá í viðbót ýms nánar tilgreind hlunnindi. Þá verður spurningin: Hvaða réttindi höfðu Norðmenn hér fyrir 1924? Um það getur hv. þm. Seyðf. og hver annar, sem þess óskar, sannfærzt, með því að fá hjá atvmrh. afrit af skeytaviðskiptum þeim, sem farið hafa á milli Krossanesverksmiðjunnar og íslenzku stj. Það stendur þess vegna óhaggað, sem ég hefi sagt í þessu máli, þótt hv. þm. teldi, að þetta sé helzt þess eðlis, að helzt sé hægt að brosa að því. En hv. þm. má vita það, að ef hér er brosað að einhverju, þá er það að honum sjálfum, því að það er hann, sem helzt er broslegur í þessum málum.