28.03.1933
Efri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég skal ekki koma inn á seinustu ummæli hv. 2. landsk. Hann var að minna á okkar sjálfstæðisbaráttu og okkar gömlu og góðu sjálfstæðismenn á þeim tímum. En hann gat þó ekki stillt sig um, að fara hálfskoplegum orðum um þá og nefndi þá „Sjálfstæðiskeppi“. (JBald: Þetta eru öll rökin, misheyrnir. Ég sagði „kempur“). Það kann að hafa átt að vera „kempur“, en það var ekki virðulegri hreimur en svo í orðunum, að hitt virtist hafa verið meiningin. Og svo hefir þessi hv. þm. fyrr talað um suma helztu sjálfstæðisforkólfa vora, að þessi hreimur í rödd hans þurfti ekki að undra neinn.

Hv. 1. landsk. talaði um það í upphafi sinnar ræðu, að þess hefði ekki verið gætt að skapa sér þá aðstöðu með löggjöf, að þjóðin stæði betur að vígi en er við uppsögn samninga. Þetta mun vera rétt. Það er gott að vera undir það búinn, að gagnvart þeirri viðskiptaþjóð, sem við verðum að segja upp samningum við, sé hægt að koma nokkrum viðurlögum við, svo sem tollahækkun og þvíl. En ég hygg jafnframt, að hvorki þessi hv. þm. né aðrir geti sakað núverandi stj. um, að svo var í pottinn búið, með því að hún kom ekki til valda fyrr en rétt í þinglokin. Hv. 1. landsk. bar að nokkru leyti sakir á samningamennina eða ríkisstj., sem gaf þeim umboð, fyrir það, að þeir hefðu mjög fljótt samþ. innflutningstakmörkun á ísl. saltkjöti til Noregs. Það mun vera rétt, að samningamennirnir hafi sagt, að komið gæti til mála innflutningstakmörkun, sem væri bundin við 15000 tunnur á ári. En ég veit ekki, hvort þessi sami hv. þm. hefir aðgætt, að árið áður (1931) hafði allt útflutt ísl. saltkjöt til Noregs ekki numið nema 12800 tunnum. Þeim samningamanninum, sem átti að vera fulltrúi landbúnaðarins, var það vel ljóst, að í Noregi gat ekki verið um það að ræða að auka sölumagn á ísl. saltkjöti í Noregi neitt til verulegra muna fram yfir það, sem þar hafði selzt hin síðustu ár. Hinsvegar var nauðsynlegt að fá haldið þar markaði fyrir það takmarkaða kjötmagn, sem þar var annars nokkur markaður fyrir. Það var svo langt frá því, að sú lækkandi tala, sem síðar varð ofan á í samningnum, væri boðin fram af Íslendinga hálfu, heldur var því þvert á móti veitt mikil og bein andstaða í samningatilraununum, þangað til loks, að þeir urðu að ganga að þessu tilboði um lækkandi kjötmagn ofan í 6000 tunnur. En jafnframt vil ég benda á, að þótt tollsamningurinn nái að lokum aðeins til þessara 6000 tunna, þá er okkur væntanlega opin leið að flytja út ca. 1500 tunnur í viðbót, þ. e. a. s. það, sem hægt er að selja aftur til skipa og því um slíkt, svo að sú tunnutala, sem við getum þangað flutt, verður ekki lægri en 7500. Þessi sami hv. þm. mælti á þá leið, að samningarnir leystu ekki nema að mjög litlu leyti þann vanda, sem við værum í með markað fyrir kjötafurðir okkar. Ég hefi það frá þeim, sem eiga að vera sérstaklega kunnugir á því sviði, að sú tunnutala, sem við megum selja næsta ár — 11500 tunnur + 1500 tunnum, samtals 13000 tunnur — muni nema allt að helmingi þess kjöts, sem nauðsyn er á að selja úr landinu. Svo að jafnvel þótt kjötmagnið, sem selja má til Noregs, færi smám saman lækkandi niður í 6000 +1500 tn., þá er þar þó alltaf að ræða um ¼ af því kjötmagni, sem selja þarf, en ekki 1/5 eins og hv. 1. landsk. vildi vera láta. Og enn hefir ekki einu sinni verið gerð nokkur frambærileg tilraun til þess að sýna fram á, hvert við eigum að snúa okkur næsta haust með helminginn af ísl. útflutningskjöti, ef norsku samningarnir næðu ekki samþykki Alþingis. Enda virtist ræða hv. 1. landsk. meira ganga út á það, að sýna afrek sitt og fræknleik fyrir luktum dyrum í stjórnarráðinu í viðtali við þrjá norska sendimenn, er hingað komu 1926, en að hann sæi nú í raun og veru nokkrar aðrar útgöngudyr opnar en þær, að ganga að samningunum. Hv. þm. benti á, að tollalækkunin 1924 hafi orðið niður í 25% af þáverandi verði, en nú ekki nema niður í 40%. Það mátti eins segja, að 1924 hafi tollurinn lækkað úr 63 aur. niður í 38 aur. eða um 1/3, en nú lækki tollurinn úr rúmum 57 aur. niður í rúma 20 aur. eða nálega um 2/3. Ég hygg, að eins og hugir manna stóðu til þessa máls síðastl. vor, áður en samningar hófust, þá hafi þessi lækkun orðið meiri en vonir stóðu til. Það má vera rétt, sem hv. þm. sagði, að með þessu samkomulagi, sem hér er til umr., sé Norðm. í nokkrum einstökum atriðum veitt haganlegri aðstaða en var með samningunum 1924.

Þó mun það hafa verið of fast að orði kveðið í hans seinni ræðu, þar sem hann gaf í skyn, að þau réttindi, sem Norðmönnum væri veitt, væri hreinlega sama sem að leyfa þeim að hafa „station“ hér á landi. Ég hefi a. m. k. fyrir mér orð manns, sem á að líta óhlutdrægt á þetta mál og þekkir þar vel til, og segir hann, að ekkert slíkt geti falizt í því að leyfa þeim að bæta net sín, gera að veiðarfærum, búlka afla eða nota síldarflutningsbáta. (JónÞ: Og selja afla). Já, og selja til verkunar hér á landi. Jafnvel þótt það sé talið með, nálgast það ekki, að Norðmönnum sé veitt heimild til þess að hafa „station“ hér.

Það er rétt hjá hv. þm., að frá því 1924 höfum við verið að búa okkur undir að þurfa ekki að vera upp á Norðmenn komnir með markað. Það hefir verið stöðug viðleitni í þá átt, og þing og stj. hafa stutt landbúnaðaratvinnuveginn að því marki. Það kann að vera rétt, að við höfum orðið að beygja þar nokkuð af leiðinni, en ég veit ekki, hvaða þjóð, sem nú á í samningum við aðra, verður ekki í einhverju að víkja af fyrri leiðum, jafnvel á óvenjulegan hátt. Eða getur hv. 1. landsk. bent á margar þjóðir, sem nú taki á þurru landi hlunnindi hjá öðrum þjóðum, án þess að játa nokkuð í staðinn? Á það hefir og verið bent, að í samningunum 1924 væru Norðmönnum gefin ýms fríðindi, sem líkjast því, sem hér á landi er kallað „hefð“. Vitum við, að þegar nágranni eignast hefðarrétt á einhverju af landi nábýlisjarðar sinnar, er stundum erfitt að hrinda þeim rétti, sem hann þykist þá hafa fengið hald á. Ég hygg því, að það sé ekki að öllu leyti ókostur, að nú er um þetta glöggur samningur, sem hægt er að segja upp með tiltölulega litlum fyrirvara. Það er vitanlega takmark okkar, að vera við því búnir að geta gert það. En við erum ekki búnir að ná því takmarki nú. Enn er svo ástatt, að bændur í heilum héruðum hafa ekki aðra aðstöðu til að selja sínar aðalafurðir en saltkjötsmarkaðinn. Við eigum að halda áfram að reyna að útvega þeim annan aðgengilegri markað, þótt annar sé nú ekki fyrir hendi. En slíkt verður ekki að fullu gert í skjótri svipan. Eins og bent var á höfum við síðan 1924 verið að búa okkur undir að þurfa ekki að hlíta þeim kostum, sem Norðmenn setja okkur um kjötsöluna. En þetta hefir ekki enn tekizt þrátt fyrir góðæri og allmikla peninga í ríkissjóði og þrátt fyrir mikinn áhuga og markvissa stefnu í þessa átt. Þess vegna verður eigi ætlazt til þess, að við séum við því búnir nú að hætta sölunni til Noregs svo skyndilega, sem hv. andstæðingar samninganna láta nú í veðri vaka, að oss sé unnt. Við verðum með þessum samningi — eins og samkomulaginu 1924 — að skapa okkur stundarfrið. Það var réttilega að orði komizt um samningana 1924, að þeir ættu að skapa stundarfrið, en sá friður hefir ekki reynzt nógu langur. Það mun reynast svo, að þrátt fyrir alla viðleitni, bæði hjá þingi og stj. og landbúnaðaratvinnuveginum sjálfum, þarf nokkurn tíma til undirbúnings. Við þurfum að sjálfsögðu að breyta að einhverju leyti til um okkar búnaðarhætti, bæta okkar samgöngur og hugsa upp ýms ráð og prófa okkur áfram með margt eitt, áður en við komumst til fullrar niðurstöðu um það, á hvern hátt og í hverri mynd verður hentugast að sigla framhjá skerjum. Við þurfum slíka að koma okkur fyrir með að hafa bein í hendi til að geta komið upp verksmiðjum og taka iðnaðinn í þjónustu okkar til þess að gera vöruna verðmeiri. En til þess þarf slíka tíma og umfangsmiklar tilraunir bæði um markaði og annað. En enginn hinna hv. andstæðinga þessara samninga hefir bent á, hvað við eigum að gera á meðan. Hv. andstæðingum fer því í þessu efni líkt og þeir væru komnir upp í sveit til bónda, sem væri orðinn heylaus á þorra, og segði við hann: „Þú skalt ekki vera að hugsa um neitt hey nú. Þú getur ræktað betur jörð þína og aukið heyfenginn á næstu árum“. En eins og fé bóndans er ekki í bráð að borgnara þótt honum séu gefin holl ráð fyrir næstu ár, eins eru ísl. bændum ekki nein bjargráð í bráðina að bollaleggingum um framtíðina, meðan þeim ekki er bent á nokkurt ráð til að losna við kjöt sitt næsta haust.

Hv. 2. landsk. fjölyrti um það, að Svíum væri nú boðin ódýr síld frá Noregi. Ég vil spyrja þennan hv. þm., hvort hann hafi aldrei heyrt þess dæmin fyrr, að verð síldar hafi breytzt, hækkað eða lækkað á viku eða mánuði, hvað þá frá ári til árs. Sami hv. þm. vildi og leggja áherzlu á það, að það væri ekki fyrirbyggt með þessum samningi, að norsku síldarverksmiðjurnar gætu keypt alla sína bræðslusíld af erlendum skipum. Ég hygg, að það sé erfitt að halda slíku fram, þar sem í samningauppkastinu stendur, að það magn, sem norsku síldarverksmiðjurnar megi kaupa af erlendum skipum, megi samanlagt ekki fara fram úr 60% af bræðslusíld verksmiðjanna á hverju síldveiðatímabili. Ég hygg nokkra tryggingu felast í þessu ákvæði. Það hefir áður verið bent á, að þessi sami hv. þm. hefir ekki slegið hendinni á móti vinnu fyrir ísl. verkamenn, jafnvel þótt hún hafi verið boðin fram af erlendri hönd. Jafnvel þótt Norðmenn notuðu sér þá heimild, sem þeir fá í þessum samningi til þess að selja meiri síld í land en áður, þá mun vinnan af þeirri síld, söltun og annað lenda í höndum Íslendinga og koma ísl. verkalýð til góða.

Þá benti hv. þm. á, að í þessu samningsuppkasti væru ákvæði, sem gerðu ísl. varðskipunum því nær ómögulegt að gæta landhelginnar, og mun hann þar hafa átt við ákvæðin í 12. gr., þar sem segir, að ef norsk fiskiskip „geta sannað, að þau hafi rekið inn í landhelgi vegna straums og / eða storms, skulu ekki sæta ákæru, ef það er ljóst af öllum atvikum, að þetta hafi ekki átt sér stað vegna stórkostlegs gáleysis eða ásetnings í þeim tilgangi að veiða eða verka aflann innan landhelgi, enda sé þessu kippt í lag svo fljótt sem auðið er“. Ég hygg, að þarna bætist að vísu sá eftirlitsauki á varðskipin að athuga straum og mæla hann til þess að fyrir geti legið rétt skýrsla um hvað hafi raunverulega átt sér stað í hverju einstöku atviki. En jafnframt má benda á, að það eru ekki Norðmenn, sem eiga að dæma um það, hvort „ljóst er af öllum atvikum“, að þá hafi borið inn í landhelgina vegna straums eða storms. Íslenzkum stjórnarvöldum ber að dæma um þetta, en ekki Norðmönnum sjálfum, og verðum við að treysta, að þau reynist óvilhöll.

Hv. þm. var með miklar hrakspár. Hann hélt, að því er mér skildist, að Íslendingar mundu missa af þeim 7 millj., sem við höfum fengið fyrir ísl. síldarafurðir sum undanfarin ár. Ég verð að segja, að þetta var sem hvert annað gaspur út í loftið hjá hv. þm., og vil ég vona, að reynslan sýni, að við deyjum ekki fyrir þeim hrakspám.