28.03.1933
Efri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Baldvinsson:

Ég vil vegna áheyrendanna leiðrétta það, sem hæstv. atvmrh. sagði (Atvmrh.: Misheyrn), að ég hefði kallað nokkra menn „sjálfstæðiskeppi“, en það var misheyrn hjá honum. Ég kynnti mér þetta hjá skrifaranum, og hann hafði tekið upp orðið eins og ég sagði það. Það er síður en svo, að ég sé að gera gys að þeim mönnum, sem ég nefndi. Ég ber mikla virðingu fyrir minningu þeirra og baráttu fyrir málefnum þjóðarinnar, þó að það sé kannske glettni við þá „sjálfstæðismenn“, sem skreyta sig með því nafni og vilja ólmir ganga að þessum samningum, en vilja þó eins og hv. 1. landsk. ekki skerðingu á landsréttindunum. Það hefði einhverntíma orðið hærri hvellur í herbúðum þeirra manna, sem telja sig til þess kjörna að vera á verði fyrir réttindum landsins, út af slíkum samningum sem þessum, ef ekki hefði verið búið fyrirfram og leynilega að binda marga þeirra við að fylgja þessum samningum fram. Það er ekki eingöngu vegna bænda landsins, að þeir vilja samþ. þessa samninga, heldur vegna hins, að hæstv. stj., sem er samsteypa úr báðum stóru flokkum þingsins, hefir lýst því yfir, að hún mundi fara frá völdum, ef þessir samningar verða ekki samþ. Svo að þeir eru þar af leiðandi nokkuð bundnir við að samþ. þessa samninga, sem telja þessa samsteypustjórn það hentugasta fyrirkomulag, sem verið getur, og það eru víst nokkrir menn úr báðum flokkum.

Þá vil ég víkja að ummælum, sem í hefir verið vitnað eftir mig frá þinginu 1921. Hæstv. forsrh. las þau upp og hæstv. atvmrh. tók þau einnig upp. Þau ummæli, sem vitnað var i, eru um frv., sem þá lá fyrir þinginu um „Síldveiðifélag Íslands“, en þá flutti ég brtt. við það frv. ásamt hv. núverandi 3. þm. Reykv., þáverandi docent og núverandi prófessor. Við fluttum þessa brtt., sem fór fram á algerða einkasölu handa ríkisstj. á síld. Í þessari brtt. var sagt, að ríkisstj. skyldi hafa á hendi sölu og útflutning á allri síld, sem „Síldveiðifélag Íslands“ hefði umráð yfir. Þarna var verið að taka umráðin af útlendingum, sem gátu selt síld til útlanda sem sjálfstæðir seljendur, alveg sama og síldareinkasalan gerði, en sem ekki má gera nú. Samtök eða lögþvingaða samvinnu má nú ekki hafa vegna Norðmanna, því að þá geta þeir sagt samningnum upp. Svo að þetta, sem þeir hafa sagt, er slitið út úr samhengi. Út af þessu vil ég vitna í kafla úr frumræðu minni áðan, þar sem ég minntist á það, að við Íslendingar hefðum ekki verið við því búnir að fylla í skörðin, þegar hin stranga fiskveiðilöggjöf var sett. Ég álít, að t. d. Austfirðir hafi orðið hart úti vegna fiskiveiðalöggjafarinnar, sérstaklega vegna þeirrar geysimiklu verzlunar, sem þeir höfðu við útlend skip, sem urðu að hætta, þegar fiskiveiðilöggjöfin gekk í gildi.

Ég fæ ekki annað séð en að eftir þeirri grein samningsins, sem hæstv. atvmrh. las upp, verði landhelgisgæzlan svo torvelduð, að ómögulegt verði að sanna brot á Norðmenn, því að ekki aðeins í stormi, heldur í hvítalogni geta þeir látið sig reka „inn fyrir“, vegna straums! Þegar þrálát norðaustanátt er fyrir Norðurlandi og síldin heldur sig rétt upp við strendur Norðurlands, þá hugsa ég, að mörg skip Norðmanna láti sig reka inn í landhelgina og verði ekki við því gert.