29.05.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (1840)

183. mál, þjóðaratkvæði um aðflutningasbann á áfengum drykkjum

Bergur Jónsson:

Ég var einn af flm. frv. til áfengislaga í vetur og er einn af þeim 3 flm. þess frv., sem jafnframt eru meðflm. að till. um þjóðaratkvæði. Ég verð því að gera nokkrar aths. við ræðu hv. þm. Borgf., sérstaklega að því er snertir ummæli hans um ástæður fyrir því, að till. er fram komin. Að vísu hafa þeir hv. þm. G.-K. og hv. þm. V.-Sk. mótmælt því, að um nokkurt afturhvarf sé að ræða frá hálfu okkar flm. frv., þótt við bæði flytjum og fylgjum till. þessari, og get ég alveg tekið undir þau mótmæli. Það er líka tekið fram í grg., að þessi till. sé flutt til samkomulags. Og að við, sem frv. fluttum, gátum gengið inn á þetta, stafar af því fyrst og fremst, að við vissum, að frv. mundi ekki fá framgang í Ed. og að vafasamt var um afgreiðslu þess í Nd. En afstaða okkar flm. til málsins er fyrir því óbreytt. Svo er a. m. k. um mig og meðnm. mína í hv. allshn. Nd. Annars er það álit mitt, að ef þm. telja það sjálfir rétt að afnema bannið, þá eigi þeir að gera það upp á eigin spýtur, eins og þeir yfirleitt í öllum málum eiga að gera það, sem þeir álíta réttast og sannast og þjóðinni hollast, en standa síðan eða falla á gerðum sínum, ef þjóðinni mislíka gerðir þeirra. Aðstaðan til þessa máls hefir mjög breytzt frá því, er bannlögin voru sett 1909. Víni var veitt inn í landið, og var það gert án þess að leitað væri þjóðaratkv. um það, þegar Spánarvínaundanþágan var veitt. Og þótt þetta sé kallað afnám bannlaganna nú, þá er breyt., sem gerð verður, sízt meiri en sú breyt., sem þá var gerð. En það er annað, sem hvetur mig til að fylgja því, að þessi leið sé farin. Þó þingið samþ. afnám bannlaganna með miklum meiri hl., þá mun aldrei fást friður um þetta mál fyrr en leitað hefir verið þjóðaratkv. Það er helzta ástæðan fyrir því, að ég get verið með því, að sú leið sé farin, að ég tel óheppilegt, að sífelldar deilur verði um málið. En það sem hv. þm. Borgf. heldur, að sé ástæðan fyrir því, að þessi till. er fram komin, er hreinn misskilningur, sem ég fyrir mitt leyti mótmæli. Ræðuhöld hans um málið hefi ég ekki heyrt, því ég var veikur þegar málið var til umr. í hv. Nd., svo röksemdir hans geta engin áhrif hafa haft á mínar skoðanir. Ég get ekki gengið inn á það að fresta atkvgr. unz stjskr. verður samþ., sem hún að vísu væntanlega verður. Fyrst má þess geta, að bannl. voru sett á af mönnum 25 ára og eldri, eins og nú er, og þó höfðu konur þá ekki kosningarrétt. Þetta er þó ekki stórt atriði. En þó að óskað sé, að aldurstakmarkið færist niður við þessa atkvgr., þá er þó óþarfi að koma með till., er frestar atkvgr. Það má breyta till. þannig, að atkv. greiði allir þeir, sem kosningarrétt hafa í bæja- og sveitamálum. Er þá að fullu fullnægt kröfu hv. þm. Borgf. Ég mun því bera fram og afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt., sem tryggir það, að atkvgr. geti farið fram á þessu sumri og fullnægt þó vilja hv. þm. Borgf.

Ég tel óþarft að fresta þessari atkvgr. fram til hausts. Hægara og ódýrara. er að láta hana fara fram samtímis kjördæmakosningu þm. En annars er það framkvæmdaatriði, sem stj. getur ráðið fram úr, ef till. nær samþykki. Leyfi ég mér svo að leggja fram umgetna brtt.