11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. 2. landsk. hefir sagt hér, að stj. hafi gert þennan samning að fráfararatriði. Hann hefir einnig leyft sér að fullyrða, að þingið væri samningnum mótfallið, en vegna stj. myndu margir hv. þm. telja sig bundna við að samþ. hann. Það má öllum ljóst vera, að í þessu sambandi biður stj. ekki um neitt sjálfrar sín vegna. Hitt er annað mál, hvað stj. mundi gera á sínum tíma, ef samningurinn yrði felldur, til þess að bjarga samningaheiðri landsins. Það hvílir engin skylda á þinginu að samþ. þennan samning. Hinsvegar geta hvílt skyldur á stj. í sambandi við það, ef hann væri felldur. En þar er um persónuleg atriði að ræða, sem ekki þurfa að hafa áhrif á neinn hv. þm. við atkvgr. Hitt er aðalatriði þessa máls, hvort samningurinn er heppilegur fyrir okkur eða ekki; eftir því verða menn að ákveða sig.

Það tjáir ekki að tala um það, að þessi samningur sé meira en almennur verzlunarsamningur. Samkomulagið frá 1924 var líka meira en almennur verzlunarsamningur í þeirri merkingu, sem hér er talað um. Það var samningur um kjötsölu Íslendinga til Noregs og síldveiðahagsmuni Norðmanna hér við land. Og það hefir engum þm. dottið í hug fyrr en nú á þessu þingi, að þessi samningur væri um annað en síldveiðar og kjötsölu. Stj. hafði að vísu ekkert hreint umboð frá síðasta þingi, en hafði öflugar áminningar um það, að reyna að komast að samningum, og hún leggur því samninginn með góðri samvizku fyrir þingið, en hann er í öllum aðalatriðum áþekkur samningnum frá 1924. Ég hefi aldrei skilið það, að það sé ókostur á þessum samningi, að skýrt er tekið fram um það, hvaða réttindi Norðmenn hafa. Í samningnum frá 1924 var ekkert skýrt tekið fram um slíka hluti.

Nú er það svo, að þessi samningur er í flestum greinum bundinn við þær skýringar, sem hefð hefir komizt á, í sumu þrengri, en í öðru nokkru rýmri. Og þm. eins og hv. 2. landsk. hafa nú yfir engu að kvarta, og er sízt ástæða fyrir þá að eyða löngu máli í að lesa upp viðvörunargreinar frá 1924. Ef þær greinar eru á einhvern hátt á móti þessum samningi, þá hafa þær á sínum tíma verið andstæðar hv. 2. landsk., svo hann hefði meiri ástæðu til að reyna að hrekja allt það, sem hann les upp, heldur en að nota það nú sem málsvörn fyrir sjálfan sig. Hv. þm. eyddi allmiklum tíma í að sýna d. fram á, að íslenzki og norski textinn væru ósamhljóða, og mér skildist á honum, að einhver hætta ætti að vera í þessu fólgin. Hann nefndi nokkur dæmi, sem aðeins eru aukaatriði. Hann talaði fyrst um 7. gr. Þar stendur á íslenzku, að skipið eigi að „liggja við akkeri eða festar“, en á norskunni að „fartöiet skal være forankret eller fortöiet“. Það þarf meiri óhlutvendni en þessi hv. þm. hefir til að bera, til þess að sýna fram á það, að hér sé á nokkur munur. Það var viðleitni hjá hv. þm., en engin geta í þessu efni. Sama er að segja um 10. gr., þar sem hv. þm. vill sýna fram á, að það skipti nokkru máli, að sleppt er í íslenzku þýðingunni að nefna „islanske havner“ og að sagt er „norske fiskefartöier“. Þetta getur vitanlega ekki haft nokkra minnstu þýðingu í framkvæmdinni. Það er ekki orðrétt þýtt þarna, en það hefir enga þýðingu um það, hvor textinn á að gilda. Eins er um 12. gr. Þar stendur á íslenzku að „verka aflann“, en á norsku að „tilvirke fangst“, og þar getur ekki verið neinn munur á. Og í 13. gr. stendur á íslenzku : „Ef norskt fiskiskip vill ekki greiða sekt“ en á norsku: „hvis norsk fiskifartöi ikke vedtar böte forlegg“. Það væri náttúrlega nákvæmari þýðing að segja: „Ef norskt fiskiskip ekki samþykkir að greiða sekt“. En í veruleikanum er þetta það sama, því ef fiskiskip ekki vill greiða sekt, þá samþ. það ekki að greiða hana. Hér er því ekki minnsti munur á.

Ég tók eftir því, að það brostu einhverjir áheyrendur og máske hlógu upphátt, þegar hv. þm. las þetta upp, því þeir hafa sennilega haldið í samræmi við þá „agitation“, sem flutt hefir verið í þessu máli, að samningurinn hljóðaði um það, að norsk fiskiskip, sem ekki vildu greiða sekt, þyrftu þess ekki. Þess vegna tel ég mér skylt að lesa þessa grein: „Ef norskt fiskiskip vill ekki greiða sekt, heldur óskar, að dómur gangi, skal skipinu þegar sleppt gegn geymslufjárgreiðslu, en ekki haldið þar til dómur fellur“.

Hér er ekkert um annað að ræða en það, sem gilt hefir og sjálfsagt er. Það er samkomulag um það eitt að tefja skipin ekki frá veiði, en tryggja sér fullkomlega, að þau sæti þeirri hegningu, sem þau eru dæmd i. En það að geta eytt helmingnum af ræðutímanum í það að sýna fram á mismunandi hljóðan textanna, sýnir, að hér getur ekki verið um mikið alvörumál að ræða.

Hv. þm. sagði, að íslenzku nefndarmennirnir muni náttúrlega hafa orðið að taka ábyrgð gagnvart norsku samningamönnunum á að íslenzki textinn væri samhljóða. En svona gengur það ekki til. Íslenzki textinn var gerður hér heima og síðan sendur Norðmönnum til samþykkis. Og þeir samþ. íslenzka textann eins og norski textinn hafði áður verið samþ. Báðir textarnir eru jafn gildir, og það er engin ástæða til að jafna þeim til frv. frá 1908, þar sem danski textinn átti að gilda, ef á milli bæri. Hér er um fullkomið jafnrétti að ræða og samningurinn verður framkvæmdur eftir íslenzka textanum, sem er það sama og að hann sé framkvæmdur eftir þeim norska. En vitanlega getur alltaf risið upp deila um það, ekki einungis, hvað norsk og ísl. orð þýddu, heldur hvað orð og setningar þýddu, því það er svo um mál mannanna, að það er ekki eins fast og ákveðið og tölur. Það er ekki hægt að deila um það, hvað 2 og 3 eru. En það er sjaldan hægt að komast svo að orði, að ekki þurfi setningarnar skýringar við. Og þetta er náttúrlega eins með þennan samning rétt eins og hverja aðra samninga, og ef deila rís um slíkt, verður að fara með það á venjulegan hátt. En við þessu er ekki hægt að gera nema hv. þm. vilji gera þá kröfu, að samningurinn sé á engu máli.

Hv. þm. leggur mikla áherzlu á það, að Norðmenn geti, ef við gerum samninginn „illusoriskan“, með einhverri atvinnulöggjöf, sagt samningnum upp. Nú býst ég við, að hv. þm. muni óska þess, að sett væri einhver sú atvinnulöggjöf, eins og einkasala á síld, sem gerði samninginn „illusoriskan“. Hann óskar líka eftir því, að samningnum sé sagt upp. Og ef hann óskar eftir þessu hvorutveggja, þá getur hann ekki verið óánægður um, að það fari saman. Hann þarf að vera óánægður með annaðhvort og ánægður með hitt, til þess að geta beitt svona útásetningi.

Hv. þm. endurtekur líka það, sem sagt hefir verið, að þessir samningar muni rýra stórlega eða máske eyðileggja einn blómlegasta atvinnurekstur, þar sem er síldarútgerðin. Með þessi orð út af fyrir sig er ég ánægður. Það kveður við dálítið annan tón en venjulega hefir verið, þegar talað er um „síldarbrask“ og „svindl“ í sambandi við þennan atvinnurekstur. En það hefir bara láðst að sýna fram á, að nokkuð slíkt sé til í þessum samningi frekar en í samningnum frá 1924, sem sé hættulegt síldarútgerðinni. En hitt get ég fúslega sagt hv. þm., að ég og þeir, sem nú eru í stjórn, eru vitanlega sama hugar og aðrir hv. þm. um það, að ef allar þessar hrakspár rætast, sem andstæðingar samningsins halda fram, að segja honum þá upp, en það er bara víst, að þær munu ekki rætast.

Þó skal ég játa, að það er ekki fyrirfram frekar en 1924 alveg víst um það, hvernig framkvæmdirnar reynast. Það er hægt að nota að miklu leyti eða að litlu leyti þá möguleika, sem í samningnum felast, og vitanlega verða framkvæmdirnar á sínum tíma að segja til um það, hvað við eigum þá að gera, og þeir, sem nú fylgja þessum samningi, gera þar fyrir enga skuldbindingu um það, hvernig þeir út frá breytt. forsendum einhverntíma síðar kynnu að haga sér í þessu efni. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri að öðru leyti en því, að ég óska þess af forseta, að þetta mál verði tekið fyrir á fundi nú þegar að loknum þessum fundi til 3. umr. Þessi ósk byggist á því, að ég sé engar líkur til, að neitt nýtt geti komið fram í málinu til morguns. Nú hefir verið alllangt milli 1. og 2. umr. og ekkert nýtt hefir komið fram, nema þessi málfræði hv. 2. landsk. og ég sé engar líkur til, að neitt nýtt kæmi fram til morguns, nema ef einhverjir hv. þm. kynnu að vilja athuga nánar frv. hv. 2. landsk. um það, hvernig eigi að bæta bændum það að verða gersamlega af hinum norska kjötmarkaði, þá greiða þeir atkv. móti afbrigðum núna, en leyfa þau á morgun, því lengur má ekki draga afgreiðslu þessa máls. Ég samþ. fyrir mitt leyti, að málið yrði tekið út af dagskrá í gær með tilliti til þeirra, sem vildu deila um málið og af mjög skiljanlegum ástæðum ekki vildu gera það þann dag, en þeirri gagnkröfu held ég fram, að málið verði ekki tafið fram yfir helgidagana.

Ég skal ekki svara mörgu frsm. n. Hann telur hentast þrátt fyrir ókostina, að samningurinn sé afgreiddur. Og þegar hann finnur að samningnum, og hv. 2. landsk. segir, að enginn sé ánægður með hann, þá er það náttúrlega satt, að samningurinn er alls ekki allar kröfur Íslendinga. Þetta er sannleikurinn, og svo er um alla samninga, a. m. k. þá, sem gerðir eru á vorum dögum. En þær kröfur, sem hv. þm. virðist gera, eru þær, að við gerum aldrei samninga við aðra, aldrei annað en það, sem okkur sjálfum sýnist, án tillits til nokkurs hlutar.