29.05.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (1844)

183. mál, þjóðaratkvæði um aðflutningasbann á áfengum drykkjum

Guðrún Lárusdóttir:

Ég er ein í hópi þeirra manna, sem telja það rétt, að þjóðin skeri úr um þetta mál. Ég verð að líta svo á, að þessi löggjöf varði hvern einstakling þjóðarinnar allra l. mest. Bannlöggjöfin grípur inn í svo að segja líf hvers einasta manns og verkar inn fyrir vé hvers heimilis. Ég tel því óforsvaranlegt að láta ekki heimilin og einstaklinga þeirra skera úr um þessa löggjöf. En þetta er nú einmitt það, sem liggur fyrir, og þarf því ekki að ræða það frekar. Ég verð að telja, eins og hv. þm. Borgf., að ekki sé heppilegt að knýja þetta mál fram í einum hvelli. Þjóðin þarf að fá tíma til þess að hugsa málið og átta sig á því, áður en hún sker úr um það. Málið er ekki eins einfalt og margur hyggur. Það er margt, sem kemur til greina og athugunar þarf við, áður en sagt verður já eða nei. Mörg framkvæmdaatriði þarf að hugsa og kynna þjóðinni, áður en hún fellir úrskurð sinn. En til þess þarf mikinn undirbúning, er kostar tíma og málinu má ekki skjóta óundirbúnu undir úrskurð þjóðarinnar.

En hvað vill svo þjóðin? Um fleiri leiðir er að velja. Sumir vilja eflaust ótakmarkaðan innflutning og frjálsa sölu. Aðrir vilja innflutning, en takmörkun á sölunni, líkt og nú er. En ég geri þó ráð fyrir því, að langmestur hluti þjóðarinnar vilji algert bann og betra eftirlit með ólöglegri sölu. Þegar því þetta viðkvæma mál er lagt undir úrskurð þjóðarinnar, er nauðsynlegt, að það sé borið fram á þann hátt, að vilji þjóðarinnar um hinar ýmsu leiðir geti sýnt sig eins og hann er. Þeir, sem vilja veita vínflóðinu óhindrað yfir landið, vilja fá brennivínstunnurnar á stokkana, aftur staupasölu og annað því tilheyrandi, verða að geta látið þann vilja sinn koma fram. Þá verða þeir menn einnig að geta sýnt sinn vilja, sem vilja takmarka söluna með einkasölu og takmörkuðum útsölustöðum. Og enn verða þeir, sem vilja bann og betra eftirlit, líka að fá tækifæri til að segja sitt álit, eins og allir aðrir. Þessu vil ég beina til Alþ. Og ég vil æskja þess, að það líti sem ég á þetta mál, að það þurfi betri undirbúning en það enn hefir fengið og að ekki megi slengja því undir úrskurð kjósendanna að þeim óviðbúnum. Ég skal engu um það spá, hversu atkv. falla um þetta mál. Ég tel víst, að margir verði með afnámi bannlaganna. En einnig veit ég það, að margir verða á móti. Ástandið er vont eins og það er nú. Ég viðurkenni það. En er hægt að vænta þess, að það verði betra, þegar bannlögin eru úr sögunni? Þetta er sú spurning, sem kjósendurnir verða að gera sér ljóst, hvernig beri að svara, áður en þeir greiða atkv. Og hér er um svo víðáttumikið mál að ræða, að til þess að öðlast rökfasta sannfæringu um það þarf mikla umhugsun og mikinn tíma. Þess ber líka að gæta, að bannl. hafa fengið þá mestu andstöðu, sem nokkur l. hafa fengið. Sumir, og það flokkur manna, hafa talið sér það beinlínis heiður að þverbrjóta þau. Bannlögin hafa því aldrei fengið að njóta sín í framkvæmd, eins og til er ætlazt um öll önnur l. Hv. þm. V.-Sk. sagði, að þau hefðu reynzt illa í öðrum löndum. Ég veit nú ekki, við hvaða lönd hann hefir átt. Ég skal þó ekki deila við hann um þetta. En það veit ég þó, að þrátt fyrir alla þá miklu andstöðu, sem bannl. hafa hvarvetna fengið, þar sem þau hafa verið sett, þá hafa þau þó komið miklu góðu til leiðar. Því til sönnunar skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr grein, er ég hefi þýtt úr ensku blaði, Christian Herald. Er það viðtal, sem fregnritari þess hefir átt við Evangelina Booth, dóttur hins fræga stofnanda Hjálpræðishersins, William Booths. Hún hefir starfað um langan tíma í Ameríku og kynnzt áhrifum bannsins þar. Er fróðlegt að heyra álit hennar, sem sýnir, að bannið hefir þrátt fyrir allt reynzt allt annað en illa í Bandaríkjunum. Blaðamaðurinn spyr dóttur Booths, hvaða áhrif bannið hafi haft í Bandaríkjunum. Hún svarar svo:

„Í baráttu minni við áfengisbölið hefi ég farið víða um heim. Um gervallt Stóra-Bretland og meginlandið, um Canada, alla leið til Clondyke. Í 25 ár hefi ég verið í Bandaríkjunum, svo mér hafa gefizt næg tækifæri til þess að athuga ástandið, bæði áður og eftir að bannið var lögleitt. Þær athuganir gefa mér tilefni til að fullyrða, að aðflutningsbannið hefir komið mjög miklu góðu til leiðar fyrir Bandaríkin“.

Blaðamaðurinn furðar sig mjög á þessu. Hann hefir tíðast heyrt allt öðru haldið fram í blöðunum, því mikill styr hefir staðið um bannið í Ameríku. Hann hefir heyrt talað um „gömlu góðu dagana“, þegar vínverzlunin var frjáls og knæpur voru á hverju strái. En um „gömlu góðu daga“ kemst kommandör Booth svo að orði:

„Menn tala mikið um þá og margir hæla þeim. En sannleikurinn er sá, að það voru voðalegir tímar, fullir af eymd og þjáning ofdrykkjunnar. Á hverju laugardagskvöldi tíndum við dauðadrukkna menn og konur, alveg ósjálfbjarga, upp úr göturæsunum. Við höfum sent burðarmenn með börur, sem þessir manngarmar voru lagðir í og bornir inn í hæli Hjálpræðishersins. Þar fengu þeir að sofa úr sér án þess að eiga á hættu ýmist að verða drepnir, eða þá rændir allra seinustu aurunum, væru þeir nokkrir til í vösum þeirra. Burðarmennirnir entust ekki til starfsins. Við urðum brátt að fá vagna og kerrur. Það var alls ekki óvanalegt að þeir yrðu 1200-1300, sem bornir voru í hæli vort á einu kvöldi. En bannið breytti tölunni mjög fljótt og færði hana niður í 400, og 12 árum eftir að bannið var lögleitt voru þeir aðeins 7 talsins“.

Það er of langt að lesa þetta allt upp. En hún segir síðar, að drykkjuskapurinn hafi minnkað um 60%, og þakkar hún það eingöngu banninu.

Ennfremur segir hún svo í áminnztu viðtali við blaðamanninn frá Christian Herald:

„Aðsókn heimilisleysingja á hæli vort hefir minnkað um 50%. Barnadauði hefir minnkað ótrúlega. Og síðastl. ár höfum vér ekki rekið oss á neina móður, sem í ölæði hefir deytt barnið sitt, en áður var það mjög títt.

Berum þetta svo saman við ástandið eins og það var á meðan vér börðumst við knæpurnar og drykkjuskapinn“.

Ég gat ekki stillt mig um að lesa þetta hér, þegar ég hefi heyrt því haldið fram á lögþingi þjóðarinnar, að bannið hafi engu komið til leiðar í öðrum löndum. Þarna hafa þó menn og konur losnað undan fargi Bakkusar, einmitt fyrir bannið.

Nú kynni einhver að segja, að þetta komi okkur Íslendingum ekki við, af því að aðstaða hér sé öðruvísi. En munu þeir þó ekki æðimargir, einnig vor á meðal, sem hafa beðið stórtjón á sál og líkama vegna vínnautnarinnar? Ég held því hiklaust fram, að þeir, sem vilja afnema bannlögin, verði að sjá þjóðinni fyrir einhverju í stað þeirra, sem geti forðað henni frá ógæfunni, sem ég tel, að hljóti að leiða af afnámi þeirra.