29.05.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (1845)

183. mál, þjóðaratkvæði um aðflutningasbann á áfengum drykkjum

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég vil taka undir það með hv. 6. landsk., að ég hefði kosið, að þessi till. hefði verið öðruvísi samin. Ég er henni sammála um, að það sé að sumu leyti að spyrja kjósendur út í hött, að láta þá greiða atkv. samkv. þessari þáltill. Vitanlega er hér um þrennt að ræða. Fyrst það, hvort menn vilja hafa löggjöfina óbreytta eins og hún er. Í öðru lagi vilja sumir breyta henni, og í þriðja lagi vilja sumir fella hana algerlega niður, og hafa ekki þau bannlög eða bannlagaslitur, sem nú eru. Það er því réttara að spyrja kjósendur á þrennan hátt um álit sitt um það, hvað beri að gera við bannlögin, samkv. því, sem sagt hefir verið, heldur en að skjóta málinu undir dóm alþjóðar samkv. þáltill. Þó mun ég ekki greiða atkv. á móti henni í þeim búningi, sem hún er, því að ég tel, að þessu máli sé svo komið, að óhjákvæmilegt sé að fá þjóðarúrskurð um það, hvort halda beri í því áfram á þeirri braut, sem nú er farin. Sé svo; sem

andbanningar halda mjög á lofti, að meiri hluti þjóðarinnar sé snúinn frá að reyna að hefta innflutning og neyzlu áfengis á þann hátt, sem gert er með áfengislöggjöfinni, þá verðum við, sem erum annarar skoðunar um málið, auðvitað að taka því. Það er ekki við því að búast, að hægt sé að halda uppi slíkum lögum sem þessum, ef meiri hluti þjóðarinnar er á móti því. En ég hygg nú, að svo sé ekki. Ég fylgi því, að málið verði útkljáð á þann hátt, sem ég hefi tekið fram, af því að ég hygg, að meiri hl. þjóðarinnar vilji halda við hömlum á innflutningi og sölu áfengra drykkja, eða jafnvel auka þær.

Það hefir því miður sýnt sig, að framkvæmd bannlaganna hefir verið býsna slæleg hér á landi með köflum. Og ég er vondaufur um þátttöku almennings um framkvæmd bannlaganna og eftirlit með þeim, ef ekki liggur fyrir bein yfirlýsing um vilja kjósenda í landinu í þessu efni. Ef samþ. verður með þjóðaratkvæði að hagga ekki að neinu leyti þeim áfengislögum, sem nú gilda, þá álít ég, að þar með sé hæstv. ríkisstj. á herðar bundinn sá skyldubaggi, að taka þann þjóðarvilja til greina og stuðla að því, að löggjöfin verði í heiðri haldin.

Ég hefi nú gert grein fyrir því, hvers vegna ég vil stuðla að framgangi þessarar till., þótt ég hefði heldur kosið, að hún hefði verið samin á annan veg.

Ég vil beina þeirri ósk til hæstv. stj., að hún játi haga þannig almennri atkvgr. um þetta mál, að hún yrði ekki samtímis kosningu til Alþingis. Vildi ég einnig, að hæstv. stj. segði um þetta áður en atkvgr. fer hér fram um till., og að hún vildi einnig samþ., að atkvgr. sé ekki hraðað, heldur dregin nokkuð, til þess að gefa mönnum nokkurn tíma til að átta sig á málinu betur, áður en gengið er til atkv. um endanlega úrlausn þess. Ég er því sammála hv. þm. Borgf. um að fresta atkvgr. til ársins 1934. Hinsvegar sé ég ekki fært að gera ráð fyrir því, að þetta biði þangað til stjskrbreyt. er samþ. og staðfest í annað sinn, enda er engin þörf á því. Ef brtt. hv. þm. Barð. væri samþ., þá væri séð fyrir því, að þeir, sem fá kosningarrétt við stjskrbreyt., fengju atkvæðisrétt um þetta. En ef ætti að fresta atkvgr. þangað til, þá yrði hún ekki framkvæmd fyrr en haustið 1934, ef ekki á að hafa hana um háannatímann sumarið 1934.

Ég get því greitt atkv. með báðum brtt., sem hér hafa komið fram, með till. hv. þm. Borgf., um að í staðinn fyrir „á þessu ári“, komi árið 1934. Og með till. hv. þm. Barð., um að þeir megi greiða atkv., sem kosningarrétt hafa í málum sveitar- og bæjarfélaga.

Um bannlögin og afleiðingar þeirra fyrir þjóðina skal ég ekki ræða hér, þótt ýms ummæli hafi fallið um þau, sem ástæða væri að mótmæla. En þá herra, sem svo mjög ámæla bannlögunum og harma yfir ástandinu í áfengismálum hér á landi, bið ég minnast þess, hvernig hljóðið er í þeim löndum, sem engin bannlög hafa. Sízt er minna kvartað um ástandið í áfengismálum, heldur miklu meira, þar, sem engar hömlur eru lagðar á meðferð áfengisins.