11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég verð að segja, að ég undrast það mjög, hvað þessi samningur hefir verið hártogaður í umr. hér í þinginu. Og ég minnist þess ekki, að slíkri aðferð hafi áður verið beitt á Alþingi nema um ritsímasamninginn 1905 og sambandslagauppkastið 1908. Venjulega fer það svo, að þegar gripið er svona hörðum tökum á einhverju máli, þá virðist ekki unnt að fá neinar ástæður teknar til greina. Mótstöðumenn málsins þykjast þá ekkert atriði finna, sem ekki megi eitthvað setja út á. Sem dæmi um það, hversu smámunalega er hér farið í sakirnar, skal ég benda á það, sem hv. 2. landsk. fann að þýðingunni á samningnum, þar sem hann þóttist finna ósamræmi á milli íslenzka og norska textans. En út í það skal ég ekki fara, af því að hæstv. forsrh. hefir svarað því svo greinilega og sýnt, að þessi gagnrýni hv. þm. hefir ekki við nein rök að styðjast. Annars var það aðalþátturinn í ræðu hv. 2. landsk., að lesa upp grein úr Morgunbl. frá 1924, sem ég hygg, að hv. núv. þm. G.-K. hafi skrifað. Hv. 2. landsk. hefir víst þótt bera vel í veiði að minna á þessa grein, af því að hv. þm. G.-K. er nokkuð riðinn við þessa samninga nú og hefir mælt með þeim. En ég vil benda hv. 2. landsk. á, að þegar þessi grein var skrifuð, þá lágu fyrir mjög ýtarlegar og víðtækar kröfur frá Norðmönnum, sem engum gat komið til hugar að ganga að, enda urðu þeir að falla frá þeim. Það má líka segja um kröfur Norðmanna nú, áður en gengið var til þessara samninga, að þær voru miklu frekari en samkomulag varð um á milli samningsaðila að lokum. Ég get því ekki betur séð en að hv. þm. G.-K. hafi verið fullkomlega samkvæmur sjálfum sér í þessu máli, og að afstaða hans sé hin sama nú og hún var 1924. Norðmenn gerðu kröfur til þess 1924 að fá að salta síld hér í landi og yfirleitt að nota aðstöðu til síldveiða hér við land eins og þeim þóknaðist. En eins og allir vita, þá er Norðmönnum það alls ekki heimilt, hvorki samkv. samningunum frá 1924 né þeim, sem hér liggja nú fyrir til samþykktar. En þó að engir samningar hefðu verið gerðir við Norðmenn um þessi efni, þá verður að hafa það í huga, að þeir hafa hér nokkur réttindi samkv. fiskveiðalögunum. Og það vill nú ennfremur svo til, að samkv. stjórnarráðsbréfi frá 1922 er það ljóst, að það hefir ekki verið tilgangurinn að meina þeim algerlega að selja síld hér í land. Þetta bréf hefir svo oft verið dregið hér inn í umr. um þetta mál, að ég sé ekki ástæðu til að fara lengra út í það. En það er eins og ýmsir hv. þm. líti svo á, að Norðmenn hefðu hér engin slík réttindi, ef enginn kjöttollssamningur hefði verið gerður við þá.

Það er að vísu rétt, að með nýrri tollalöggjöf er hægt að gera þeim þessi réttindi lítils virði. En á síðasta þingi bólaði ekkert á því hjá neinum hv. þm., að þeir vildu, að hafið yrði tollstríð við Norðmenn. Og ég hygg, að þá hafi enginn búizt við því, að hægt yrði að komast að betri samningum við Norðmenn nú en 1924.

Ég er viss um, að það er hárrétt, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, að þingið í fyrra hefði tekið því með þökkum, ef samningarnir frá 1924 hefðu verið endurnýjaðir. Nú er það viðurkennt, jafnvel af þeim, sem hafa lýst því yfir, að þeir ætluðu að vera á móti þessum samningum, að þar sé ekki gengið verulega lengra um afslátt til Norðmanna heldur en í samningunum frá 1924. Í sumum atriðum mun vera farið nokkru lengra, en aftur á móti skemmra í öðrum. Og þá virðist mér nokkuð hæpin aðstaða þeirra þm., sem ætla að vera á móti þessum samningi, en hafa þó enga óánægju látið á sér heyra áður um samningskjörin frá 1924.

Hv. 2. landsk. þótti það mjög illa farið, hve mikil hlunnindi norsku síldarverksmiðjurnar á Norðurlandi fengju með þessum samningi. En ekki var það uppi á teningnum hjá honum á síðastl. sumri, þegar útlit var fyrir, að þessar verksmiðjur yrðu ekki reknar. Þá var uppi fótur og fit í flokki hv. þm. til þess að fá Norðmenn til að starfrækja verksmiðjurnar og veita verkalýðnum atvinnu. Og það er ekki mikill munur á því samkv. þessum samningi frá því; sem áður var, hve mikilli síld veiddri af Norðmönnum, verksmiðjurnar mega veita móttöku. En mér er spurn. Hvað átti stjórnin að gera við þær 8—11 þús. kjöttunnur, sem Íslendingar þurftu að fá markað fyrir síðastl. haust, ef ekki hefði verið samið við Norðmenn. Það er hægt að segja, að stj. hefði átt að kaupa saltkjötið. En fyrst og fremst er því að svara, að til þess hafði hún enga heimild frá þinginu, og í öðru lagi er það ekki svo, að ríkissjóður vaði í peningum. Hv. þm. Hafnf. sagði, að það hefði verið auðvelt að hjálpa bændum fram úr þessum vanda. En ég hygg, að það geti reynzt nokkuð erfitt á þessum tímum að leysa úr því, sem minna er. Og þó að ekki sé meira en að kaupa 8—10 þús. tunnur af saltkjöti til þess að eyðileggja það, gæti það orðið dýrt spaug. Því að ef þetta kjöt ætti að bætast við til sölu á innlendum markaði, þá mundi það verða til þess að fella verðið stórkostlega og eyðileggja sölumöguleika fyrir hinn hlutann af kjötframleiðslunni. Ef ég hefi skilið hv. þm. Hafnf. rétt, þá virtist mér hann ekki vilja telja þennan samning lakari fyrir okkur en samninginn frá 1924. En sá samningur taldi hann, að hefði verið mjög slæmur, sérstaklega af því að hann hefði leitt til þess, að síldareinkasalan var stofnuð. Ég get tekið undir það með hv. þm., að þessi samningur sé ekki verri en hinn. En þó að samningurinn frá 1924 hafi máske verið orsök þess, að síldareinkasalan var stofnuð, þá ber einnig að gæta þess, að síldareinkasalan var afnumin á meðan sá samningur var í gildi. Og ég get því ekki séð neinar sérstakar líkur fyrir því, að það verði ástæða til að endurnýja síldareinkasöluna, þrátt fyrir þessa samninga. Þó að hv. þm. geri mikið úr leppmennskunni hér á landi, þá hygg ég, að hún þurfi ekki að verða meiri en samningurinn frá 1924 gaf tilefni til, og að því hefir ekki verið fundið sérstaklega fyrr en nú.

Þá hefir mikið verið um það talað, að erfiðara yrði að verja landhelgina eftir að þessi samningur væri genginn í gildi, og mun það vera byggt á ákvæðum í 12. gr. samningsins. En ég hygg, að það sé ekki hægt að færa gild rök fyrir því. Í þeim efnum er fylgt lögfestum reglum, sem gilda undantekningarlaust, a. m. k. þegar um togara er að ræða. Og það má enginn láta sér detta í hug þá firru, að hægt sé fyrir okkur að forðast öll viðskipti við Norðmenn eða aðrar þjóðir, þó að ekki séu gerðir við þá sérstakir samningar. Það vita þó allir, að til eru reglur samkv. alþjóðarétti, sem fyrirskipa vingjarnleg skipti á milli þjóða, jafnvel þó að um enga samninga sé að ræða þeirra á milli.

Það er annars ákaflega undarlegt, að þeir hv. þm., sem hæst hafa talað um það, hvað samningurinn frá 1924 hafi verið óhagstæður og slæmur, skyldu ekki koma auga á það á þinginu í fyrra og krefjast þess, að honum yrði sagt upp. Það er furða, segi ég, að þeir skuli ekki hafa komið auga á þetta fyrr en nú, er þessi samningur kemur til umr.

Það er rétt, sem hv. þm. Reykv. tók fram, að aðstaðan hefir að sumu leyti breytzt fyrir síldarútveginum síðan í fyrra, að því er snertir sölu á síld til Póllands og Þýzkalands. En ég er ákaflega hræddur um, eftir ýmsum sólarmerkjum að dæma, að markaður fyrir ísl. síld sé ekki tryggur í Þýzkalandi, og jafnvel ekki heldur í Póllandi, en um það skal ég ekkert fullyrða. En aðstaða okkar Íslendinga um sölu á kjöti til Bretlands hefir líka breytzt til stórra muna frá því í fyrra. Samkv. ákvæðum Ottawasamninganna megum við fullkomlega búast við, að við fáum ekki leyfi til að flytja til Bretlands nærri því eins mikið af kjöti og undanfarin ár. Og ef það verður ekki nema tiltölulega lítið, þá álít ég, að það sé nokkuð hæpið, að ætla þar á ofan að loka fyrir alla kjötsölumöguleika til Noregs, sem þó standa óneitanlega til boða samkv. þessum samningi. Ég veit ekki, hvað þeir hv. þm. hugsa um lífsmöguleika landbúnaðarins, sem vilja greiða atkv. gegn þessum samningi, hafandi það fyrir augum, að það getur farið svo, að kjötútflutningur okkar til Breta verði stórkostlega takmarkaður frá því sem nú er. Hvað á þá að verða um íslenzka landbúnaðinn? Hann yrði sýnilega dauðadæmdur, og þá er mikið í húfi. Þó að sumir telji, að hér sé ekki um mikla fjárupphæð að ræða, þá vil ég samt spyrja: Hvað á að gera við allan þann fjölda bænda, sem framleiða þessar 8—10 þús. tunnur af saltkjöti? Einhversstaðar verða þeir að vera. Og þeir hafa engan annan möguleika til þess að koma kjöti sínu í verð heldur en þennan eina í Noregi. Sennilega dettur engum það ráð í hug, að ríkið kaupi kjötið af bændum til þess að eyðileggja það. Hið eina, sem vit væri í, er að leita eitthvað annað fyrir sér um sölu á kjötinu. En ég hefi sýnt fram á, að í því efni muni vera þröngt fyrir dyrum. Mér finnst það satt að segja hið mesta glapræði að loka nokkrum möguleika fyrir markaði handa ísl. vörum nú á þessum erfiðu tímum. Allar þjóðir loka nú meir og meir fyrir innflutning til sín, sérstaklega á landbúnaðarafurðum, og þess vegna álít ég það alveg óforsvaranlegt af þinginu að loka fyrir sölumöguleikum á 8—10 þús. tunnum af kjöti árlega. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að hér er ekki um bindandi samning að ræða, nema til eins árs, og að hægt er að segja samningnum upp með 6 mán. fyrirvara. Þess vegna er hér svo sáralítið í húfi, þó að samningurinn verði samþ. Það er hægt að hafa mikið gagn af honum næsta ár meðan við erum í óvissu um, hvað hægt verður að selja mikið af kjöti til Bretlands. Ef við fáum nægilega rúman markað þar, sem litlar líkur eru til, þá getum við losað okkur við samninginn. Þá er það trú mín, að þessir samningar standi lengur en 1 ár, því að ég geri ráð fyrir, að það taki nokkur ár að undirbúa svo hér heima, að við þurfum ekki að flytja saltkjöt til útlanda. Fyrri hygg ég ekki; að við þorum að losa okkur algerlega við þennan norska markað, því vitaskuld er það aðalatriðið í þessu máli, að við verðum að búast við því, að markaðurinn í Englandi verði þrengdur, og þess vegna er það alveg sérstaklega óhyggilegt að loka þessum ekki litla möguleika í Noregi.

Út af orðum hv. 2. þm. Árn. þarf ég ekki mikið að segja. Hann hallaðist að því að samþ. þessa samninga, en taldi þá þó nauðasamninga. Það eru þeir að því leyti, að við vildum auðvitað hafa þá öðruvísi, en eftir því eru allir samningar, sem þjóðir gera sín á milli, a. m. k. nú á dögum, tómir nauðasamningar, en nauðasamningar eru þeir ekki a. m. k. að því leyti, að stj. hafi sett nokkurt band á þingið í þessu efni. Það getur verið og er algerlega frjálst, hvað það gerir, en umboð til að semja hafði stj. auðvitað.

Það er náttúrlega í mínum augum versti gallinn á þessum samningum, að árlega minnkar það kjötmagn, sem við megum flytja til Noregs. Ég skal ekki látast vera neinn spámaður, en trúað gæti ég því, að þegar við segjum upp samningi þessum, þá verði það af því, að okkur þykir of lítið, sem við fáum að flytja með hinum lækkaða tolli til Noregs, og þá geri ég mér vonir um, að Norðmenn fáist til að hækka þá tunnutölu, sem við megum flytja til Noregs, því að þó að þeir séu sjálfir að auka sína framleiðslu, þá er það svo um þetta ísl. kjöt þar, að það er fæða, sem viss hluti þjóðarinnar heldur mikið af og þykir góð og ég hefi sjálfur séð það í búðum í Noregi, að ísl. saltkjöt hefir verið selt svipuðu verði eins og norskt kjöt nýtt.