18.04.1933
Neðri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (1857)

158. mál, sútunar- og skófatnaðarverksmiðju

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Því er mikið lýst í grg. till., að þó mjög sé áfátt hagnýtingu íslenzkra hráefna, þá sé einna lakast komið um hagnýtingu innlendra skinna, hvort sem um notkun innanlands er að ræða eða til þess að auka verðmæti þeirra á erlendum markaði. Þörfin til þess að stuðla að fullkomnari hagnýt. skinna liggur í augum uppi, ekki sízt ef athugað er, að til þess að vinna við skófatnaðargerð, reiðtýgi, aktýgi, bókband, hanzka og fleira, eru vörur fluttar inn í landið fyrir allt að 2 millj. króna og gúmmivörur fyrir 750 þús. kr. Nú er svo farið, að þrátt fyrir þennan mikla innflutning á skinnum og vörum til þesskonar iðnaðar, þá er í landinu sjálfu framleitt miklu meira en nóg til þess að fullnægja þörfunum. En skilyrðin eru ekki fyrir hendi til þess að nota sér það til hlítar, því að bæði vantar sútunarverksmiðju og skófatnaðarverksmiðju. Reyndar er til lítill vísir til þessara framkvæmda, sem nokkrir menn standa fyrir og miðar að því að vinna að sauðskinnum, svo að þau geti orðið verðmætari og hæfari til útflutnings á erlendum markaði. S. Í. S. á Akureyri hefir einnig hafizt handa um litla viðleitni til þess að vinna úr stórgripaskinnum ýmsa nytsama hluti, einkum reiðver og aktýgi. Það er öllum ljóst, hve mikið fjárhags- og atvinnuspursmál það er, að við verðum færir um að taka í vorar hendur allt það, sem þarf til framleiðslu á skinnavörum, og útvegun þeirra tækja, sem til þess þarf. Það, sem helzt knýr á, að eitthvað verði framkvæmt í þessum efnum, er, að skinnavara sú, sem við flytjum út, er að heita má verðlaus. Auk þess eru afleiðingar verðfallsins, sem sérstaklega er á landbúnaðarafurðum og birtast í skorti erl. gjaldeyris, sem spara verður eins og unnt er, og þá með takmörkun innflutnings. Því verður ekki mótmælt, að hagnýting íslenzkra afurða til þess að fullnægja öllum þörfum er nauðsynjamál, og við megum ekki láta undir höfuð leggjast að sýna framtak og dugnað í þessum efnum, því að fyrst og fremst er þetta atvinnu- og iðnrekstrarspursmál, og að öðru leyti verður það til þess að auka verð á skinnum. Í þriðja lagi sparar það oss erlendan gjaldeyri og í fjórða lagi má skoða það sem nauðvörn gegn þeirri skatta- og innilokunarstefnu, sem nú gengur um öll lönd og knýr þjóðirnar til þess að búa sem bezt að sínu. Þetta eru nú ástæðurnar til þess, að við hv. þm. Str. höfum borið fram þessa till. um, að ríkisstj. láti rannsaka, hvaða kostnað það hefði í för með sér að setja á stofn sútunarverksmiðju og hvort hún gæti fullnægt þörf landsmanna, og ennfremur, ef henni yrði komið á fót, hvernig muni gefast að vinna úr sauðskinnum til þess að þau verði útflutningshæf. 2. liður till. fer fram á það, að rannsökuð verði skilyrði fyrir því að koma á fót

skófatnaðarverksmiðju, því að langstærsti liðurinn í skinnainnflutningnum er einmitt skófatnaðurinn. Í 2. lið er gert ráð fyrir, að stjórnin hefjist handa og stuðli að stofnun félagsskapar, sem svo hrindi þessu af stokkunum. Þar er og bent á, hverjir séu líklegastir til að taka að sér forstöðuna, og að stjórnin leggi fram fé til þess að koma þessum fyrirtækjum á fót, öðru eða báðum, ef sami félagsskapur stendur þar að baki, en um það verður hagað til eins og bezt lætur.

Þannig höfum við hugsað okkur, að þessi félagsskapur yrði byggður upp og að hæstv. stj. hafi forgöngu um þessa hluti. En það er trú okkar flm. þessarar till., að bezt og varanlegast verði framgangi þessa máls borgið með því, að greitt sé fyrir því, að einstaklingsframtakið geti tekið að sér forustu í þessu efni, að koma upp og starfrækja slíka verksmiðju. En takist þetta ekki, er gert ráð fyrir því, að stj. leggi fram fyrir næsta þing till., sem feli í sér lausn á þessu máli. En við flm. væntum, að til þess þurfi ekki að koma, heldur verði hægt að mynda félagsskap til þess að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd. Og við vonumst eftir, að það fái góðar undirtektir, bæði hér á hæstv. Alþ. og líka hjá einstökum mönnum og félögum, að landsmenn snúist vel við málinu og leggi fram fé og krafta til framkvæmda.

Ég geri ekki till. um að vísa málinu í n., því að það liggur mjög ljóst fyrir. Hinsvegar munum við flm. ekki hafa neitt við það að athuga, ef hv. d. álítur það réttara.