11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Halldór Steinsson:

Ég býst við að verða að gera örstutta grein fyrir atkv. mínu. — Ég er óánægður með þennan samning, en er þó ekki viss um, hvort hann er verri en samkomulag það, sem gert var 1924. Er ég því ekki viss um, að hann hafi mikið aukin óþægindi í för með sér fyrir síldarútgerð landsmanna. Ég lít svo á, að samningurinn frá 1924 hafi verið hreint neyðarúrræði. En þá var þó aðstaðan talsvert önnur, því þá var Noregur svo að segja eina markaðslandið fyrir ísl. kjöt. En nú er öðru máli um það að gegna og er því eðlilegt, að við finnum meira til þeirra galla, sem eru á þessum nýja samningi en á þeim eldri. Kjötsalan til Noregs hefir farið minnkandi ár frá ári, og má telja líklegt, að henni verði að fullu lokið á næstu árum. Og þegar útlitið með norska saltfisksmarkaðinn er svo, þá fæ ég eigi betur séð en að langt sé frá því, að okkur beri að semja við Norðmenn á þeim grundvelli, að þeim séu veittar nýjar ívilnanir, heldur þvert á móti ætti að keppa að því að afnema þær ívilnanir, er þeim voru veittar 1924. Þetta átti að fylgja okkar samningamönnum sem veganesti, þegar Norðmenn höfðu sagt samningnum upp. Og hið eina rétta svar Íslendinga átti að vera það, að leggja toll á þá síld, sem Norðmenn flytja út héðan. Það má segja, að of seint sé nú að sakast um orðinn hlut. Þetta hefðu menn átt að sjá og gera á síðasta þingi. En þó má segja, að bæði þingi og stjórn væri nokkru meiri vorkunn þá en nú, því útlitið fyrir því, að hægt væri að ná bærilegu samkomulagi við Norðmenn, var þá ekki eins vont og það hefir orðið síðan. Eins og málið, horfir við nú, mun ekki vera um neina nýja bráða eða yfirvofandi hættu að ræða í bili, því enda þótt samningarnir verði ekki samþ., þá munu Norðmenn halda sömu réttindum óskertum næsta síldveiðitímabil, eins og þeir hafa haft eftir samningnum frá 1924. Er því ekki, vegna uppsagnarákvæðis samningsins með 6 mán. fyrirvara, bráð og yfirvofandi hætta á ferðum.

Meðferð þessa máls, bæði utan þings og innan, hefir verið óheppileg. Meðhaldsmenn samningsins hafa gert of mikið úr kostum hans og of lítið úr göllum. En andstæðingar hans hafa málað fjandann á vegginn. Í sambandi við þetta vil ég segja það, að ísl. nefndarmennirnir hafa orðið fyrir miklum og algerlega ómaklegum árásum. Þeir voru eingöngu umboðsmenn ríkisstj. í þessum samningum. Og þeir hafa ekkert gert í þeim, svo að ríkisstj. væri ekki kunnugt um það um leið. Og í annan stað gat utanríkismálan. einnig fylgzt með öllu, sem gert var og átti því kost á að gera sínar aths. og koma þeim til samningamannanna. En mér vitanlega hefir engin aðfinnsla komið frá henni, eins og þó var skylda hennar, ef hún áleit sjálfstæði landsins í hættu. Ekkert af því, sem samningunum hefir verið fundið til foráttu, kom upp fyrr en eftir á, þegar undirskrift var lokið. Ég lít því svo á, að n.mennirnir hafi gert fullkomlega skyldu sína og starfað í samræmi við utanríkismálan.

Ég geri ráð fyrir því, að ég greiði atkv. með þessu frv. til 3. umr. En ég er ekki ráðinn í því, hvað ég geri þá. En verði þessi samningur lögfestur, treysti ég því, að honum verði sagt upp eins fljótt og ákvæði hans frekast leyfa.