11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jakob Möller [óyfirl.]:

Þótt ég væri ekki viðstaddur, er háttv. 2. landsk. hélt ræðu sína, þá hefi ég þó fregnað það, að hann hafi beint orðum sínum til mín og sagt, að öll mín ræða hefði hnigið að því að færa rök fyrir, að rétt væri að samþ. samninginn. Ég veit nú ekki, hvernig hann hefir fengið þetta út úr minni ræðu, nema þá með því að hann hafi borið hana saman við sína eigin ræðu. Því þrátt fyrir allan bægslaganginn, sem var á honum, þá kom hann þó ekki með eitt einasta orð frá eigin brjósti í þá átt að sanna það, að þessi samningur væri óaðgengilegur. Það skyldi þá helzt hafa verið einhver slík rök í grein, sem hann las upp úr Morgunblaðinu. Ég tók fram hið nýja, sem við hefir borið síðan síðasta þingi sleit, en það er, að markaðshorfur fyrir ísl. síld hafa breytzt. Afstaðan er því breytt á þessu sviði.

Þar sem hv. þm. fullyrti, að hv. 2. þm. Reykv. hefði hreyft andmælum gegn samningnum í utanríkismálan. og sagt, að hann yrði þeim andvígur, þá hefi ég nú ummæli annara um, að þau mótmæli, ef nokkur voru, hafi verið svo kraftlaus, að enginn hafi eiginlega orðið þeirra var, þar til þeir félagarnir, hann og Finnur Jónsson, fóru með samninginn í Alþýðublaðið í þingbyrjun. Og þótt andmæli hefðu komið fram hjá hv. þm. í utanríkismálan., þá hrekur það ekki þá staðhæfingu mína, að utanríkismál sem þetta séu illa fallin til að gera þau að pólitísku æsingamáli innanlands og á Alþingi. Og slík meðferð fjarlægir, að hægt sé að færa til betri vegar það, sem óheppilegt er í samningnum. — Ég gat ekki hlustað á ræðu hv. þm. og get því heldur ekki svarað öllum þeim skeytum, er til mín kann að hafa verið beint í henni.