11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég get vel skilið, að hv. 2. landsk. hafi fundið einhvern áheyranda sér ósnjallari, sem fundið hafi eitthvað annað út úr ræðu minni en rétt var. Aðalefni þess, sem ég sagði, var það, að samningur sá, sem hér væri til umr., væri að mestu endurtekning fyrri samninga. Ég hefi heldur ekki heyrt neitt það koma fram hjá hv. 2. landsk., sem sýni fram á, að þessi samningur sé í nokkru verulegu frábrugðinn því ástandi, sem var. Þá hefi ég heldur ekki heyrt hann halda því fram fyrri, að samningurinn gæti orðið til þess að svipta sjómenn atvinnu. En ég fæ bara ekki séð, að hann geri það á nokkurn hátt frekar en fiskiveiðalöggjöfin frá 1922 og samningurinn frá 1924. Annars er ég fús til að taka upp umr. um þetta við 3. umr. málsins.