31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (1873)

158. mál, sútunar- og skófatnaðarverksmiðju

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég tek til máls vegna þess, að nú á síðasta ári hafa ýmsir menn leitað til stj. um stuðning í þessum efnum, og árangurinn er þegar kominn í ljós með brtt. við fjárlögin, en sá árangur er samt ekki annað en velvilji þingsins. Ég get um margt tekið undir með síðasta ræðumanni, en það þykir mér sárt, hve lítið verður úr íslenzkum skinnum; svo mikið er flutt inn af erlendum skófatnaði og skinnfatnaði, að enginn vafi leikur á því, að mikið gagn mætti hafa af íslenzkri framleiðslu á því sviði. T. d. gæti verið gott fyrir skinnaeigendur að leggja skinn sín inn og fá aftur fullbúna vöru, en ég er sammála um það, að hér eigi ekki að hafa stóra verksmiðju, þar eð hún er eingöngu ætluð til þess að fullnægja kröfum til heimanotkunar. Stærra rannsóknarefni er það, hvað skuli gera við þessi skinn. Ég vil ekki telja það útilokað, að hér geti risið upp skófatnaðargerð, sem framleiði inniskó og jafnvel vinnuskófatnað, þó að eitthvað af hráefni þyrfti að flytja inn til þess. En svo eru líka t. d. hanzkar og töskur, sem margt er gert úr íslenzkum skinnum, sem flutt eru út fyrir sama og ekkert verð, en koma svo inn aftur rándýr. Ég kom í fyrra í þorp eitt í Svíþjóð, Malyng í Dölum vestra. Þar var sútunarverksmiðja, ekki stór, en var samt grundvöllur skinnaiðjunnar í héraðinu. Menn lögðu skinn sín í verksmiðjuna og fengu þau fullsútuð, og svo var saumavél til þeirra nota á hverju heimili. Það, sem einkum var gert þar, var fatnaður úr sútuðum og klipptum gærum. Það hygg ég, að auka megi notkun á þeim hlýja og skjólgóða fatnaði hér á landi. Ég ber þess vegna fram brtt. við 1. lið b, og fer hún fram á, að bætt sé inn orðunum „og fleira“, nefnilega að þetta sé ekki bundið við skófatnað eingöngu. Ég álít, að óþarft sé að skýra þetta nánar, því að í orðunum liggur, að hér sé átt við allt, sem unnið verður úr íslenzkum skinnum. Ég skal ennfremur geta þess, að fulltrúar frá Kaupfélagi Suðurlands, Kaupfélagi Borgfirðinga, Mjólkurfélagi Reykjavíkur og Sláturfélagi Suðurlands hafa leitað til stjórnarinnar um aðstoð til þessara rannsókna, sem þeir álíta mjög æskilegar. Ég tel, að ekki megi seinna hefjast handa við þessa rannsókn, og legg til eins og síðasti ræðumaður, að till. verði samþ.