01.06.1933
Neðri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (1889)

209. mál, víxilskuldir á Austfjörðum vegna Síldareinkasölu Íslands 1931

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er skammt liðið síðan verið var að ræða hér fyrir

spurn um uppgerð síldareinkasölunnar. Eins og kunnugt er, þá var á síðastl. ári skipuð sérstök skilan., þegar bú einkasölunnar var tekið til skiptameðferðar, til að gera upp allt það sukk, sem þar átti sér stað. Það hefir reynzt vera mikið verk að kafa niður í allt það grugguga djúp, er þar þurfti að kanna. Það kom í ljós af svari hæstv. dómsmrh., að óuppfylltar kröfur nema 1.2 millj. kr., sem lítið eða ekkert er til fyrir. Það eina, sem til er, er eitthvað af gamalli síld, sem máske kann að seljast fyrir skiptakostnaði, sem óhjákvæmilega hlýtur að verða mikill.

Það hefir einnig verið upplýst, að kröfuhafar einkasölunnar byggi kröfur sínar á því, að ríkið beri í raun og veru alla ábyrgð á síldareinkasölunni og sé því skylt að greiða allar kröfur, sem á henni hvíla. En inn á þá skoðun hefir ekki verið gengið. Og í sambandi við það vil ég benda á, hvernig á þetta var litið 1928, á þinginu, þegar síldareinkasalan var stofnuð og rætt var um fjárhagslega ábyrgð ríkissjóðs á henni. Því var haldið fram af andstæðingum málsins, að búast mætti við, að ríkið bakaði sér fjárhagslega ábyrgð á skuldbindingum einkasölunnar. Hv. 1. þm. S.-M. og ég, sem þá var, illu heilli, samherji hans um að stofna síldareinkasöluna, tókum báðir fast í þann streng, að ekki kæmi til mála, að þingið skapaði með stofnun einkasölunnar ríkissjóði slíka fjárhagslega ábyrgð. Bæði þáv. þm. Dal., Sigurður Eggerz, og núv. hv. 3. þm. Reykv., sem báðir voru mótfallnir stofnun einkasölunnar, héldu því fram, að sú gæti orðið afleiðingin, að ríkið yrði að bera ábyrgð á skuldbindingum hennar. Ég sé, að ég hefi haldið því fram til andsvara þessari skoðun, að þetta kæmi ekki til nokkurra mála, og bar það saman við síldarbræðslustöð, sem valdið gæti fjárhagslegri áhættu fyrir ríkið og væri að því leyti gagnstætt einkasölunni. Enda er skýlaust ákveðið svo í l. um einkasöluna, að allur kostnaður við hana skuli greiddur af rekstrinum. Alveg hið sama kemur fram hjá frsm. meiri hl., hv. 1. þm. S.-M. Hann tekur það skýrt fram, að ríkissjóður baki sér enga fjárhagslega ábyrgð, þó síldareinkasalan sé sett á stofn, eins og gert var. Má um þetta lesa nánar í Alþt. frá 1928.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að það er vitanlega alveg sjálfsagt, bæði fyrir stj. og þá þingið að standa fast utan um stj. um að neita því gersamlega, að ríkið beri nokkra ábyrgð á þeim kröfum, sem gerðar eru í þrotabú síldareinkasölunnar, og forðast að gera nokkuð eða gefa nokkuð í skyn, hvorki með yfirlýsingum né samþykktum frá þinginu, sem veikt geti aðstöðu ríkisvaldsins í því að standa á móti þessum kröfum. Þetta er svo stór fjárupphæð, sem hér er um að ræða, að það yrði erfitt fyrir ríkissjóð að standa skil á slíkum greiðslum sem þessum, ef dómur félli á þá leið. En það er víst, að kröfuhafar í þrotabúi síldareinkasölunnar munu láta ganga dóm um það, hvort ríkið beri ábyrgð á þessu eða ekki.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að þessir menn fyrir austan, sem óneitanlega hafa orðið harkalega fyrir barðinu á þessu fyrirtæki, hefðu verið hastarlega sviknir af ríkisstofnun. Það mætti vel skilja þessi orð hv. þm. — með því að vera að bendla þessa ríkisstofnun við þessa sviksemi og fjárdrátt, sem þarna var höfð í frammi gagnvart þessum mönnum — þannig, að í þeim fælist, að stj. bæri ábyrgð á þessu sukki öllu saman. En því vil ég í krafti minna fyrri ummæla og ummæla hv. þm. (SvÓ) mótmæla, að um nokkra slíka ábyrgð geti verið að ræða.

Nú vil ég út af því frv., sem hv. þm. flutti um þetta mál á öndverðu þingi, þar sem farið var fram á að greiða af forgangskröfufé ríkissjóðs í búi Síldareinkasölu Íslands andvirði víxla þeirra, sem einkasalan ábyrgðist, og út af þeirri till. til þál., sem meiri hl. fjvn. hefir nú borið fram, benda á það, að það getur litið svo út, sem þingið álíti, að það sé þessu fyrirtæki ekki jafnóviðkomandi sem það í raun og veru er. Með þessu gæti verið gefin átylla fyrir aðra kröfuhafa í þrotabúinu til þess að rökstyðja þær kröfur sínar, að ríkið beri ábyrgð á síldareinkasölunni og beri að inna af hendi greiðslur, sem síldareinkasalan á ekki fyrir til þess að greiða upp í sínar skuldir.

Af þessari ástæðu vildi ég ekki í n. taka þátt í flutningi till., þar sem hún er sniðin og fram komin út af viðskiptum ákveðinna manna við þetta fyrirtæki og sem afleiðing af þessum viðskiptum, því það getur falið í sér viðurkenningu frá þinginu um, að það álíti sér skylt að grípa hér fram í. Ég er ekki alveg óhræddur um, að málstaður ríkisins gagnvart kröfuhöfum í þrotabúinu verði nokkuð veikari eftir að búið er að gera slíka samþykkt sem þessa. Það er hætt við því, að það gæti trauðla staðizt, sem hv. frsm. (ÞorlJ) var að tala um, að n. ætlaðist til, að ríkissjóður biði engan halla af því, þó slík ráðstöfun væri gerð að fresta því, að gengið væri að þessum mönnum á Austfjörðum. Það leiðir af sjálfu sér, að það er hætt við því að bankarnir muni ekki láta niður falla sinn rétt að lögum til þess að ganga að þessum mönnum.

Þess vegna þýðir ekki að tala um það, að skora á stj. að bjarga þessum mönnum frá því, að að þeim verði gengið. Það er ekki hægt að búast við neinum árangri öðruvísi en að stj. taki upp á sig fjárhagslegar ábyrgðir þessara manna.

En annars skal ég segja það, að svo tilfinnanlegt, sem það tjón er, sem þessir menn, eftir því sem af er látið, hafa orðið fyrir út af viðskiptum sínum við síldareinkasöluna, þá getur verið full ástæða fyrir þingið e. t. v. að hjálpa eitthvað upp á þeirra sakir, en bara undir engum kringumstæðum að gera það upp á þann máta, að það kæmi fram, að það sé í sambandi við viðskipti þeirra við síldareinkasöluna. Ef það þætti óhjákvæmilegt að hjálpa þessum mönnum eitthvað, þá yrði það að koma fram í allt öðru formi, og allt, sem snertir þessi viðskipti við síldareinkasöluna, yrði að þurrkast burt.

Ég vil þess vegna alvarlega vara við því að samþ. þetta mál á þessum grundvelli, þó hinsvegar gæti verið nauðsynlegt, að stj. gerði einhverjar ráðstafanir gagnvart þessum mönnum og fjárhag þeirra, án tillits til þess, sem hér liggur fyrir.

Ég þykist nú hafa gert fullkomlega grein fyrir því, hvers vegna ég vildi ekki eiga hlut í því í fjvn. að láta þetta mál koma þannig fram eins og það gerir í þessari till.