01.06.1933
Neðri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (1892)

209. mál, víxilskuldir á Austfjörðum vegna Síldareinkasölu Íslands 1931

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Eins og nærri má geta, þá er það ekki víst, að stj. geti komið því til leiðar, sem farið er fram á í till. En ég geng út frá því sem gefnu, að það verði reynt, og má vera, að það takist. En út af innihaldi till. sjálfrar vil ég segja það, að svo framarlega sem hún er samþ. með því fororði, að þetta sé gert af því einu, að ekki sé útilokað, að svo kunni að fara, að þessir menn fái eitthvað úr þrotabúi einkasölunnar, og að það sé tilgangurinn að skaffa þeim frest á meðan, get ég látið þessa till. óátalda. En ef það er tilgangurinn að gefa í skyn, að ríkissjóður hafi nokkra lagalega skyldu í þessu efni, sem maður skyldi nú ætla, að allir væru sammála um, að ekki sé, þá vil ég alvarlega vara við því, að gengið verði inn á þá braut, því að þá verður áreiðanlega farið í sama farið af öllum skuldheimtumönnum einkasölunnar.

Þar sem talað er um í till. að bíða þangað til úrlausn fæst, þá vil ég skilja það svo og tel mig þar vera í samræmi við hv. frsm. meiri hl., að átt sé við endanleg skipti í þrotabúi einkasölunnar. En hitt er auðvitað, að það er ekki hægt að skipa þeim, sem hlut eiga að máli, að bíða, en að sjálfsögðu verður reynt að fá þá til þess, ef till. verður samþ.

En hvað því viðvíkur, að menn hafi verið sviknir af einkasölunni, þá er það nýtt atriði í málinu, og sé svo, þá skilst mér, að þessir menn eigi kröfur á hendur forstjóranum persónulega, en ekki á hendur ríkissjóði. Og það kom, eins og hv. þm. Borgf. minntist á, skýrt fram í umr., þegar síldareinkasalan var sett á stofn, að ríkissjóður átti ekki að bera neina ábyrgð á þessu fyrirtæki. En náttúrlega eru forstjórarnir persónulega ábyrgir, ef þeir hafa svikið menn í viðskiptum við einkasöluna.

Ég hjó eftir því, að hv. 1. þm. S.-M. líkti síldareinkasölunni við Kötlugos og sagði, að svipuð ástæða væri til að hlaupa undir bagga og ef gos bæri að höndum. Það er komið annað hljóð í hans strokk nú en þegar hann var að berjast fyrir því að koma þessu Kötlugosi á 1928.