12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það var merkilega skammur tími, sem hv. 2. landsk. varði til þess að gera grein fyrir annmörkunum á samn. í samanburði við samninginn frá 1924. Hann minntist ekki einu orði á það aðalatriðið, sem veldur óánægju Íslendinga yfir að nú skuli eiga að endurnýja. Hættan er alls ekki fólgin í neinu af því, sem hann taldi upp. Það var þegar fyrir 1922, að Norðmenn kusu heldur að athafna sig utan landhelgi, vegna þess að of mikinn aukakostnað þótti leiða af að verka síldina í landi. Þetta hefir síðan haldizt og breyttist lítið 1924, svo lítið, að ég veit ekki til, að Norðmenn hafi yfir nokkra vertíð saltað meira en 30 þús. tunnur. Það er ekki þessi söltun, sem Íslendingum stendur stuggur af, ekki hvort Norðmenn flytja á land til söltunar 10, 20, 30 eða 40 þús. tunnur, heldur stafar sá ótti af öðrum ástæðum, þeim ástæðum, sem ég taldi upp, en þær eru fyrir hendi, hvort sem samningurinn frá 1924 heldur gildi eða samþ. verða þeir samningar, sem hér liggja fyrir. Um atriði þau, sem hv. 2. landsk. taldi upp, verð ég að segja, að þau eru smávægileg og sumt af því helber hégómi og misskilningur. T. d. fetti hann fingur út í það, að norska síldarverksmiðjan fengi að halda áfram að starfa; en þetta er auðvitað óbreytt frá 1924. Það er bara misskilningur eintómur, að þetta skapi sérstakan rétt eða öðlist hefð, því að þegar samningunum verður sagt upp, fellur þetta ákvæði auðvitað úr gildi alveg eins og önnur. Um það, að þessari norsku verksmiðju sé leyft að taka til meðferðar meiri afla af erlendum veiðiskipum en undanfarin ár, get ég frætt hv. 2. landsk. á því, að ekki var minna magn, sem henni var áður leyft, því að hún tók þá allan aflann, en nú er þetta þó takmarkað við 60%. Hvað snertir aukna sölu útlendinga á síld í land, þá er vafasamt, hvort 6. gr. hafi nokkur áhrif í þá átt. Áður mátti samkv. samningnum 1924 hvert skip selja í land 500—700 tunnur, og það voru þá um 140 þús. tunnur, sem tvímælalaust var leyft að selja. Ekki er auðvelt að sjá, hvað nú er leyfilegt vegna útilokunarskilyrðisins um samband við móðurskip. En mér skilst þó svo, að það sé algerlega bannað. Ég hefi nú heyrt því fleygt, að ómögulegt sé að kontrollera þetta, en slíkt er vitleysa ein. Þegar skipin koma að, verða þau vitanlega að sanna, að þau standi ekki í sambandi við móðurskip, og mun veitast auðvelt að konstatera, hvort satt sé sagt af leiðarbók skipsins. Hygg ég, að frádrátturinn verði fullkomlega nægur til þess að vega upp á móti þessu. Samkv. þessu sjáum við, að það er sízt meira, sem Norðmenn hafa leyfi til að selja í land heldur en verið hefir síðan 1924. Þetta er aðalatriðið, sem snýst um, að hve miklu leyti ísl. sjómenn missi atvinnu, en það er komið undir því, hve mikið af norskri síld er komið í land. Hitt er frekar formsatriði, enda vita allir, að þetta hefir alltaf verið gildandi síðan 1924, þó að það hafi þá aldrei verið skjalfest. Ég viðurkenni það, að réttindi þau, sem 3.—4. gr. skapar, voru ekki orðuð þannig áður, en þó hafa þeir við það haft svipaða aðstöðu. Það er að vísu leiðinlegt að hafa slík ákvæði, en það hefir enga praktiska breyt. í för með sér. Sömu ákvæðin voru framkvæmd eftir vinsamlegri túlkun 1924. Út úr því, sem ég hefi sagt, hefir hv. 2. landsk. skilizt, að ég væri að verja samninginn. En sá munur er á aðfinnslum okkar, að hann hefir ekki önnur efni til andmæla en útúrsnúninga og öfugmæli, og læt ég honum slíkar aðfarir fúslega eftir, en sjálfur hefi ég atriði, sem ég get alveg staðið við, og ef hv. þm. vill til hlítar kynna sér álít ísl. útgerðarmanna og sjómanna á þessu máli með viðtali við þá, og spyr, hvort þeir séu ánægðari með samkomulagið frá 1924, þá fær hann það svar, að það sé engu betra. Ég hefi sjálfur fengið það svar við þessari spurningu, að ekki sé hægt að gera upp á milli þessara tveggja samninga. En hvað er þá það, sem veldur hræðslunni við þá? Það eru breyttar kringumstæður. Menn eru nú hræddir um, að hvert einasta norskt skip noti sér leyfið. En afleiðingar þess gætu verið þær, að síldarmagnið yrði 140—160 þúsund tunnur.

Hvað það snertir, að Norðmenn vildu heldur hafast við utan landhelgi til söltunar á sinni síld, þá er nú svo ástatt, að nýr markaður hefir opnazt ísl. síld, en þann markað er Norðmönnum ókleift að notfæra sér vegna verri aðstöðu til verkunar, sem þeir einmitt skapa sér sjálfir, með því að álíta, að betur borgi sig að athafna sig í hafi úti. Í raun og veru er þetta eina ástæðan fyrir þá menn, sem hafa lýst því yfir, að séu ánægðir með samkomul. 1924 eins og hv. 2. landsk., til þess að vera á móti þessum samningum. Ég vil nú ekki hafa fleiri orð um þetta, en get þess eins, að þó að þessir samningar séu í raun réttri ekki annað en endurtekning á þeim gömlu, þ. e. a. s. frá 1924, þá getur þetta samt verið ástæða til andmæla nú.