12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Baldvinsson:

Ég vildi út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. benda á, að sú takmörkun á sölu síldar í land frá skipum, sem salta í móðurskip og önnur erlend skip, er í raun og veru gerð eftir ósk Norðmanna. Er þá ekki erfitt að sjá, að þeir ætla sér ekki að nota sér þetta. Enda segja samningamenn í grg. við samninginn, 6. gr.:

„Halda Norðmenn því fram, að með komu þeirra hafi síldveiðar Norðmanna færst yfir í hendur stórkapítalismans, en bæði sé það gagnstætt þróun norskra fiskveiða, og hafi auk þess orðið til þess að auka síldveiðarnar, en það skaði sameiginlega hagsmuni Íslendinga og Norðmanna“.

En sannleikurinn er sá, að þessir stóru leiðangrar hafa gefizt heldur illa. Sá eini leiðangur, sem ég þekki til, sem gerður var út í hitteðfyrra af hálfu Dana, bar sig alls ekki. (JakM: Það var með sócíalistisku fyrirkomulagi). Nei, það var „liberal“ íhaldsmaður, flokksbróðir þessa hv. þm., sem stóð fyrir þessum leiðangri. Það sýnir einmitt, að Norðmenn hafa óskað eftir því, að þetta takmark væri sett. Það sýnir annað. Það sýnir, að Norðmenn ætla sér að auka smáskipaútgerðina við Ísland, og það þýðir meiri sölu síldar hér í land, til hins verra fyrir okkur.

Ég held líka, að stórskipaleiðangrar hjá öðrum þjóðum gangi heldur stirðlega; en vitanlega hefir verðinu á síld frá þessum leiðangrum verið haldið uppi með gífurlegum tollum eða innflutningsbanni á annari síld. En við það er ekki hægt að miða.

Þá ætla ég að spyrja hv. 1. landsk. um það, hvernig hann hugsar sér að gefa stj. þessa heimild til að undirskrifa samninginn sem hreina bráðabirgðaráðstöfun, því að ég skil ekki, hvernig það má vera. Ef við samþ. samninginn, þá gengur hann í gildi, og honum er ekki hægt að segja upp fyrr en eftir heilt ár. Það hafa fleiri hv. þm. látið þetta í ljós, t. d. hv. 2. þm. S.-M., að þeir vildu segja upp samningnum við fyrsta tækifæri. Ég vil spyrja hv.

1. landsk.: Hvað á að þýða að samþ. samninginn í hendur stj. sem hreina bráðabirgðaráðstöfun? Er það ekki sama og að segja upp samningnum á næsta ári? Ég get ekki annað séð en að það líti út fyrir, eftir afstöðu þingmanna, að þeir í raun og veru samþ. samninginn frekar af því, að stjórnin hefir gert synjun hans fráfararatriði, heldur en að þeir séu sjálfir sannfærðir um, að samninginn beri að samþ. Og það er í rauninni það sorglega við þetta, ef hv. þm. halda svo fast í stj., að þeir þess vegna vilja gera stórkostlega skerðingu á atvinnumöguleika okkar Íslendinga.

Annars er það svo, að það hefir enginn tekið árinni eins djúpt og hv. 1. landsk. í andstöðu gegn þessum samningi. Þessi hv. þm. var sannfærður um, að þessi samningur væri „verzlun með landsréttindi“. Á hann ekki erfitt með, eftir þessa skorinorðu yfirlýsingu, að greiða samningnum atkv. sitt? Eiga þeir menn ekki erfitt með slíkt, sem telja sig sjálfkjörna til að vera sí og æ á verði fyrir sjálfstæði landsins?