12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. 2. landsk. gaf ágæta lýsingu á röksemdafærslu sinni yfirleitt og þeirra félaga hans í þessu máli, þegar hann fór að tala um móðurskipin. Hann gerði grein fyrir sinni skoðun á því ákvæði, sem fer í þá átt óbeinlínis að banna alla sölu í land af afla skipa, sem annars leggja síld í móðurskip til söltunar, á þá leið, að þetta yrði nú bara til bölvunar. Nú er hann búinn að segja, að aðalhætta af þessum samningi sé sú, að Norðmenn leggi meiri síld í land til söltunar. Þó kallar hann það bölvun, þegar útilokuð er sjálfsagt ekki lítil tala skipa frá þeim möguleika. (JBald: Þeir ætla að hætta við þau!). Nei, hann lætur sér ekki detta í hug, að útgerð, sem búið er að reka í meira en tug ára, hætti allt í einu, útgerð, sem á undanförnum árum hefir ekki byggt neitt á sölu í land. Því að þessi útgerð var rekin meðan síldareinkasalan starfaði og auðvitað stuðningslaust af þeim hlunnindum, sem það fyrirkomulag hafði í för með sér. Það þarf engum að detta í hug, að hún hætti allt í einu. Hitt má vera, að fiskistjórnin norska vilji eitthvað breyta þróun fiskveiðanna hjá þeim, en sú breyt. verður ekki í skjótri skipan.

Það er þess vegna áreiðanlega gott að fá þetta ákvæði í samninginn, að minna megi selja í land. Hvort uppástungan kom frá norskum aðiljum eða íslenzkum, skiptir engu máli, sama hvaðan gott kemur. Þetta er nú góður spegill af röksemdafærslu hv. 2. landsk. og félaga hans í þessu máli. Enda er það vitanlegt, að það er í raun og veru ekki gæði eða gallar samnings, sem þeir vilja meta, heldur möguleikann til þess að slá pólitíska mynt af mótstöðu gegn samningnum. Þeir hafa aldrei komið auga á aðalatriðið, en einungis ætlað að nota stundaræsingu til þess að afla sér fylgis. Þar sem hv. 2. landsk. minnist á dönsku útgerðina, þá er það satt, sem ég sagði, að það er meira og minna sócíalistisk útgerð. Þó að henni sé stjórnað af sérstökum framkvæmdarstjóra, þá vita allir, að danski forsrh. hefir verið mjög áhrifamikill maður í þessum framkvæmdum, og ég get ekki tekið það öðruvísi en sem stór kompliment, þegar hv. 2. landsk. segir, að þessi framkvæmdarstjóri, sem hinn mikilsmetni skoðanabróðir hans í Danmörku hefir valið, sé maður svona á borð við mig, hvernig sem þessi maður er nú. Og þótt mig langi nú ekkert sérstaklega mikið til að líkjast honum, þá hlýtur þetta að vera meint sem kompliment. Ég veit, að hv. 2. landsk. hefir það traust á flokksbróður sínum í Danmörku, að hann muni ekki velja menn af lakari endanum til forstöðu slíkra fyrirtækja og ég get þakkað hv. þm. þessa meiningu.