12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Það er komið að lokum þessarar umr. og ég býst ekki við að lengja hana mikið, en vildi segja fáein orð um málið áður en það fer úr d. Ég býst við, að fullyrða megi, að h. u. b. allir þm. og h. u. b. allir utanþingsmenn séu óánægðir með ástandið, sem samningarnir gera ráð fyrir að verði milli Noregs og Íslands nú um næstu ár. Þar fyrir er þó ekki annað sagt en að þessi er grunntónninn í málinu, að ísl. þjóðin virðist skoða þessa aðstöðu, sem við sumpart erum i, sem neyðarúrræði. Fram er lagt í móti, að á þessum tollmúra- og verzlunartímum hafi stór hluti ísl. þjóðarinnar ekki ráð á því að kasta frá sér markaði, sem þó tekur á móti um 2/3 af því útflutningsmagni kjöts, sem að líkindum verður hægt að flytja héðan út næsta haust.

Ég ætla þá að minnast fáum orðum á málið eins og það nú horfir við. Ég býst við, að það hafi e. t. v. verið sagt af öðrum, því að ég hefi ekki alltaf verið við umr. Aðalgalli þessa samnings er ekki sá, að hann sé óheppilegur fyrir oss gagnvart norsku þjóðinni, þó að hann standi í 1 eða 2 ár. Þann skaða getum við lifað af. Hitt er verra, ef sú aðstaða, sem við bæði með þessum samningum og samningunum 1924 verðum fordæmdir fyrir, verður til þess að við þurfum gagnvart öðrum þjóðum að gera samninga, sem verða óhagstæðir — samninga, sem við verðum að láta standa eftir að við e. t. v. höfum sagt upp þessum samningi. Ég álít, að aðalhættan fyrir okkur liggi í því, að reynt verði af öðrum þjóðum að krefjast þess, að þær fái hliðstæð hlunnindi eins og Norðmenn hafa nú vegna verzlunarsamningsins frá 1924, sem nú er staðfestur með nokkrum breyt. Ef svo vel tækist, að í samningnum við Englendinga, sem nú stendur fyrir dyrum, væri sneitt hjá þessari hættu, þá væri miklu minna í húfi. Okkar aðstaða við Norðmenn er þannig, að henni gæti orðið breytt innan skamms án óþæginda fyrir Íslendinga, en Englendingar eru þjóð, sem við þurfum alltaf að kaupa mest frá og selja mest til, og sú þjóð, sem hefir þá aðstöðu, sem er okkur miklu meiri ofjarl en frændur okkar í Noregi. Ég vil ennfremur minnast á, í sambandi við þessa opnun á fiskiveiðalöggjöfinni, sem gerð var bæði 1924 meira og minna óljóst, og nú aftur töluvert skýrar, að hún setur landhelgisgæzluna okkar í ákaflega mikla hættu. Það var náttúrlega eins óheppilegt og hægt var að gefa Norðmönnum fyrirheit um það 1924, að þeir skyldu fá í landhelgismálunum „velviljaða aðbúð“. Ekki af því, að nokkur Íslendingur óski eftir því að vera ranglátur, heldur af því að þessi orð: „velviljuð aðbúð“ voru svo ónákvæm, að í þau ,mátti leggja hið mesta ranglæti frá hálfu Norðmanna. Þessi ákvæði eru nú gerð skýrari, og er það að sumu leyti kostur, en um leið er þeim veitt meiri eftirtekt af öðrum þjóðum og stafar meiri hætta af því sem fordæmi. Ég vil t. d. benda á, að svo framarlega sem útlend veiðiskip frá Englandi, Frakklandi, Spáni og Þýzkalandi geta haldið því fram, að ekki sé að marka mælingar varðskipanna, því að sökudólginn hafi rekið fyrir straumi og vindi inn í landhelgina, þá geri ég ráð fyrir, að erfitt verði fyrir Ísland að halda uppi landhelgisgæzlu, sem sé nokkurs virði. Í þessu liggur þó ekki nein sérstök ásökun, hvorki til landsstj. né til samningamannanna. Það er einungis raunveruleiki málsins, sem liggur þannig fyrir, að aðstaðan hefir neytt stj. og samningamennina og nú síðast þingið til þess að ganga inn á þá meðferð á þessu máli, sem er algerlega í ósamræmi við það, sem þjóðin, ekki einungis fiskimennirnir, heldur mikill meiri hl. bændastéttarinnar — álítur rétt. Ég verð að játa undrun mína í ljós yfir því, að þeir menn, sem mest hafa gengið á móti þessu máli og sennilega hafa á réttu að standa, skuli ekki fyrr hafa komið með þá uppástungu að reyna að leysa þetta mál með því að ríkið keypti kjötið og ráðstafaði því með nokkrum hætti þannig að væri til alþjóðarheilla. Svo framarlega sem sú kritik er réttmæt, að samningurinn geri sjávarútvegsmönnum svo stórkostlegan skaða, þá er það mikið athugunarefni, hvort ekki borgaði sig, að ríkið keypti á næstu 5—6 árum þetta magn af kjöti fyrir sama verð og er í Noregi á hverjum tíma eða yrði í Englandi á frystu kjöti, og leggja síðan út á þá braut, sem við komumst á fyrr en varir, að slíta verzlunarskiptunum við Norðmenn, til þess að þurfa ekki að hafa þá í landhelginni og svo nálægt, sem þeir eru nú. En eins og ég sagði áðan, þá harma ég það ekki svo mjög, þótt þjóðin yrði að bíða af þessu ástandi nokkurn halla skamman tíma. Það mætti laga, ef ekki væri nema um Norðmenn að ræða. Þá mætti bæta úr þessu með því að hafa einskonar einkasölu á síld. Og þótt ég ekki hæli öllum rekstri einkasölunnar gömlu, þá verður ekki um það deilt, að ef hún hefði verið nú, myndu Norðmenn ekki hafa lagt áherzlu á að selja í land, því að þeir vilja fá að verzla sjálfir. Því væri það hugsanlegt úrræði gagnvart Norðmönnum að hafa einkasölu á síld meðan samningurinn stæði, til þess að Norðmenn yrðu ekki svo fúsir á að leggja síld í land til þess að tapa yfirráðaréttinum yfir sölunni. Ég geri ráð fyrir, eins og sumir aðrir þm., sem talað hafa, að svo framarlega sem rætist sá uggur, sem er í hugum manna í sambandi við fríðindi þessa máls, þá muni ekki líða á löngu þangað til þeim verði sagt upp aftur, þótt þeir verði samþ. nú, sem í rauninni er ekki hægt annað en gera, þar sem Íslendingar hafa þegar að nokkru leyti notið hlunninda samninganna. Ég vona, að úr því máli rætist þó betur áður en mörg ár líða og um leið verður maður að vænta þess, að með þeim samningum, sem nú er verið að gera við Bretland, haldi menn sig á þeim grundvelli, að þessi samningur sé svo sérstaks eðlis, að hann skapi ekki fordæmi fyrir öðrum samningum.