12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Hv. 2. landsk. spurði, hvað það ætti að þýða, að ég vildi samþ. þessa heimild handa stj. sem bráðabirgðaráðstöfun. Það á að þýða svona hið sama og hv. 2. þm. S.-M. var búinn að orða hér áður og ég er búinn að skýra frá. Það er fyrst og fremst til þess að bíða eftir niðurstöðu ensku samninganna, og til þess þar á eftir að gera sem fljótast að mögulegt er þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að losna við saltkjötsmarkaðinn í Noregi. En fyrst þegar ensku samningunum er lokið getum við vitað, hve stórt verkefnið er, sem í þessu síðara felst. Ég er óhræddur, eftir þær umr., sem hér hafa orðið um þennan samning, bæði innan þings og utan, að samkomulag verði um að gera allt til að ná þessu marki, svo framarlega sem ekki fer svo illa, að eitthvað þurfi, sem er algerlega ókleift efnahagslegri getu þjóðarinnar. En það vil ég vona, að ekki verði. Í sambandi við þetta og út af því, sem hv. 5. landsk. sagði um hið sama, vil ég aðeins geta þess, að sú uppástunga, sem nú hefir komið fram í frv.formi frá hv. 2. landsk. um að endurgreiða ísl. útflytjendum tollmun eða kaupa af þeim kjötið eftir því sem á stendur, allt að 11500 tunnum, kemur nú fram á þeim tíma, að ég fyrir mitt leyti sé ekki, að unnt sé að taka afstöðu til hennar, þar sem ekki er unnt að vita, hvort hún leysir spursmálið á þessu sviði, sem eftir verður, þegar lokið er ensku samningunum. Ef maður vissi, að ekki væri um annað að ræða að því er kjötútflutninginn snertir en kaup á 11500 tunnum og ráðstafa þeim svo með einhverju móti, þá hefði ég ekki hikað við að ganga á móti þessum samningum og tekið hinn kostinn. En ómögulegt er að vita í dag, hvort þessi ráðstöfun nægir. Þess vegna álít ég líka, að hvað hann snertir sé nauðsynlegt að útvega sér frest til ákvörðunar í málinu, þangað til lokið er ensku samningunum, og ég sé ekki aðra leið til þess en að veita stj. þá heimild, sem farið er fram á hér í dag.

Hv. 2. landsk. vék svo í ræðu sinni ekkert að þeirri ástæðu, sem ég bar fram og sem hefir þau áhrif, að ég treysti mér ekki að taka á mig þá ábyrgð, að þetta frv. verði fellt, heldur fór hann að gera mér upp ástæður, sem sjálfsagt eru nokkru nær hans huga, sem sé, að ég vildi halda í stj. En það liggur alveg utan við hjá mér. Ég álít, að ekki eigi að koma til mála að stj. geri þetta að fráfararefni. (JBald: Hún hefir lýst yfir því). Ég hefi ekki heyrt hana gera það. (JBald: Hún gerði það í Nd.). Hitt skal mér vera ánægja, bæði fyrr og síðar, að hv. 2. landsk. minni á hin alvarlegu orð, sem ég lét falla við 2. umr., að við eigum að varast að verzla með landsréttindi í staðinn fyrir tollivílnanir, og ég hefi fyrir nokkru borið fram frv. hér í þinginu, sem er nauðsynlegt til þess að við ekki þurfum að leiðast í slíka freistni framvegis, þegar líkt stendur á og staðið hefir á gagnvart Norðmönnum.