12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Halldór Steinsson:

Örstutt aths. út af ræðu hv. 1. landsk. Hann lagði aðaláherzlu á það í ræðu sinni, að ekki bæri að hafna þessum samningi, vegna þess að yfir stæðu samningaumleitanir við Englendinga, og væri ekki útséð um, að hve góðum kjörum þar yrði komizt. En í þessu sambandi gleymdi hv. þm. algerlega aðalatriðinu í þessu máli, og það er, að kjötmarkaðurinn í Noregi hefir farið stórminnkandi ár frá ári og er um það bil að lokast. Þetta er svo stórt atriði, að því má ekki gleyma í sambandi við þetta mál. Því legg ég ekki eins mikla áherzlu á, hver úrslitin verða í Englandi. Við stöndum alla vega illa að vígi í Noregi, hvað sem verður ofan á í Englandi. Það er ekki nægilegt að hafa lágan toll á kjöti til Noregs, ef Norðmenn ekki vilja kaupa kjötið. Þess vegna hefir þetta afarmikla þýðingu. Málið liggur hreint og opið fyrir. Við verðum að gera okkur það ljóst, að við þurfum ekki að byggja á neinum verulegum markaði framvegis í Noregi, og þess vegna verðum við að leita markaðs fyrir okkar kjöt annarsstaðar, og ef samningar við Englendinga bregðast, verður að fara aðrar leiðir.

Eins og ég gat um í ræðu minni í gær, þá legg ég ekki sérstaklega mikla áherzlu á, hvort þessir samningar verða samþ. eða ekki. Ég skoða það einungis sem bráðabirgðaráðstöfun, ef samningurinn verður samþ., því að við myndum búa við sama ástandið yfirstandandi ár, hvort sem væri. Því endurtek ég það, sem ég sagði í gær, að ég trúi því fastlega, að þessum samningi verði sagt upp jafnskjótt sem ákvæði hans leyfa.