30.03.1933
Neðri deild: 40. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

109. mál, stimpilgjald

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er eins um þetta mál og næsta mál á undan, að n. leggur til, að það verði samþ. með dálítilli breyt. Það er svo, að af mörgum hefir verið látið undan falla að þinglesa eignaskipti, sem fara fram, þegar skipt er búi, vegna þess að stimpilgjaldið er æðihátt. Hinsvegar er ósanngjarnt, að t. d. kona, sem á óskiptan fjárhag með manni sínum og á þess vegna hálft búið — í sumum tilfellum hálfar jarðirnar, sem skipt er —, þurfi að greiða stimpilgjald af yfirfærsluupphæð síns hluta félagsbúsins, af því að nálega í öllum tilfellum er það svo, að maðurinn er talinn fyrir eigninni í veðmálabókunum. Það er í slíkum tilfellum hin mesta ósanngirni, að greiða þurfi stimpilgjald fyrir slíka yfirfærslu á eigninni, þar sem hér er ekki um eignaafsal að ræða, heldur yfirtekur konan einungis sinn hluta. Sama má segja, þegar erfingjar fá útlagt í arfshlut og þurfa að láta þinglesa eignarheimildina, þar sem þeir hafa greitt erfðafjárskatt, að einnig skuli þurfa að greiða stimpilgjald. N. er sammála flm. um, að rétt sé að leiðrétta þetta og að slík yfirfærsla, þegar ekki er um afsal að ræða, skuli vera stimpilgjaldsfrjáls. Í mörgum tilfellum er það svo, að einn erfingjanna kaupir eignina og þarf að fá eignarafsal fyrir því, sem hann ekki fær upp í sinn arfshlut. Verður hann þá að sjálfsögðu að greiða stimpilgjald af því, sem hann kaupir af samörfum sínum. Til þess að koma á samræmi í þessu að því er snertir opinber skipti og erfingjaskipti, þá flytur n. brtt. um, að á eftir orðunum „úr skiptabók“ komi: og önnur skjöl. Með þessu er átt við útdrátt úr erfingjaskiptum. því að það væri ekki samræmi í að stimpilskylda öll slík skjöl, þar sem eignayfirfærsla hefir farið fram við erfingjaskipti. Þetta er gert til þess að samræma svo erfingjaskipti, að þau hlíti sömu reglum sem opinher skipti hjá valdsmönnum. Vænti ég svo, að d. sjái sér fært að samþ. frv. með brtt. n.