22.03.1933
Efri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Jón Baldvinsson:

Ég vil beina því til hv. flm. og n. að athuga, hvort heppilegt muni vera að veita þetta lögveð í skipum, sem farið er fram á í 2. gr. frv. Held ég, að þetta geti einmitt valdið drætti á greiðslu gjalda, þó að flm. hafi viljað varast það. Myndi það geta komið sér illa fyrir þá, sem lána skipum kol, salt o. fl., að vita ekki fyrr en eftir eitt ár, að svo og svo mikið hafi safnazt upp af gjöldum, því að það geta orðið stórar fjárhæðir á heilu ári. Held ég, að betra væri fyrir höfnina að innheimta heldur öll gjöld tafarlaust. Þeim, sem lána til útgerðarinnar, kæmi þetta betur, og skipin hefðu þá öruggara lánstraust. Væri þá vitað fyrirfram, hversu mikið lánsfé þyrfti til að leggja: Væri eðlilegast, að fyrirtæki eins og höfnin gæti fengið sína peninga strax, en væri ekki að gefa skipunum undir fótinn um að draga þetta í heilt ár.