22.03.1933
Efri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Flm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Það kann að vera, að sú krafa láti vel í eyrum, að heimta skipagjöld jafnóðum. En hér er aðallega um að ræða gjöld af fiskiskipum. Gjöld af útlendum skipum eru auðvitað alltaf tekin áður en skipunum er sleppt. Innlend fiskiskip koma og fara á öllum tímum sólarhringsins. Tíminn er þá jafnan svo dýrmætur, að ekki er forsvaranlegt að tefja skip um svo mikið sem einn klukkutíma til þess að heimta inn gjöldin. Reynslan hefir orðið sú, að þeir, sem skammta útveginum lánsfé, eru þess ekki megnugir að veita svo ríflegt rekstrarfé, að skipið geti þegar greitt öll áfallin gjöld, fyrr en aflinn selst. Vona ég, að hv. sjútvn. leiti upplýsinga um þetta hjá hafnarstjóra Reykjavíkur og taki svo fullt tillit til þeirra upplýsinga. Hér er ekki verið að fara fram á annað en það, sem telja verður nauðsynlega ráðstöfun, eins og nú er ástatt.