06.04.1933
Efri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. (Jakob Möller):

Ég held, að það sé nokkuð mikill ábyrgðarhluti fyrir Alþingi að taka fram fyrir hendurnar á bæjarstj. Rvíkur, þegar ágreiningur verður milli hennar og stjórnar eins af fyrirtækjum bæjarins. Slíkur ágreiningur getur oft komið upp, og þá er þess að gæta, hvort meira á að meta þá hagsmuni, sem allsherjarstjórn bæjarins á að svara fyrir, eða hagsmuni einstakra fyrirtækja bæjarins. Finnst mér, að í slíkum tilfellum geti ekki verið álitamál, hvað á að ráða.

Til þess ágreinings, sem hér er um að ræða, liggja sérstakar orsakir, sem mér þykir rétt að segja hér frá. Eftir því, sem ég bezt veit, er þessi krafa um að lengja kjörtímabil hafnarstj. fram komin vegna ágreinings, sem varð á síðastl. ári um gjöld til hafnarinnar. Var þar aðallega að ræða um gjöld af fiskiskipum. Bæjarstj. vildi ganga lengra í því að létta gjöldum af útgerðinni heldur en hafnarstjórn vildi fallast á. Mér finnst eðlilegt, að bæjarstj. fái að ráða, þar sem gilda heildarhagsmunir bæjarins gagnvart fjárhag hafnarinnar. Það verður að treysta bæjarstj. til þess að fara ekki lengra en fært er hafnarinnar vegna. Hinsvegar er ekki nema skiljanlegt, að hafnarstj. vilji hag hafnarinnar sem mestan. Sá varnagli, að láta hafnarstj. hafa neitunarvald í bili gagnvart þeim ráðstöfunum bæjarstj., sem snerta fjárhag hafnarinnar, ætti að vera nægileg trygging gegn því, að bæjarstj. gangi í fljótræði lengra í því að þrengja hag hafnarinnar heldur en fært er.