13.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Ingvar Pálmason:

Við fyrri hluta þessarar umr. mæltist ég til þess, að málið yrði tekið út af dagskrá, vegna þess að þá kom fram brtt. við frv. Hafði mér og sjútvn., sem hafði málið til meðferðar, ekki gefizt kostur á að athuga þessar brtt., og þess vegna óskuðum við eftir, að málinu yrði frestað. Nú hefir sjútvn. athugað þessa brtt. og komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki sé heppilegt að samþ. hana. Það má að vísu segja, að Reykjavíkurhöfn sé svo fjárhagslega tryggt fyrirtæki, að það gæti haft sína eigin stjórn út af fyrir sig. En til þess bendir þessi brtt., að hafnarnefndin verði að mestu einráð um mál hafnarinnar. Því að þegar svo er fyrir séð, að hafnarnefndin er ekki kosin nema á 4 ára fresti, þá er erfitt fyrir bæjarstj. að grípa inn í starfssvið hennar. En þetta telur n. ekki heppilegt, því að eins og áður er tekið fram, þá má líta á þetta sem sjálfstætt fyrirtæki, og án þess að fá nokkurt framlag úr bæjarsjóði geta ákvæði hafnarnefndar gripið þannig inn í bæjarmálin, að ekki sé heppilegt að ganga inn á slíkar ráðstafanir, enda veit ég ekki til, að þetta hafi nokkursstaðar átt sér stað. Mér finnst, að hafnarnefndin eigi að lúta sömu ákvæðum og aðrar nefndir, sem bæjarstjórn kýs. Ég sé því enga ástæðu til, að þessi brtt. nái fram að ganga, því að hún miðar að því að gera hafnarnefndina einráða, og það er áreiðanlega ekki til bóta, því að ýmsar ráðstafanir hennar gætu snert hag bæjarins. N. leggur því eindregið til, að þessi brtt. verði felld.