15.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Ingvar Pálmason:

Ég skal ganga inn á það, sem hv. 4. landsk. sagði, að hér sé ekki um neina hættu að ræða. En, ef til þess kæmi, að eitthvert ósamræmi kæmi fram milli hafnarnefndar og bæjarstjórnar um ákvarðanir hafnarnefndar, þá tel ég tvímælalaust, að ákvörðunarrétturinn eigi að vera í höndum bæjarstjórnar. Því að þótt hv. 4. landsk. færði það sem rök fyrir sínu máli, að þetta fyrirtæki væri með öðrum hætti en önnur fyrirtæki bæjarins, af því að það snerti svo mjög mikið hag annara landshluta og útgerðina utan Rvíkur, þá getur verið spursmál, hvort þetta eru ekki einmitt rök fyrir því gagnstæða.

Það getur verið álitamál, ef hafnarnefndin aðhefðist eitthvað það, sem ekki væri fullkomlega réttmætt í garð þessara aðilja, að þá væri réttara, að úrskurðarvaldið væri í höndum bæjarstj., svo að hún gæti skipt um hafnarnefnd, og komið henni í samræmi við vilja bæjarstjórnar. En hitt játa ég fúslega, að ekki eru miklar líkur til, að þetta muni valda ósamræmi milli bæjarstjórnar og hafnarnefndar, en kæmi til þess, þá álít ég að úrskurðarvaldið eigi að vera í höndum bæjarstjórnar.