20.02.1933
Neðri deild: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

1. mál, fjárlög 1934

Héðinn Valdimarsson:

Við stj.andstæðingar, Alþýðuflokksmenn á þingi, munum ekki hefja eldhúsumræður okkar nú, frekar en venja er til, heldur fresta þeim til frh. 1. umr. Þó vil ég þegar gera örfáar aths. út af ræðu hæstv. forsrh. og upplestri talna, sem hér hefir farið fram. Það lítur út fyrir, að hæstv. forsrh. sé ekki sem verst ánægður með afkomu ríkissjóðs, en ég hygg, að við stjórnarandstæðingar munum ekki vera það. Hann talaði talsvert um sparnaðarvilja sinn og stj. En af tölum þeim, sem hann las upp, sé ég ekki, að reynt hafi verið að spara annarsstaðar en á þessum 4 atriðum: Verklegum fyrirtækjum 30 þús. kr., vegum 222 þús., vitum 50 þús., vísindum og listum 7 þús.

Eftir þeim tölum, sem hæstv. forsrh. las upp, hefir á öðrum sviðum allt farið fram úr áætlun.

Mér finnst satt að segja, að á þeim erfiðu tímum, sem nú eru sökum atvinnuleysis til sjávar og kreppuvandræða til sveita, þá eigi frekar að spara á öðrum liðum en þessum. Þá má einnig geta þess, að tekjur hafa farið fram úr áætlun um 1600 þús. kr., svo að tekjuhalli er í raun og veru töluvert mikill, ef maður tekur þetta með. Tekjuhalli var ekki áætlaður nema 200 þús., en hann varð 11/4 millj., og greiðsluhallinn 21/4. Ef tekjurnar hefðu ekki vaxið á þann hátt, sem hæstv. forsrh. lýsti, þá hefði tekjuhallinn því orðið miklu meiri, eða kringum 3 millj. og greiðsluhallinn 4 millj. Ég veit ekki, hvort hægt er af þessu að sjá sérstakan vilja hæstv. stj. til að færa í betra lag fjárhag ríkissjóðs.

Þá vil ég að lokum beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvar séu falin útgjöld til ríkislögreglunnar, sem hvergi koma fram, hvort þau eru í dómgæzlunni, eða hvort þau séu í 22. gr., sem felur í sér heimild. Nú er öllum kunnugt, að þessi útgjöld ríkisstj. eru gerð í algerðu heimildarleysi og algerlega að óþörfu. Er óskiljanlegt, hvernig nokkur ríkisstj. hefir farið að eyða peningum á þennan hátt. Væri mjög æskilegt að fá að vita, hvar þessi útgjöld eru falin, hve mikil þau voru til síðustu áramóta og hve mikil nú á hverri viku. Þetta hygg ég, að hæstv. forsrh. viti, en ef ekki, þá veit a. m. k. hæstv. dómsmrh. gerla um þessa hluti.