11.03.1933
Neðri deild: 22. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

90. mál, vitagjald

Flm. (Magnús Jónsson):

Eins og flestum mun vera kunnugt, þá hefir farið mjög í vöxt á síðari árum, að gufuskipafélög hafi sent hingað stór skemmtiferðaskip. Farþegar munu vera aðallega verzlunarmenn og hinir og þessir, sem eru að taka sér sumarfrí. Þessar ferðir aukast svo gífurlega á síðari árum, að móttaka þeirra er orðinn stór liður í búskap þeirra þjóða, sem þau heimsækja, sérstaklega við Miðjarðarhafið og svo aftur í norðurvegum, Noregi og Spitzbergen, Eistlandi, Leningrad og Finnlandi. Í Noregi er þetta orðinn mjög mikill liður, þótt náttúrlega sé langt frá, að í honum sé innifalinn nær allur hagur, sem Norðmenn hafa af ferðamönnum. Það er sagt, að slík línuskip komi sem svarar annanhvern dag til Noregs að sumrinu og hvert skip skilji eftir mikla peninga, sem eru algerlega fundið fé.

Nú á síðustu árum eru nokkur þessara gufuskipafélaga farin að taka Ísland á áætlun sína. Þau hafa tekið Reykjavík og jafnvel stundum Akureyri. En árangurinn hefir ekki orðið eins mikill og búast hefði mátt við. Sum félög eru hætt við þetta. Fullyrt er af ýmsum, sem skrifað hafa hingað, — því að grennslazt hefir verið eftir ástæðum fyrir þessu af mönnum, sem hafa áhuga fyrir þessum ferðum hér —, að ástæðan sé engan veginn sú, að ómerkilegt þyki að koma hingað, heldur hitt, að Reykjavík sé langdýrasti staðurinn á öllum jarðarhnettinum, þar sem þessi skip koma. Og það er vitagjaldið, sem þessu veldur. Vitagjald fyrir skemmtiferðaskip er sérstaklega ákveðið í l. um vitagjald, 40 aurar á nettósmál.; með 25% gengisviðauka verða það 50 aurar. Og þetta vitagjald verður svo sérstaklega tilfinnanlegt, af því að skipin eru svo geysilega stór. Það mun nema frá 4 þús. og upp í eða yfir 6 þús. kr. á skip. Þó að þetta séu ekki stórar upphæðir á rekstri slíkra gífurlegra fyrirtækja, þá er nú þessum fyrirtækjum stjórnað með mikilli nákvæmni. Hvort þau munar lítið eða mikið um hlutinn, þá er ekkert gert, nema það, sem borgar sig, þetta sést m. a. á því, að þótt þetta gjald sé ekki nema 15—20 kr. á farþega, þá taka þeir þetta gjald inn á einhvern annan hátt en í fargjöldum, t. d. með því að selja ýmislegt í landi, sem skipið útvegar, þeim mun dýrara verði en keypt er. Svo er um fargjöld með bifreiðum.

Nú hefir það komið upp, að þessi félög hafa skrifað hingað og farið fram á, að þetta vitagjald yrði lækkað, því að öðrum kosti mundi Reykjavík verða strikuð út af áætluninni. Það er engin ástæða til að taka þetta sem hótun frá félögunum. Þau munar ekki svo mikið um það. Fyrir okkur er þetta meira keppikefli, það sér maður á upplýsingum úr bréfi, sem ég prentaði kafla úr í grg. Samkv. þeim er vitað um ítalskt skip, sem kom hingað fyrir nokkrum árum, en kom aldrei aftur, og kváðust þeir ekki koma vegna vitagjaldsins. Hollenzkt skip, sem hingað kom tvisvar, strikaði Reykjavík aftur út af áætlun sinni. Sama er að segja um þýzkt skip og tvö ensk. Þessi skip halda áfram ferðum til Noregs. Eina ástæðan fyrir því, að þau strikuðu Rvík út af áætlun sinni, er sú, að þeim þykir vitagjaldið ósanngjarnlega hátt.

Ég hefi hér í höndum tvö bréf, annað frá Hamborgar-Ameríkulínunni, en hitt frá svensku Ameríkulínunni, sem hv. þm. geta átt aðgang að, ef þeir óska, til þess að kynna sér nánar.

Til að sýna, hvernig aðrar þjóðir, sem hér eiga hlut að máli, hafa farið að, má benda á, að Norðmenn taka ekkert vitagjald af slíkum skipum, til þess að hæna þau að sér. Þau verða að borga hafnsögumanni og önnur smágjöld. En Eistlendingar og Rússar hafa algerlega afnumið vitagjöld fyrir þessi skip. Hér er ekki farið fram á slíkt. En það er trú þeirra manna, sem þekkja þetta bezt, að skipin mundu ekki láta vitagjaldið standa í vegi, ef það væri fært niður um helming, og því er farið fram á það í þessu frv., þó að vel gæti verið hyggilegra að afnema það alveg.

Ég vil láta það koma skýrt fram, að engum dettur í hug að lækka vitagjaldið fyrir skipafélögin, nema í þeirri von að hafa meira í aðra hönd en lækkuninni nemur. Þetta frv. er því til að tryggja hærri upphæð í vitagjöldum en áður. Og það eru einnig aðrir peningar, sem fljóta af þessum skipum. Mér er sagt, að hvert þeirra muni skilja eftir eitthvað um tíu þús. kr. Og þó að við mundum ekki geta borið okkur saman við Noreg í þessu efni, þá gætu t. d. 10—30 skip skilið talsvert fé eftir, sem munaði um. Því er ekki rétt að kasta frá sér, sérstaklega vegna þess, að það er algerlega fundið fé og ekkert lagt í sölurnar fyrir öflun þess. Þessu vildi ég þá beina til hv. n., hvort hún telur ekki vera um fjárhagsatriði að ræða, sem vert er að taka tillit til.

Ég vil svo leyfa mér að óska, að málinu verði vísað til 2. umr. og til fjhn.