20.02.1933
Neðri deild: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

1. mál, fjárlög 1934

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég er sömu skoðunar og hv. þm., sem síðast talaði, að það beri ekki að færa eldhúsdaginn yfir á þennan framsögudag fjárlaganna, og mun sama og engu svara hans aths. að þessu sinni.

Ég hefi aðallega borið útgjöldin saman við reynslu fyrra árs. Þegar mæla skal sparnaðarviðleitnina, þá dugir ekki það eitt að bera útgjöldin saman við áætlun, heldur verður hitt miklu sannari mælikvarði að bera saman við undanfarandi reynslu. Tekjurnar voru hærri á einstökum liðum en gert var ráð fyrir. Það er sumpart fyrir aðgerðir stj. á síðasta þingi til að fá auknar tekjur. Stj. sá á síðasta þingi, að tekjurnar mundu ekki hrökkva. Og útkoman, sem ég nú hefi gert grein fyrir, fer harla nærri þeim spádómum, sem ég kvað upp þá í þessu efni.

Ég hefi að þessu sinni ekkert að þakka þessum hv. þm. fyrir aðstoð við tekjuöflun, en það lagast kannske á þessu þingi. Fleiru svara ég ekki í þetta sinn, nema því, að kostnaður við varalögregluna er talinn til dómgæzlu og mun hafa verið 52 þús. kr. til áramóta.