16.03.1933
Neðri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

101. mál, hafnargerð á Húsavík

Flm. (Ingólfur Bjarnarson):

Alþ. hefir á síðustu árum tekið upp þá stefnu, að setja sérstök hafnarl. fyrir ýmsa kaupstaði og kauptún víðsvegar um land með fastákveðnum hlutfallslegum ríkisstyrk til hafnargerðanna, og ennfremur hefir ríkið tekið á sig ábyrgð á láni til framkvæmdar þessum fyrirtækjum. Á síðustu árum hafa verið sett slík hafnarl. fyrir Akranes, Dalvík, Sauðárkrók, Skagaströnd, Eyrarbakka o. fl. — Þetta frv., sem ég ber hér fram, er um hafnargerð á Húsavík. Það er algerlega eins sniðið og þau hafnarlög, sem ég fyrr nefndi, sömu ákvæði um ríkisframlög o. s. frv. Ég býst því við, að frv. mæti velvild þingsins og nái greiðlega samþykki þess. Þó er rétt að taka það fram, að hafnargerðir á hinum ýmsu stöðum eiga misjafnan rétt á sér. Kemur þá til greina, hvað þörfin er brýn fyrir slík mannvirki og hve mikils gagns má vænta af þeim. Ég vil því fara nokkrum orðum um aðstöðuna á Húsavík og nauðsynina á hafnargerð þar. Flestum hv. þm. mun vera kunnugt, að Húsavík er með fjölmennustu þorpum landsins, íbúar munu vera um 900. Þar er nú komin á fót stórmyndarleg túnrækt, sem vex hröðum fetum, og kvikfjárrækt býsna mikil í sambandi við hana. Ég hygg, að nú séu í þorpinu um 130 kýr og 2000 sauðfjár, og er það auðvitað mikið hagræði fyrir þorpsbúa. Einnig er þar talsverð verzlun, og munu það vera einir 8 hreppar, sem sækja þangað með viðskipti sín. En þrátt fyrir þetta er það þó sjávarútvegurinn, sem er aðalatvinnuvegur þorpsbúa, og svo mun það einnig verða í framtíðinni. Húsavík liggur ákaflega vel við útgerð, og eru hin ágætustu fiskimið þar skammt frá. En sá galli er á gjöf Njarðar, að höfnin er ótrygg og slæm, og stendur það útgerðinni mjög fyrir þrifum, ekki hvað sízt nú á síðari árum, þegar farið er yfirleitt að sækja á stærri bátum en áður. Nú eru það um 20—30 vélbátar, sem sjó sækja frá Húsavík. En mjög er örðugt að geyma þá þar. Það hefir þó nokkrum sinnum komið fyrir, að bátar hafa sokkið þar á höfninni, og sumir eyðilagzt alveg. Nú eru þarna aðeins smábryggjur, og þær verða stöðugt meira og meira ófullnægjandi, eftir því sem bátarnir verða yfirleitt stærri. Tilfinnanlegast er að hafa ekki svo myndarlega bryggju, að síldveiðaskip geti lagzt þar að. Síldarafli er mikill á Skjálfanda á sumrum, og væri ágæt aðstaða til síldarverzlunar á Húsavík, ef þar væru sæmilegar bryggjur og alltrygg höfn.

Af þessum ástæðum hefir hreppsnefnd Húsavíkurhrepps og hafnarnefnd kauptúnsins ákveðið að leggja út í það mannvirki, sem fyrirhugað er með þessu frv. Hefir málið undanfarin ár verið til meðferðar heima í héraðinu. Áður hefir legið fyrir Alþingi beiðni frá héraðinu í því formi, að veittur yrði ríkisstyrkur til bryggjubyggingar á Húsavík. Alþ. tók þessu erindi vel. Fjvn. lagði til 1930, að ríkið styrkti þessa bryggjugerð með 60—70 þús. kr. upphæð, sem skipt yrði á 3 ár, og var það samþ. á þinginu. En samt varð ekkert af bryggjubyggingunni. Var það bæði vegna fjárskorts og þess, að mönnum heima fyrir þótti sýnt, að bryggjan ein, eins og hún hafði verið fyrirhuguð, mundi ekki vera fullnægjandi lausn þessa máls. Niðurstaðan varð sú, að ákveðið var að leggja út í fullkomna hafnargerð, byggja bæði skjólgarð og myndarlega bryggju, og liggur nú fyrir þessu þingi áætlun um þetta fyrirhugaða mannvirki frá vitamálaskrifstofunni. Hún er að vísu lausleg. Sömuleiðis teikning af fyrirtækinu, þar sem gert er ráð fyrir, að byggð verði bryggja og hafnargarður framan við höfnina. Áætlað er, að hafnargerðin muni kosta um 1 millj. kr. Það er mikil fjárupphæð fyrir ekki stærra kauptún, en hugmyndin er að dreifa kostnaðinum á lengri tíma. Nú þegar er hafizt handa heima fyrir, með því að flytja að grjót og annað efni. Hugsunin að halda verkinu áfram smátt og smátt, eftir því sem fé fæst til fyrirtækisins, og hafa Húsvíkingar nú þegar tryggt sér töluvert fé til þess, og fyrir þessu þingi liggur nú beiðni um byrjunarstyrk til fyrirtækisins.

Með tilliti til þess, hvernig slíkum málum sem þessum hefir verið tekið á undanförnum þingum, sé ég ekki þörf á því að hafa fleiri orð um málið að sinni. Vil ég að endingu óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr., að þessari umr. lokinni, og til sjútvn.