10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

101. mál, hafnargerð á Húsavík

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Nefndin hefir athugað þetta mál gaumgæfilega og orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Þó hefir einn nm., hv. þm. S.-M., áskilið sér nokkurn fyrirvara. —

Það hefir komið fram innan n., að sumir álíta, að þingið hafi bundið ríkissjóði nokkuð þungan bagga, er lögfest var, að framlag til hafnargerða úr ríkissjóði skyldi hækkað upp í 2/3 kostnaðarins. Hefði þetta ekki þegar verið orðin viðtekin regla í öðrum hafnarlögum, hefði n. lagt til, að framlagið væri ekki nema 1/3. En hinsvegar álítur n. ekki rétt að taka þessa höfn út úr og samþ. til hennar lægra framlag en til annara. N. er og sannfærð um, að af þeim hafnarmannvirkjum, sem í ráði er að gera um land allt, sé þessi staður einna sjálfsagðastur til styrktar. Út frá Húsavík liggja ein allra fiskauðugustu mið landsins, sérstaklega þó síldauðugustu. Og mundi vegna aðstöðunnar til fiskiveiðanna o. fl. veitast auðvelt að moka síldinni á land, ef ekki yrðu menn að gjalda hafnleysis. Rækt er og mikil í kauptúninu sjálfu og afbragðs afkomumöguleikar fyrir þá menn, sem þar settust að t. d. til þess að stunda fiskveiðar, ef hafnar nyti við, svo að þeir fengju nytfært sér til hlítar þau hlunnindi, er hin auðugu fiskimið bjóða. Enn vil ég geta þess, að upp af Húsavík eru landkostahéruð, en hafnleysið er þeim erfiður Þrándur í Götu, því að eins og nú háttar eru þau svo að segja afskorin frá markaði fyrir afurðir sínar. En það er einmitt það, sem áherzluna á að leggja á, að efldur sé innanlandsmarkaður fyrir afurðir bænda. En með aukinni velmegun og aukningu fólks í kauptúnum eru skilyrði fyrir hendi til aukinnar afurðasölu þar, og með aukinni höfn opnast auk þess möguleiki til að nota sér betur markað annarsstaðar, bæði innanlands og utan. Af þessu má sjá, hversu stórkostlegur styrkur er í því bæði fyrir bændur og kauptúnsbúa, að höfnin verði gerð, svo að vissari samgöngur fáist í gegnum kauptúnið. Hvort sem litið er á hagsmuni sjávarútvegsins eða landbúnaðarins í héruðunum í kringum kauptúnið, má því gerla gera sér grein fyrir, hve aðkallandi þörf er, að þessu nauðsynjamáli verði komið í kring sem fyrst.

Ég mun ekki fara nánar út í einstök atriði málsins, því að þetta er svo þaulrætt á undanförnum þingum, en vona, að þessir aðaldrættir og álit n. verði nógu þungt á metunum.