10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

101. mál, hafnargerð á Húsavík

Jón Auðunn Jónsson:

Af því að ég hefi átt kost á að kynna mér þörfina fyrir hafnargerð á Húsavík, vil ég segja fáein orð. Ég dvaldi þar um tíma haustið 1930 vegna fiskikaupa o. fl. Eftir að hafa séð aðstöðu til sjávarútgerðar þar og í Eyjafirði og alla leið til Skagastrandar, þá er það mitt álit, að á þessu svæði sé mest þörf á að byggja höfn á Húsavík. Þaðan er svo stutt að sækja mikinn afla. Bæði er þaðan stutt að sækja mikla síld á hverju sumri, og þaðan má í flestum árum afla mikið af ýmiskonar fiski, sem er hentugur til að setja í ís.

Auk þessa mikla möguleika til sjávarútvegs er þarna mikið og frjótt uppland. Hafnargerð mundi verða til hagsbóta þessu héraði á tvennan hátt, með því að greiða fyrir verzlun þeirra við aðra landshluta og útlönd og í öðru lagi með því að skapa þeim aukinn markað fyrir sínar vörur í kauptúninu. Ég er sannfærður um það, að Húsavík yrði með góðri höfn bezta verstöð á Norður- og Austurlandi.

Hv. 1. þm. S.-M. er óánægður út af því, að breytt var til 1928 og tillög ríkissjóðs til hafnargerða aukin. Ég lít nú öðruvísi á það mál. Ég sé þess greinilegan vott, að þar sem þessi framlög hafa komið niður, hafa tekjur ríkissjóðs aukizt, og það meira en sem framlögunum nemur, svo að ég er sannfærður um, að ríkissjóður fær sitt tillag til hafnargerða vel uppborið á mjög skömmum tíma. Auðvitað aukast tekjur ríkissjóðs samhliða því sem atvinnulíf blómgast í landinu.