15.02.1933
Sameinað þing: 1. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látinna þingmanna

Aldursforseti (SvÓ):

Áður þingstörf hefjast verður svo sem venja er til, minnzt þeirra fyrrverandi þingmanna, er látizt hafa frá því síðasta þingi lauk. Þeir hafa að þessu sinni fallið í valinn fjórir, og vil ég stuttlega geta hvers þeirra, en tek nöfnin eftir stafrófsröð.

Fyrstan nefni ég þá Ágúst Theódor Þórðarson Flygenring, kaupmann í Hafnarfirði, sem lézt í Kaupmannahöfn 13. sept. næstl. Ágúst var af borgfirzkum ættum kominn, fæddur á Fiskilæk í Borgarfirði 17. apríl 1865, og ól þar æskuárin.

Hugur hans hneigðist snemma að sjóferðum og siglingum, enda laut starf hans alla æfi öðrum þræði að eflingu sjávarútvegar og siglinga. Hann var sjómaður á fiskiskútum framan af, en síðar skipstjóri. Siglingafræði nam hann í Noregi og tók þar stýrimannapróf 1891. Árin 1896—98 var hann skipstjóri, en gerðist kaupmaður í Hafnarfirði 1899 og lagði jafnhliða þaðan af stund á útgerð og verzlun.

Ýmsum trúnaðarstörfum gegndi Ágúst um æfina og reyndist jafnan liðgengur vel og ábyggilegur. Hann varð einn af forstjórum landsverzlunar 1917, er hún var stofnuð, og hafði það starf á hendi meðan 3 voru forstjórar. 1907 sat hann í milliþinganefnd um fjármál landsins. 1905—12 var Ágúst Flygenring konungkjörinn þingmaður, en 1924—25 var hann 1. þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Alla æfi var Ágúst Flygenring hinn mesti athafnamaður, og átti hann frumkvæði að fjölmörgum atvinnufyrirtækjum, einkum þeim, er að útvegi lutu. Á Alþingi naut hann trausts og hylli samverkamanna, þótti jafnan tillögugóður, djarfur og drenglundaður.

Hann fluttist til Kaupmannahafnar 1931 og dvaldi þar með vandamönnum sínum til dauðadags.

Næstan tel ég Björn Sigfússon, fyrrum bónda á Kornsá í Vatnsdal. Hann var fæddur 22. júní 1849, en lézt 11. okt. 1932, og varð því fullra 83 ára.

Björn var snemma bráðger og námfús, naut líka snemma staðgóðrar heimafræðslu hjá foreldrum sínum, Sigfúsi presti Jónssyni á Tjörn og Sigríði Bjarnardóttur, sýslumanns í Húnaþingi.

Björn fór utan 24 ára og dvaldi við smíðanám í Kaupmannahöfn 1873—74, en vann eftir heimkomu ýmist að smíðum eða við kaupsýslu. Hann reisti bú á Hofi í Vatnsdal 1882 og hjó þar til 1886. Árin 1886—1899 bjó hann í Grímstungu, en þaðan af á Kornsá til 1925, er hann fékk bú í hendur syni sínum.

Hann var þingmaður Húnvetninga 1893—99, og öðru sinni 1909—1911. Auk þess var hann hreppstjóri sveitar sinnar og gegndi mörgum öðrum trúnaðarstörfum í þarfir sveitar og sýslu; var amtsráðsmaður um sinn og einbeittur frömuður samvinnufélagsskapar í héraði sínu.

Björn var til æfiloka mjög áhugasamur um þjóðmál og ötull forgöngumaður kvenréttinda, samgöngubóta og alþýðumenntunar. Mun nafns hans eftirleiðis ekki sízt verða getið í sambandi við jafnréttismál karla og kvenna, sem hann studdi mjög einlæglega. En í öllu hans margháttaða æfistarfi gætti jafnt framsýni, áhuga og þrautseigju.

Þá vil ég minnast Einars Jónssonar, bónda á Geldingalæk á Rangárvöllum. Hann var fæddur sama staðar 18. nóv. 1868, og dvaldi þar alla æfi. Við búi tók hann af föður sínum 1897 og bjó þar jafnan síðan. Hann var þingmaður Rangæinga 1909—1919 og aftur 1927—1931. Einar naut mikils trausts og vinsælda með héraðsbúum, enda var honum um margt vel farið, og lét hann sér jafnan annt um menningar- og framfaramál héraðsins. Hann þótti og tillögugóður og fylginn sér um hin stærri mál, þótt miður væri nafn hans við meðferð þeirra bundið.

Æfilok Einars urðu með voveiflegum hætti þau, að hann drukknaði í Ytri-Rangá 22. okt. næstl.

Loks vil ég nefna Ólaf Friðrik Davíðsson. Hann var fæddur 25. marz 1858 á Akureyri. Gerðist hann ungur verzlunarmaður og stundaði þau störf nær alla æfi, fyrst á Akureyri, en síðan á Húsavík, Djúpavogi, Vopnafirði, Ísafirði og víðar.

Frá 1893—1904 var Ólafur verzlunarstjóri á Vopnafirði, en þá um 4 ár, eða til 1908, bókari við Landsbankann í Reykjavík. Sagði hann því starfi lausu og tók við verzlunarstjórastörfum á Ísafirði, sem hann gegndi til 1924, er hann fluttist til Vestmannaeyja, þar sem hann andaðist 15. ágúst næstl.

Ólafur Davíðsson var kosinn á þing í Norður-Múlasýslu1902 og sat á aukaþingi því, er það sumar var háð, en síðar leitaði hann ekki kosningar.

Ólafur var maður vel gefinn og vann hvert starf með elju og áhuga. Var hann og víða til trúnaðarstarfa kvaddur, þar sem hann dvaldist.

Ég vænti þess, að háttv. þingmenn votti minningu þessara látnu bræðra vorra virðingu með því að rísa úr sætum.

[Allir þingmenn stóðu upp úr sætum sínum].