24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

1. mál, fjárlög 1934

Haraldur Guðmundsson:

Um eitt munu allir sammála: að tímar þeir, er við nú lifum á, séu erfiðir fyrir mestan hluta þjóðarinnar. Síðastl. ár voru í kaupstöðum og kauptúnum um 3000 manns atvinnulausir svo mánuðum skipti og margir þeirra mestan hluta árs. Svarar það til þess, að 12 til 15 þús. manns hafi átt og eigi enn við skort og bjargarleysi að búa af völdum atvinnuleysis, og hag flestra smábænda mun nú svo komið, að verði ekki sérstakar ráðstafanir af hálfu hins opinbera gerðar til þess að létta undir með þeim í viðureign þeirra við erfiðleikana, er ekki annað fyrirsjáanlegt en að þeir neyðist til að yfirgefa jarðir sínar og bú, flosni upp og bætist í hinn fjölmenna hóp atvinnuleysingjanna við sjóinn. Og líkt mun vera um hag og horfur margra smáútgerðarmanna og iðnaðarmanna.

Því hefir af ýmsum mjög verið á lofti haldið, að á slíkum erfiðleikatímum sem þessum myndi „þjóðstjórn“ vera heillaráð til úrlausnar vandræðunum. Við Íslendingar eigum nú því vafasama láni að fagna að eiga, að sögn stjórnarflokkanna, eina slíka gersemi. Að vísu er stjórnin fjarri því að vera réttnefnd þjóðstjórn. Hún er samsteypustjórn tveggja þingflokka af þremur og er þannig skipuð, að Framsóknarfl. leggur til 2 mennina. báða guðfræðinga, en Íhaldsfl. 1. lögfræðinginn. Ætti því stj. að kunna vel bæði guðs lög og manna.

Álit mitt á samsteypustjórnum eða þjóðstjórnum yfirleitt er það, að því aðeins sé slík stjórnarmyndun eðlileg, að þeir flokkar, sem taka þátt í myndun hennar, séu sammála um þau mál, sem fyrir koma og úrlausnar þurfa. Ella er hún óeðlileg og til ills eins, því þá eru flokkadeilurnar fluttar úr þingi inn í stjórnina, og gerir slíkt hana vitanlega óstarfhæfa með öllu. Þegar þessi samsteypustjórn var mynduð, var Alþýðufl. boðin þátttaka, en við höfnuðum því tilboði, af því að við áttum enga samleið við hina flokkana um úrlausn þeirra mála, sem nú eru efst á baugi. En þau verkefni, sem fyrir stj. lágu til úrlausnar, eru aðallega tvö: 1) að finna og framkvæma bjargráð til varnar gegn kreppunni og afleiðingum hennar, og 2) leiðrétting á hinu herfilega ranglæti kjördæmaskipunar og kosningalaga. Að því er kjördæmamálið snertir get ég sagt það, að engin trygging var fáanleg fyrir því, að hinir flokkarnir, og þó einkum Framsóknarfl., vildu fallast á það, sem við Alþlflm. töldum sæmilega lausn á því máli. Þar bar svo mikið á milli, að samvinna virtist útilokuð. Og um lausn kreppunnar eða ráð við henni vorum við Alþýðuflokksmenn svo gersamlega á öndverðum meið við hina flokkana báða, að fyrirsjáanlegt var, að aldrei hefði fengizt samvinna á því sviði. Bjargráð hinna flokkanna við kreppunni voru þannig, að við töldum fyrirsjáanlegt, að þau myndu aðeins gera illt verra, auka á vandræðin í stað þess að draga úr þeim. Bjargráð þeirra voru fólgin í því að skera sem mest niður verklegar framkvæmdir, þ. e. auka á atvinnuleysið í landinu, en við álítum það höfuðatriðið að halda við og auka atvinnuna eftir fremsta megni. Þeir vilja hækka nauðsynjatolla, við viljum afnema þá eða stórlækka. Samvinna var því einnig óhugsandi á þessu sviði. Við neituðum því alveg að taka þátt í stjórnarmynduninni.

Hinsvegar virðist samvinna og samkomulag allt hafa verið hið ljúfasta með Framsókn og Íhaldi, bæði meðan núv. dómsmrh. (MG) og fyrrv. (ÓTh) áttu sæti í stjórninni. Og sannast því enn, að íhaldið er eitt, þótt flokksnöfnin séu tvö til að villa kjósendum sýn. Ekkert virðist ráðherrunum hafa borið í milli, nema helzt, hver skyldi hafa á hendi stjórnina á Kleppi.

Svo innileg er samvinnan og svo langt teygja flokkarnir sig hvor fyrir annan, að þau tíðindi gerðust fyrir skömmu á fundi í sameinuðu þingi, er vantraust á Magnús Guðmundsson var þar rætt, að Framsókn lét Tryggva Þórhallsson víkja úr forsetastóli til þess að bera skjöld fyrir dómsmálaráðh. Magnús Guðmundsson, er hann var varnarþurfi og óvíst hvort hann héldi embættinu. Er ekki furða, þótt bændur hafi undrazt, þeir sem fest hafa í minni og lagt trúnað á fyrri ummæli TrÞ um MG. En þetta sannar aðeins enn betur það, sem áður er sýnt, að flokkurinn er einn, að enginn ágreiningur er lengur milli Íhalds og Framsóknar, enginn um mál og ekki einu sinni lengur um menn.

En hverjar eru nú efndir stjórnarinnar? Hvort hefir hún leyst af hendi höfuðverkefnin? Hefir hún leitt til lykta kreppuvandræðin? Er fengin leiðrétting á hinni fádæma ranglátu kjördæmaskipun, sem veldur því, að þriðjungur kjósenda í landinu ræður meiri hl. þings, en 2/3 kjósenda hinsvegar eru að baki minni hl. Varla er hægt að hugsa sér verra ástand, lakari skrípamynd af þingræðisfyrirkomulagi. En engin lausn hefir enn fengizt á þessu máli, heldur engin bjargráð við kreppunni. Menn segja nú máske, að ekki sé von, að úrlausnir séu fengnar á báðum þessum vandamálum nú þegar. En er þá ekki stjórnin búin að gera ráðstafanir í þessa átt, hefir hún ekki lagt fyrir þingið frv., sem miða að því að afstýra kreppuvandræðum og koma kjördæmamálinu í sæmilegt horf? Og ætlar hún ekki að fylgja þessum málum skörulega og drengilega og leggja við líf sitt, að þau nái að ganga fram? Nei, það er nú eitthvað annað.

Stjórnin hefir reyndar lagt fram frv. til breytinga á stjskr., sem að vísu er til nokkurra bóta, þótt ýmsu sé þar mjög áfátt, en framsöguræða hæstv. forsrh. var harla vesaldarleg. Svo var helzt á honum að heyra, að hann teldi litlar líkur til þess, að frv. næði fram að ganga. Enda lagði hann sjálfur alls enga áherzlu á það. Er hann var spurður, hvort hann myndi segja af sér, ef frv. næði ekki samþykki, svaraði hann engu, og ekki gaf hann neitt út á það, hvort hann hefði þegar tryggt frv. nægilegt fylgi innan síns flokks, 3—4 atkvæði, til þess að það yrði samþ., ef bæði Alþýðufl. og Íhaldsfl. greiddu því atkv. Dómsmrh. var spurður, hvort íhaldið myndi taka það til bragðs að neita stj. að samþ. fjárl. og tekjuaukafrv., ef stjskrfrv. næði ekki fram að ganga, en hann svaraði heldur engu. Af þessu mun það hverjum manni augljóst, að flutningur frv. er kák eintómt og málamyndahandaþvottur hæstv. stj. Stjórnin leggur enga áherzlu á, að frv. verði samþ., og þegar af þeirri ástæðu eru litlar sem engar líkur til þess, að lausn málsins fáist á þessu þingi, og rætist þar spá okkar Alþýðuflþm. frá í fyrra. Svo ber eru óheilindin orðin, að mikilsráðandi framsóknarmenn, t. d. Jón í Stóradal, lýsa því yfir í opnu þingi, að er stj. var mynduð, hafi aðeins verið samið um að leggja fram frv. um lagfæringu kjördæmaskipunarinnar, en alls eigi um, að frv. næði samþykki, og við þessu þögðu Íhaldsflþm. Svona eru nú efndirnar í kjördæmamálinu.

Ekki verður heldur séð, að stj. hafi haft nokkurn áhuga á því að létta kreppuvandræðin. Reyndar hefir hún skipað mþn., og er henni ætlað að rannsaka hag bænda og gera tillögur um hjálp til þeirra. Nefnd þessi er skipuð mestu sómamönnum, stökum bændavinum!, svo sem Tryggva Þórhallssyni og Pétri Ottesen, sem nú eru samherjar orðnir. Ennþá sést þó enginn árangur af starfi þessarar nefndar, engar tillögur. Enginn stafur er frá henni kominn, og eru þó liðnar 6 vikur af þingtímanum og fjárlög senn afgr. til 2. umr. Ég lasta ekki þessa nefndarskipun, síður en svo. En hitt verð ég mjög að átelja, að nefndinni skuli eingöngu ætlað að athuga hag bænda og gera tillögur þeim til hjálpar. Því að fleiri eiga um sárt að binda af völdum kreppunnar en bændur einir, eins og ljóslega sést af skýrslunum um hina áðurnefndu 3—4 þús. atvinnuleysingja. Og ekki er hagur smáútgerðarmanna öllu beisnari en bænda. Því miður vofir sama hættan yfir þeim mörgum hverjum: að þeir flosni upp, verði að láta af sínum atvinnurekstri, ef ekki eru gerðar sérstakar, víðtækar ráðstafanir þeim til hjálpar.

Eftir tillögu okkar Alþýðuflþm. var skipuð kreppunefnd innan þings. Sú nefnd hefir til þessa haldið alls einn fund, og það eitt gerðist á þeim fundi, að Tryggvi Þórhallsson var kjörinn form. Annað liggur ekki eftir þá nefnd, og ekki er útlit fyrir, að hún haldi fundi bráðlega. Helzta ráðið, sem stuðningsmenn stj. hafa komið auga á til þess að bjarga þjóðinni úr klóm kreppunnar, virðist vera það, að veita straum af ákavíti, whisky, rommi, brennivíni og kognaki yfir landið, í viðbót við Spánarvín og heimabrugg. Vitað er og, að a. m. k. 2 hæstv. ráðherrar, forsætisráðh. og dómsmála, eru þessu bjargráði fylgjandi.

Því verður að vísu ekki neitað, að af stj. hálfu hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir, utan þings þó og í óheimild þess algerlega, sem ef til vill ber að skoða sem einskonar kreppuráðstafanir af hennar hendi. Þar má til nefna sparnað verklegra framkvæmda. Er forsrh. lagði fram í Nd. frv. til fjárlaga og gaf skýrslur um árið 1932, virtist hann alldrjúgur yfir, hve stj. hafði gengið vel að halda í skildingana. Til dæmis hefðu gjöldin ekki farið nema hálfa aðra millj. fram úr áætlun fjárl., rekstrarhallinn ekki verið nema 1250000 og greiðsluhallinn ekki nema 2 millj. 200 þús. Þessi „góða“ útkoma væri stj. að þakka, að hún hefði farið svona gætilega með féð. Hún hefði sparað stórfé á ýmsu. T. d. á framlagi til vegagerða 250 þús., til vitamála 50 þús. og á öðrum verkl. framkv. 30 þús., og enn eitthvað á framlagi til vísinda, menntamála og heilbrigðismála. Nú felst megnið af þessu í vinnu, og þýðir þetta því ekki annað en aukið atvinnuleysi, aukin vandræði.

Þá er önnur kreppuráðstöfun hæstv. stj.: Ríkislögreglan. Hún gerir talsvert meira en að éta upp allan sparnaðinn, því hæstv. ráðh. hefir upplýst, að kostnaður við hana sé kominn hátt á annað hundrað þús. króna. Það er um 1100 kr. á dag, eða sem svarar til 200 dilka. Þetta svarar til 700 þús. dilkaskrokka á ári, og ef ríkislögreglan æti þetta allt, þá hefðum við ekki þurft að sæta afarkostum af Norðmönnum til að losna við kjötið. En því er ekki að heilsa, herinn vill fleira, heimtar fleira en kjötið.

Hitt er þó enn verra, að fullvitað er, að þessi heimskulegi peningaaustur verður fyrst og fremst til þess að auka á óróa og stuðla að óhappaverkum. Slíkar kreppuráðstafanir sem þessar verða ekki til að draga úr kreppunni, heldur þvert á móti til að auka hana, auka vandræðin og atvinnuleysið. Gerir nú stj. tilraun til þess að bæta ráð sitt með fjárlfrv.? Ekki verður þess neinstaðar vart. Við skulum snúa okkur að því fé, sem verja á til verkl. framkvæmda. Það er til síma rúm 100 þús., til nýrra vega 162 þús., til brúargerða 100 þús., til fjallvega 20 þús., til lendingarbóta og hafnargerða 45 þús. Alls er til verkl. framkv. veitt um 1 millj. kr. Til samanburðar skulum við taka þá fjárhæð, sem undanfarin ár hefir verið varið í sama augnamiði. Hún var nærri 4 millj. á ári, nema síðastl. ár. Þetta er þá kreppuráðstöfunin. Af hverjum 4 mönnum, sem áður var þarna veitt vinna, fær einn að lafa, nema enn frekar verði klipið af. Árið 1929 voru unnin 130 þús. dagsverk og 1930 150 þús. í vegavinnu. Það hefir skapað 1000 manns vinnu í 6 mánuði. Með samþ. fjárlfrv. verður dregið enn úr atvinnu, nýir menn látnir bætast í flokk atvinnuleysingja. Frumvörpin um framlengingu tolla, gengisviðauka og fleiri þvílík bæta heldur ekki úr skák. Þetta verður einungis til þess að skapa dýrtíð enn meiri en við nú lifum við, og klípa þannig af þeim fáu krónum, sem verkalýðurinn vinnur sér inn. Þá er frv. um ríkislögregluna, ráð það, er stj. tók á síðastl. hausti, sem eins og áður á minnzt hefir nú þegar kostað stórfé og ekkert gagn gert, nema síður sé. Liðið á að vera ótakmarkað að fjölda og engar skorður setja við því, hve mikið fé má nota til þessa nýja hernaðar, né til hvers liðið á að nota. Þá má nefna norsku samningana, sem þegar hafa vakið megnan ugg og ótta og kvíða meðal allra þeirra, er síldveiðar hafa stundað, enda er slíkt ekki furða, því fátt er eins hættulegt og spillir eins mikið möguleikum og von um atvinnu fyrir þessari stétt verkamanna eins og þeir.

Allar þessar svokölluðu „kreppuráðstafanir“ hæstv. stj., bæði þær, sem þegar hafa verið framkvæmdar, og hinar, sem enn eru í fæðingunni, teljum við Alþflm. ganga í þveröfuga átt. Að spara verklegar framkvæmdir er að auka atvinnuleysið, auka sjálfa kreppuna, og sama er um það, að leyfa Norðmönnum að landsetja meira af síld en verið hefir. Með þessu tekur stj. beinlínis atvinnuna, brauðið, frá landsins börnum.

Við höldum því fram, að atvinnuna þurfi að auka, svo að hún verði a. m. k. í sama horfi og áður var og helzt aukin á krepputímum. Við teljum, að til þess þurfi að gera ráðstafanir um stofnsetning nýrra atvinnufyrirtækja. Og loks teljum við, að gera þurfi alveg sérstakar ráðstafanir til þess, að smærri atvinnurekendur, bændur, smærri útvegsmenn og iðnrekendur verði ekki sviptir jörðum sínum, húsum, skipum eða öðrum starfstækjum. Það er svo, að þessar vinnandi stéttir þjóðfélagsins fá ekki haldið starfstækjum sínum, nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar. En þær ráðstafanir kosta fé. Og hvar á að taka það fé, mun verða spurt. Því er fljótsvarað. Það er vitanlega ekki í önnur hús að venda en til þeirra, sem betur eru megandi, þeirra manna í þjóðfélaginu, sem kreppan nær ekki til. Það er hægt að hækka tekju- og eignarskattinn. Sá, sem nú hefir t. d. 10 þús. kr. skattskyldar tekjur, greiðir 460 kr. í skatt af þeim. Þennan skatt mætti gjarnan tvöfalda. Á slíkum tímum sem nú eru væri sá maður, sem slíkar tekjur hefir, sannarlega ekki of góður að greiða 920 kr. — Hæstv. forsrh. mun hafa sagt það í nýársboðskap sínum, að á slíkum erfiðleikatímum og þeim, sem nú standa yfir, yrðu allir að leggja hart að sér. Ég get tekið undir það. Og ég álít, að ekki væri sérlega hart að neinum gengið, þótt tekjuskatturinn væri tvöfaldaður og eignarskatturinn þrefaldaður tvö næstu ár. Sú hækkun mundi nema um 2 millj. króna. Mundi sú upphæð, veitt til atvinnubóta ásamt framlögum bæjar- og sveitarfélaga, verða mikil hjálp.

Skýrslur sýna, að innstæðu- og sparisjóðsfé landsmanna muni vera um 60 millj. kr. Ef að láni væri tekið af því 3 millj. kr., eða %, og varið til kaupa á atvinnutækjum, sem mundu skila því aftur, gæti það orðið til stórmikillar atvinnuaukningar. Því mætti verja til báta- og skipakaupa, bústofnskaupa og til að koma af stað ýmsum smærri iðnrekstri, svo sem í ullariðnaði o. s. frv. Féð er til, bara ef stjórnin vill fara þessa leið.

Áfengistollurinn nemur nú um ½ millj. kr. Þennan toll mætti hækka. Þeir, sem á annað borð eru svo gerðir, að þeir vilja kaupa „dropann“, væru ekki of góðir til að borga 1—2 kr. meira fyrir flöskuna. Ef það væri gert, mundi á þann hátt nást um 1½ millj. kr. Þarna er líka möguleiki til fjáröflunar, og svona mætti lengi telja.

Ég hefi nú sýnt fram á vanefndir stj. í tveimur stærstu málunum, stjórnarskrármálinu og kreppumálunum. Á hvorugu þeirra mála er nein lausn enn sjáanleg. Og ég verð að játa það, að lítil von er um, að till. okkar jafnaðarmanna nái fram að ganga, ef dæma skal eftir reynslunni. Ef eitthvað verður gert, má búast við, að það verði eitthvað líkt og gert var á þinginu í fyrra. En þrátt fyrir 4 mánaða setu þess, var hið eina, sem eftir það lá á sviði kreppumálanna, l. um gjaldfrest bænda, sem allir vita og vissu, að eru algerlega þýðingarlaus og koma engum að haldi.

Það hefir verið mjög kvartað yfir því, að virðing fyrir Alþ. færi mjög þverrandi hin síðari ár. Ég held, að talsvert sé hæft í þessu, og mér finnst það að vonum, að svo sé. Og glöggast merki um það, hve ástandið er orðið bágborið í þessu efni, er það, að sjálf ríkisstj. telur ástandið svo ískyggilegt, að hún hefir talið nauðsynlegt að setja á stofn herlið, ríkislögreglu, til þess, eins og hún orðar það, að halda uppi friði, en þ. e. vernda hana og betri borgara aðra. Svona er ástandið, að hennar dómi, fyrir aðgerðir hennar og aðgerðaleysi. Stj. óttast sjáanlega, að með sömu stefnu, þeirri að auka atvinnuleysið og hækka tolla á neyzluvörum almennings, þá verði ástandið bráðlega svo bágborið, að nauðsynlegt verði að hafa þennan her eða ríkislögreglu til að verja sig og yfirstéttirnar árásum hins hungraða lýðs, — vinnandi stéttanna, sem enga atvinnu fá, en allir vita, að lögregluliði stjórnarinnar er teflt á móti.

Stefna mín og stj. í þessum málum er gerólík. Stj. vill spara fé sem mest til atvinnufyrirtækja og atvinnubóta í landinu. Hún vill hækka tolla á nauðsynjum, og hún vill hafa ríkisher, til að bæla niður brauðkröfur atvinnuleysingjanna. Ég vil auka atvinnu í landinu og gera þar með barefli ríkislögreglunnar óþörf. Ég vil létta tollum á nauðsynjum almennings, en ná þó meiru fé í ríkissjóð með beinum sköttum og tolli á óhófsvörum. Og ég vil gera alla ríkislögreglu óþarfa með aukinni atvinnu og bættum lífskjörum. Stj. vill gefa fólkinu högg af bareflum ríkislögreglu í brauðs stað. Ég og skoðanabræður mínir krefjumst þess, að fólkinu sé gert fært að vinna fyrir sér, afla sér brauðs, svo bareflin verði óþörf.

En það er ekki eingöngu, að virðing þjóðarinnar fyrir Alþ. fari þverrandi. Hið sama á sér einnig stað um tvo aðra þætti þjóðvaldsins, sem er framkvæmdavaldið og dómsvaldið. Og það er heldur ekki hægt að segja, að það sé að ástæðulausu. Skal ég víkja nánar að þessu hvorutveggja, og þá fyrst að framkvæmdavaldinu. Skal ég þá fyrst minnast á landhelgisgæzluna. Allir eru sammála um þá miklu nauðsyn, sem á því er, að hún sé vel og samvizkusamlega af hendi leyst. Það er ekki ofmælt að segja, að smábátaútgerðin eigi afkomu sína að miklu leyti undir því. Það eru til margar sannar sagnir um það, og hafa þær oft heyrzt áður hér á Alþ., hversu togararnir hafa gerspillt veiði og veiðarfærum smáútgerðarinnar með yfirgangi sínum og þjófnaði úr landhelgi. Jafnvel hafa þeir gerspillt og eyðilagt lífsafkomu heilla veiðiplássa. Auk hins mikla tjóns er það og hreinn álitshnekkir fyrir okkur í augum erlendra manna og erlendra þjóða, ef sleifarlag er á landhelgisvörnum vorum. Góð og örugg vörn landhelginnar aflar okkur virðingar annara þjóða. Þetta er bæði viðurkennt og sannað. Alþ. hefir viðurkennt þýðingu landhelgisvarna með því að samþ. að leggja úr ríkissjóði stórfé til þeirra mála. Skipastóll landhelgisgæzlunnar er nú 3 skip, Ægir, sem er metinn 800 þús. kr., Óðinn 400 þús. kr. og Þór 200 þús. kr. Þessi skip kostuðu að vísu miklu meira í upphafi, en hafa verið afskrifuð. Auk þess eru nú bifreiðar og hestar, metið 6000 kr., og útgerðartæki yfir 60 þús., eða alls um 1470 þús. kr. Þetta er stofnfé landhelgisgæzlunnar — þótt sumt af því sýnist nú raunar lítið koma henni við, svo sem bílarnir og hestarnir —, auk þess sem afskrifað hefir verið af verði skipanna. Kostnaður vegna landhelgisgæzlunnar hefir samkvæmt skýrslu frá skipaútgerð ríkisins numið þessu:

1930 ........... 700 þús. kr.,

1931 ............ 830 þús. kr. og

1932 ............ 600 þús. kr.

Hver er svo árangurinn af þessu? Það sést m. a. á því, hve mörg skip varðskipin hafa tekið og fengið sektuð. En þau hafa verið:

1930: Ægir 18, Óðinn 4 = 22 skip.

1931: Ægir 12, Óðinn 2, Þór 2, dönsk varðskip 1 = 17 skip.

1932: Ægir 4, Óðinn 1, dönsk skip 3 = 8 skip.

Sektarféð þessi ár hefir verið:

1930: Ægir 213,5 þús. kr., Óðinn 58 þús. Samtals 273,5 þús. kr.

1931: Ægir 201 þús., Óðinn 38 þús., Þór 20 þús. Samtals 259 þús. kr.

1932: Ægir 86 þús., Óðinn 37 þús.

Samtals 123 þús. kr.

Kostnaðurinn við varðskipin er því 100 þús. kr. minni 1932 en hann var 1930. En tekjurnar eru líka um 170 þús. kr. minni. Það stingur mjög í stúf, hve fáir togarar hafa verið teknir síðastl. ár. Er þó vafalaust, að ágengni togaranna hefir ekki verið minni þá en áður. Bendir nokkuð á það, að á síðasta ári taka dönsku varðskipin 3 togara, en Ægir aðeins 4 og Óðinn 1. Hefir þó reynsla margra ára sýnt, að Danir eru ekki aðfaraharðir við landhelgisgæzluna. Er því sýnilegt, að ekki hefir minna verið um lögbrot á þessu sviði síðastl. ár, nema meira sé. Það má að vísu segja, að minni kostnaður hafi verið við landhelgisgæzluna 1932 en árin á undan. En sektarféð hefir líka orðið miklu minna. Með svipaðri gæzlu 1932 og 1930—1931 hefði án efa sektarféð, þ. e. tekjur af varðskipunum, aukizt sem svaraði til hins aukna kostnaðar. En hæstv. stj. hefir enn viljað spara eyrinn og kasta krónunni.

Um gæzluna eru glöggar skýrslur í tímaritinu Ægi, og vil ég með leyfi hæstv. fors. lesa nokkra kafla upp úr því riti, er lúta að landhelgisgæzlunni þessi ár.

Um landhelgisgæzluna 1930 er sagt: „Hana önnuðust sömu skipin og árið áður. Af ísl. ríkisins hálfu Óðinn og Ægir og auk þess tveir mótorbátar, annar fyrir Vestfjörðum um sumarið og fram á haustið, en hinn í Garðsjónum. Vitaskipið „Hermóður“ hafði á hendi björgunarstarfsemj þá við Vestmannaeyjar, sem Þór hafði áður annazt, sömul. eftirlit með netum og veiðarfærum fyrir yfirgangi togara“.

Um landhelgisgæzluna 1931 segir í Ægi: „Hana önnuðust af Íslendinga hálfu á árinu þrjú skip, varðskipin Óðinn, Ægir og Þór. Að vísu var Þór bundinn við björgunarstarfsemi við Vestmannaeyjar fyrri hluta ársins, og auk þess var hann tímunum saman ýmist við þorsk- eða síldveiðar, svo að það hefir auðvitað tafið hann töluvert frá gæzlustarfinu“. Og enn segir í sama riti um landhelgisgæzluna 1932, eftir að sagt hefir verið frá því, að sömu skip hafi annazt hana og árið áður:

„Síðari hluta ársins voru þó varðskipin Óðinn og Ægir sjaldan samtímis við gæzluna, heldur skiptust þau á við starfann. Það má því segja, að mikinn hluta ársins hafi landhelgisgæzlu aðeins verið haldið uppi af Íslendinga hálfu með einu skipi“.

Og um sjálfa gæzluna segir svo í sama hefti :

„Það stingur því mjög í stúf, hve háværar kvartanir hafa komið frá Vesturlandi síðastl. sumar út af yfirgangi togara, einkum þó frá Arnarfirði, enda er sumarveiði stunduð þar mest og eingöngu af smábátum.

Alls hafa 8 togarar verið teknir á árinu fyrir ólöglegar veiðar, og er það rúmlega helmingi lægri tala en árið áður“. Hinn 12. des. 1932 skrifar þriggja manna nefnd á Bíldudal, sem falið hafði verið að leita álits sjómanna og farmanna um framkvæmd strandgæzlunnar fyrir Vestfjörðum það ár. Þar segir svo :

„Það er einróma álit allra þeirra, sem sjó hafa stundað, ekki sízt þeirra, sem búa við utanverðan fjörðinn, að strandgæzlan hafi verið miklu verri en undanfarin ár, síðan sérstakur vélbátur fór að annast gæzluna — —“.

Ennfremur segir þar svo: „Á þeim erfiðu tímum, sem víða við koma og ekki sízt hafa þrengt að Arnfirðingum í vor, vegna þess hve afli brást, hefir það orðið meira áberandi, hversu togararnir hafa leikið lausum hala í landhelginni, og má fullyrða, að sú ásókn þeirra, sem löngu er orðin landskunn, hefir með öllu eyðilagt þær fiskigöngur, sem komið hafa síðari hluta sumars og í haust, enda standa líka sjómenn uppi með tvær hendur tómar eftir sumarið og haustið“.

Þetta eru nú aðeins sýnishorn af þeim mörgu kvörtunum, sem borizt hafa um gæzluna síðastl. ár. Þetta sýnishorn er tekið frá Vestfjörðum. En kvartanir hafa borizt mjög víða annarsstaðar að. Er það og að vonum, þar sem aðeins eitt varðskip hefir annazt gæzluna, að viðbættum Þór, sem bundinn var við björgunar- og eftirlitsstarfsemi við Vestmannaeyjar langan tíma, og einum vélbát fyrir Vesturlandi, sem lítið gat afrekað. Það hafa líka borizt stöðugar kvartanir þaðan. Ein slík kvörtun frá Arnarfirði mun hafa komizt í útvarpið. Samskonar umkvörtun frá Ísafirði var útvarpinu bannað að taka. Um síldveiðitímann var gæzlan afarléleg Norðanlands. Ekki stuggað við einu einasta síldveiðaskipi. Það var ekki einu sinni svo, að stuggað væri við þeim af þeim ástæðum, að þau hefði rekið fyrir straumi og vindi inn í landhelgina. Það er engu líkara en að norski samningurinn hafi verið farinn að verka fyrirfram. Það hefir gengið saga um Austfirði, sem sýnir það á skemmtilegan hátt, hvernig menn hugsuðu sér, að á því gæti staðið, að gæzlan væri eins léleg og hún er. Fiskibátar voru að veiðum inni á svonefndri Vaðlavík, rétt uppi við land, og togari, með breitt yfir nafn og númer, var þar einnig að veiðum. Íslenzkur maður, sem stóð á brú togarans, átti tal við menn á fiskibátunum. Sagði hann þeim, að þessi togari hefði leyfi ríkisstj. Það er nú sjálfsagt lygi, að stj. hafi veitt þetta leyfi. En þetta sýnir þó, hvert álit menn hafa skapað sér um landhelgisgæzluna, eins og hún var framkvæmd síðastl. ár. Nú á vetrarvertíðinni hafa togararnir sótt geysiafla undir Öndverðanes. Og það er trú kunnugra manna, að talsvert af þeim afla hafi verið tekið á grunnmiðum. Einn togari kom þrisvar sinnum fullur þaðan á 10 dögum, 3., 8., og 13. marz. Ég vil nú spyrja hæstv. stjórn: Hefir varðskipið verið á þessum slóðum til eftirlits? Og hefir nokkuð verið tilkynnt til hæstv. dómsmrh. um það, að varðskipið Ægir hafi hitt einn íslenzka togarann undir grunsamlegum kringumstæðum nálægt Öndverðanesi 2. marz síðastl.? — Kunnugir menn segja, að fiskurinn sé tekinn á grunnmiðum undan Öndverðanesi. En varðskipin hafa engan togara tekið.

Það er von, að virðing manna fyrir þessum þætti framkvæmdavaldsins rýrni og um hann ríki almenn óánægja. Menn spyrja, hvort hér eigi aftur upp að taka þá reglu í strandvarnarmálunum, sem áður gilti, að reka öðruhvoru hina brotlegu togara út úr landhelginni, en láta ógert að kæra þá! — Ég veit, að ríkisstj. svarar því, að hún sé að spara. Í sparnaðarins nafni má auðveldlega halda hlífisskildi yfir öllum lögbrotum, í hans nafni er drýgður fjöldi vamma og skamma. En hér er um mjög vafasaman sparnað að ræða. Þótt kostnaður við landhelgisgæzluna hafi verið nokkru minni síðastl. ár, þá var líka sektarféð fyrir brotlega togara nær því að sama skapi minna. En hvernig er svo þessum sparnaði háttað? Honum er þannig fyrir komið, að Ægir og Óðinn eru látnir ganga sinn mánuðinn hvor og hásetarnir ráðnir til jafnlangs tíma í einu. En allir yfirmenn skipanna sitja á föstum launum þann mánuðinn líka, er skipið liggur kyrrt. Nemur sá kostnaður samkvæmt launaskrá 3200—3300 kr. fyrir hvort skip á mánuði. Auk þess fæðispeningar, sem eru 3 kr. á dag, vátrygging, viðhald o. fl. o. fl. Aðeins laun hásetanna eru spöruð þann mánuðinn á hvoru skipi fyrir sig, sem það er ekki í gangi. Ef verulegur sparnaður ætti að verða að þessu, þá væri nær að leggja alveg öðru skipinu og segja öllum skipverjum upp, yfirmönnunum líka. En á þessa leið til sparnaðar hefir stj. ekki komið auga. Nú mun láta nærri, að ekki sé nema 1 skip í stöðugum gangi. En eigi að síður eru 4 skipstjórar á fullum launum, því skipstjórinn á Ægi, sem settur var í land í ágúst síðastl., mun enn hafa full laun. Er þetta ágætt sýnishorn af sparnaði stj. í þessu efni. Þá er það enn í hinum sama sparnaðaranda, sem hæstv. stjórn er svo mjög haldin af, að Guðmundi Sveinbjörnssyni skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu hafa verið greiddar 8 þús. kr. fyrir umsjón með varðskipunum þau tvö ár, sem hann hafði þá umsjón ekki með höndum. Og svo á hann að fá 4 þús. kr. á ári framvegis vegna sömu umsjónar, sem skipaútgerð ríkisins framkvæmdi tvö síðastl. ár fyrir ekki neitt. — Þetta er að vísu nokkuð undarlegur sparnaður, en hann er þó í góðu samræmi við annan sparnað hæstv. stjórnar.

Önnur hlið á starfi varðskipanna er björgunarstarfsemin, bæði á smærri og stærri skipum, einkum þó bátaútgerðinni. Það gefur nú að skilja, að eitt skip er ónógt til þeirrar starfsemi. Tekjur hafa varðskipin nokkrar af björgun erlendra skipa. En þær tekjur minnka vitanlega eftir því sem skipum er fækkað. Á tímabilinu frá 8. ágúst 1930 til 1. febrúar 1932 hafði Ægir bjargað 5 skipum og fengið í björgunarlaun 111219 kr. Og Óðinn einu fyrir 20000 krónur. Um það samdi Guðmundur Sveinbjörnsson fyrir 15,3%. En annars hafði skipaútgerð ríkisins samið um miklu hærri prósentur sem björgunarlaun. — Þarna er nú sparnaðurinn á þessu sviði. Væri annars ekki nær að hætta alveg? Er ekki von, að trúin á gæzluna sé orðin lítil? Réttara er reyndar að segja, að vantrúin á hana sé orðin almenn, og fer það mjög að vonum.

Í þessu sambandi er rétt að minnast á Einar Einarsson skipherra Ægis, sem stj. vék frá starfi og setti undir rannsókn í sumar er leið. Síðan hefir stj. látið hann ganga í landi starfslausan. — Ég skal nú á engan hátt álasa stj., þó hún láti rannsókn fara fram. Ég vil mega vona, að sú rannsókn verði framkvæmd á hlutlausan hátt og leiði það í ljós, að sakarefni eru ekki slík sem á lofti er haldið af óvildarmönnum skipstjóra. Ég harma það, ef Einar Einarsson, sem tvímælalaust hefir sýnt mestan dugnað af varðskipstjórunum, verður að játa af starfi sínu. Ég veit, að veiðiþjófum hefir staðið langmest ógn af honum. En ef svo ólíklega fer, að sakir á hann verði sannaðar, sem gera það að verkum, að hann verði að fara, er vitanlega ekkert hægt við því að segja. Þess má geta, að Einar Einarsson tók og fékk sektuð 34 skip á meðan öll hin varðskipin til samans fengu dæmd aðeins 13 skip.

Rétt þykir mér í þessu sambandi að nefna annað framkvæmdaafrek dómsmrh., en þó ekki þess, er nú situr, heldur hv. þm. G.-K., sem hljóp í skarðið, meðan núverandi dómsmrh. beið hraðsýknunar í hæstarétti. Sá dómsmrh. sat nú að vísu ekki nema knappa hundadagalengd í ráðh.stóli, og hefir hann af sumum fengið nafn eftir því, en réttara mundi þó að kenna hann við þann mánuð, sem hann var ráðh., en það var gormánuður. En þó honum væri jafnað til Jörundar, þá var þó Jörundur athafnamaður meiri. Samt sýndi hv. þm. G.-K. eitt þrekvirki, sem var það að framkvæma stjórnarbyltingu á Kleppi. Lárus Jónsson varð að fara og Helgi Tómasson að koma í hans stað. Skal ég ekki mikið gera úr þessum mannabýttum, né gera samjöfnuð á þessum tveimur heiðurslæknum. — En jafnframt þessu tók þáverandi dómsmrh. þá rögg á sig að fyrirskipa opinbera réttarrannsókn á „drykkjuskap“ Lárusar Jónssonar. Og til að framkvæma þá réttarrannsókn var skipaður harðvítugur lögfræðingur, sem að sögn hefir reynslu í slíkum efnum. Ég hefi nú ekkert út á það að setja, þótt rannsókn sé skipuð á þá lækna, sem drykkfelldir eru. Tel það rétt. En í þessu sambandi er vert að benda á, að víðtækar kvartanir hafa komið úr tveimur héruðum, Siglufirði og Norðfirði, út af drykkjuskap héraðslæknanna þar. En ekki hefir enn heyrzt, að fyrirskipuð hafi verið réttarrannsókn út af því, eða þeir læknar settir af. Virðist þó vera rétt að láta eitt og hið sama ganga yfir alla þá lækna, sem drykkfelldir eru og yfir er kvartað. Fyrst nú að reyndur maður hefir verið settur til þess að rannsaka drykkjuskap lækna, þá er ekki nema réttmætt, að hann fái að starfa eftir því sem drykkjuskapur lækna gefur tilefni til. Annars eru þessi mannaskipti á Kleppi að því leyti merkileg, að það virðist, samkvæmt yfirlýsingu hinna ráðh. í Tímanum, vera eina málið, sem samsteypustjórnin hefir ekki verið sammála um. Báðir ráðh. hinir lýstu því yfir, að þáverandi dómsmrh. hefði gert þetta „á eigin ábyrgð“. Er þetta gott dæmi þess, þó broslegt sé, að hjá þessum tveimur flokkum, sem standa að stj., getur aðeins komið fram ágreiningur um menn, en ekki um málefni. Eina áhugamálið, sem þeir eiga, er það, að stj. fái að hanga við völd.

En nú skal ég til þess að mýkja þetta ofurlítið drepa á mildi og hjartagæzku hæstv. dómsmrh. Það er kafli, sem má ekki sleppa þegar rætt er um gerðir hans sem ráðherra.

Maður er nefndur Þórður Flygenring. Hann var fyrir nokkru kærður fyrir svikið bókhald- og sölu á veðsettum fiski o. fl. Fyrir þetta var hann dæmdur í undirrétti í 15 mán. betrunarhúsvinnu og sviptur æfilangt leyfi til að reka verzlun. Þessi maður var síðan í fangelsinu hér í Rvík í 40 daga og á Litla-Hrauni í 115 daga, samtals 155 daga, en dæmdur var hann í 15 mán. fangelsi. Þegar hann nú hafði verið í fangelsinu þessa 155 daga, þá glúpnaði hið góða hjarta dómsmrh. og náðaði hann, og það var ekki aðeins svo, að hann fengi uppgjöf á þeim fangelsisvistartíma, sem eftir var, heldur var honum líka gefið til leyfis að reka verzlun áfram og þar með gefið tækifæri til að taka upp samskonar starfsemi aftur. Geta má þess, að þessi maður hafði skaðað bankana með veðsvikum um 400 þús. kr., og hann var dæmdur fyrir brot á flestum gr. þess kafla hegningarlaganna, sem fjalla um svik, því að þetta er eitthvert stærsta fjársvikamál hér á landi, og svo er hegningin þessi.

Þá vil ég minnast á annan mann. Ísleif Briem, starfsmann franska konsúlsins. Franski ræðismaðurinn fékk bréf frá útlendum vínkaupmönnum, sem þökkuðu honum fyrir viðskiptin, en hann hafði þá aldrei skipt neitt við þá. Konsúllinn kærði því Ísleif Briem, sem varð þá uppvís að því að hafa misnotað trúnaðarstöðu sína. Var hann í undirrétti dæmdur fyrir nafnafölsun og áfengissmygl. Var honum dæmt 90 daga fangelsi og 6160 kr. sekt. Málinu var ekki áfrýjað, sem er þó ekki algengt um svona mál. Sektina mun hann hafa greitt og setið í fangelsi frá 9. sept. til 8. okt. Þá þoldi dómsmrh. ekki lengur að horfa upp á písl mannsins og útvegaði honum konunglega náðun.

Þriðji maðurinn er Björn Björnsson konunglegur hirðbakari. Hann kom á skrifstofu lögreglustjóra í sambandi við mál Ísleifs Briems og játaði á sig að hafa smyglað fáeinum whiskyflöskum, sem hann hefði nú reyndar ekki notað, heldur kastað í sjóinn. Þá var málið rannsakað, og játaði Björn þá að hafa flutt inn marga kassa af áfengi og verzlað með, en neitaði að segja, hverjum hann hefði selt. Hann var látinn sleppa við það í réttarhaldinu. Það hefir ekki þótt heppilegt, að nöfnin væru gefin upp. Hann var síðan í undirrétti dæmdur í 60 daga fangelsi og 24000 kr. sekt. Dóminum var ekki áfrýjað, sem má heita undarlegt. En svo hefir ekki heyrzt, að dóminum hafi verið fullnægt, heldur hefir heyrzt, að dómsmrh. hafi samið um það við Björn, að hann greiddi sektina og léti að nokkru leyti koma upp í hana útistandandi skuldir og annað þess háttar, en fengi alveg að sleppa við fangelsið. Þessa náðun virðist hæstv. dómsmrh. hafa veitt á eigin ábyrgð, en ekki fengið konung til þess.

Ég hefi enga löngun til að fjölyrða um þessi mál eða ræða mikið um þessa menn, en þetta, sem ég hefi nú sagt, sýnir, að hæstv. ráðh. hefir tekið mjög mjúkum móðurhöndum á þessum mönnum. Hér er um mjög stórvægileg afbrot að ræða, reikningsfölsun, veðsvik, bréfafölsun, misnotun embættis, smygl og sölu áfengis. Þessum mönnum er svo gefin upp fangelsisvistin ýmist að miklu eða öllu leyti. Þetta er mikil mildi, en ég efast um, að hún sé heppileg. Ég efast um, að þetta skapi ótta og aðhald fyrir þá, sem tilhneigingu hafa til að afla sér fjár á ólöglegan hátt eða annara lögbrota, sízt ef þeir eiga jafngóða borgara að og þessir menn. Það er engum vafa bundið, að þessir menn eru sekir, því að það liggur fyrir játning frá þeim öllum, svo að ekki er hægt að bera því við.

Ég hefi í þessu sambandi aðeins nefnt hæstv. dómsmrh. og hefi talað svo sem hann hafi verið þar einn um, en ég get lýst því yfir, að ég álít það næsta ólíklegt, að hann hafi gert þetta upp á sitt eindæmi. Ég tel a. m. k. sennilegt, þar sem um svona mikilsverð mál er að ræða, að hann hafi borið það undir meðráðh. sína, áður en hann ákvað náðunina.

En það eru fleiri en þessir menn, sem dómsmrh. hefir tekið mjúkum höndum á. Sakamálarannsókn, sem fyrrv. stj. fyrirskipaði gegn bankastjórum Íslandsbanka, hefir núv. dómsmrh. látið niður falla. Þetta mál, sem hæstv. dómsmrh. vildi ekki láta rannsaka, er það allra stærsta fjárþrotamál, sem komið hefir fyrir hér á landi. Þetta mál vildi hæstv. dómsmrh. ekki láta rannsaka.

Ég kemst ekki hjá því að rekja sögu þessa máls í stuttum dráttum. Eins og menn muna, var Íslandsbanka lokað 2. febr. 1930. Gat bankinn þá ekki haldið störfum áfram, nema ríkisábyrgð fengist á öllum skuldbindingum hans. Þetta var tekið fyrir á næturfundi hér í þinginu og því hafnað. Þá lágu fyrir svokallaðar skýrslur um hag bankans, þar sem látið var í ljós, að hann mundi eiga fyrir skuldum, ef sleppt væri hlutafé. Þegar þingið neitaði bankanum um þessa ábyrgð, varð hann að hætta störfum sínum. Var þá rannsókn látin fara fram í annað sinn, og var Helgi Briem formaður þeirrar nefndar, sem rannsóknina gerði. Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu, að bankinn ætti 4½ millj. minna en ekki neitt og auk þess væri allt hlutafé og varasjóður tapað. En nú mun það hafa sýnt sig, að tapið er a. m. k. 3 millj. meira. Í þessu sambandi vil ég minna á það, að árið 1922 var sagt í Alþýðublaðinu, að hagur bankans væri annar og verri en reikningar hans sýndu. Fyrir þetta var ritstjóri blaðsins, Ólafur Friðriksson, dæmdur í sekt, 25000 kr. ef ég man rétt. En svo kom það í ljós svo sem kunnugt er, að þetta var allt saman satt, svo að Ólafur Friðriksson var þarna dæmdur í stórsektir fyrir að segja sannleikann.

Það getur ekki talizt annað en rétt og sjálfsögð krafa, þegar banki kemst í fjárþrot, að rannsakað sé, hvort bankastjórarnir eigi sök á því eða ekki. Þess vegna var það líka, að verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík sendi kæru til lögreglustjóra Reykjavíkur og heimtaði, að málið væri rannsakað. Lögreglustjóri sendi ríkisstj. bréfið samdægurs, en hún ákvað að láta fram fara utanréttarrannsókn á orsökum til lokunar bankans, svo að séð yrði, hvort ástæða væri til að láta fara fram opinbera réttarrannsókn. Síðan var skipuð þriggja manna n. í þessu skyni og í hana valdir Einar Arnórsson þáv. þm. og prófessor, en núv. dómari hæstaréttar, Stefán Jóhann Stefánsson hæstaréttarlögmaður og Þórður Eyjólfsson hæstaréttarlögmaður. Þessir menn rannsökuðu síðan málið og afhentu lögreglustjóra skýrslu um það í febrúar 1932. Þessi skýrsla mun svo hafa verið send ráðuneytinu til athugunar, og þar liggur hún þar til í maí 1932. Þá fyrirskipar þáv. dómsmrh., Jónas Jónsson, opinbera réttarrannsókn í málinu og ritar lögreglustjóra bréf um það. En þá um sama leyti stóðu yfir samningar milli Íhalds og Framsóknar um nýja stjórnarmyndun. Þáv. forsrh., Tryggvi Þórhallsson, heimtaði þá skjölin til athugunar áður en rannsóknin væri hafin, og þau lágu hjá honum þegar stjórnarskiptin urðu, en sennilega hefir hann skilað þeim síðar í dómsmálaráðuneytið.

Svo verður Magnús Guðmundsson dómsmálaráðherra um mánaðamótin maí-júni. Hann gerir ekkert í málinu, heldur liggur á skjölunum eins og Fáfnir á gullinu, þar til nú fyrir skömmu, að hann tók rögg á sig og afturkallaði fyrirskipunina um réttarrannsókn á hendur bankastjórunum og bar því þá aðallega við, að málið væri orðið svo gamalt, að þeirra hluta vegna væri ekki ástæða til að taka það upp. En þá hafði hann sjálfur legið á því í 9 mánuði.

Skýrsla þessara þriggja manna er í 10 köflum og mjög ýtarleg. Hún fjallar um almenna starfsemi bankans og viðskipti hans við einstaka viðskiptamenn. Af því að tíminn er svo naumur, verð ég að sleppa því nú að fara út í einstök atriði skýrslunnar, og er þó full ástæða til þess, en niðurstaðan er þessi: Nefndin er sammála um það: 1) að reikningar bankans hafi verið rangir [falsaðir] og fjarri því að gefa rétta hugmynd um hag bankans, 2) að ónýtar týndar skuldir hafi verið taldar sem eign, skuldir, sem skiptu mörgum milljónum króna, 3) að bankanum hafi verið taldir til tekna vextir af skuldum, sem vitað var, að voru tapaðar. 4) Skuldir bankans í erlendum gjaldeyri voru of lágt bókfærðar í ísl. krónum. 5) Einstökum mönnum og félögum höfðu verið veitt lán svo hundruðum þúsunda skipti, samtals fleiri millj., mönnum, sem bankastjórarnir hlutu að vita, að ekki gátu staðið í skilum. 6) Um viðskipti bankans við Landsbankann og Privatbankann, sem voru aðallánardrottnar hans, er farið hörðum orðum í skýrslunni. 7) Óforsvaranlegt eftirlitsleysi með skuldunautum bankans er einnig fært bankastjórunum til áfellis í skýrslunni.

Þetta er í stuttu máli sú niðurstaða, sem n. komst að, og um þetta er enginn ágreiningur meðal nefndarmanna. Allir eru þeir sammála um, að hér sé um stórvægileg atriði að ræða. Enn má geta þess, að einn bankastjóranna, Kristján Karlsson, höfðaði mál gegn Útvegsbankanum og krafðist sér tildæmdra launa í eitt ár eftir að bankanum var lokað og Útvegsbankinn tók við fjárreiðum hans. Máli þessu lauk svo í hæstarétti, að Kristján Karlsson tapaði því. Var hann dæmdur frá öllum rétti til launa vegna misfellna á reikningum og stj. bankans, og þó er hann sá bankastjórinn, sem síðastur kom í bankann og minnsta ábyrgð ber á því, hvernig hagur bankans varð að lokum.

En þrátt fyrir þessa ýtarlegu skýrslu og þær niðurstöður, sem hún sýnir, og þrátt fyrir dóm hæstaréttar í máli Kr. Karlssonar álítur hæstv. núv. dómsmrh. ekki ástæðu til að láta fram fara opinbera réttarrannsókn í málinu. Til samanburðar má minna á, hvernig tekið hefir verið á svona málum í Danmörku. Þar kom nýlega upp mál, þar sem sannaðist, að reikningar banka höfðu verið vísvitandi rangir og slælegt eftirlit verið haft með meðferð lántakenda á lánsfé. Stjórn bankans var þar dæmd til refsingar og skaðabóta. Landmandsbankamálið muna allir hv. þm.

Ég hefi nú dvalið nokkuð við mildi og mýkt hæstv. stj., sýnt fram á, hversu hæstv. stj. getur verið mjúkhent á gæðingum sínum, því að ég tel áreiðanlegt, að hæstv. dómsmrh. hefði skort kjark til að gera þetta einn, og að öll stj. hafi verið sammála honum í þessum málum. Það er líka talið, að hæstv. forsrh. hafi látið þau orð falla í sambandi við Íslandsbankamálið, að okkar litla þjóðfélag þoli ekki, að slíkt mál sé upp tekið, en það þýðir: að svo háttsettir menn og pólitískir mattadorar séu látnir sæta sakamálsrannsókn. En þó að þessum hæstv. ráðh. ef til vill standi nokkur ótti af afleiðingum slíkrar málshöfðunar, þá má hann vita það, að þjóðin óttast meir afleiðingar þess, ef slík mál eru þögguð niður og lögin ekki látin ná til manna, sem þykjast eiga mikið undir sér. Hæstv. dómsmrh. hefir verið mjúkhentur á þessum mönnum, sem ég hefi nú drepið á, en hann hefir líka sýnt á sér aðra hlið. Hann hefir sýnt, að það er talsverð harka til í honum þegar við aðra er að eiga. Út af þeim atburðum, sem gerðust á bæjarstjórnarfundunum 7. júlí og 9. nóv. hefir hæstv. dómsmrh. fyrirskipað sakamálsrannsókn og sakamálshöfðun gegn h. u. b. 30 mönnum. En það eru menn af allt öðru sauðahúsi en þeir, sem ég hefi til þessa verið að tala um. Meðal þessara manna eru formenn 2 stærstu verkamannafélaganna hér í bænum, þeir Sigurjón Ólafsson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, og Héðinn Valdimarsson, formaður verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Gegn þessum mönnum er umsvifalaust hafin sakamálsrannsókn og fyrirskipuð sakamálshöfðun, jafnvel áður en niðurstaða rannsóknanna er orðin kunn.

Til þess nú að sýna fram á, hver sakarefnin eru, sem borin eru á þessa menn, vil ég minnast lítið eitt á mál eins þeirra, sem er kærður fyrir aðgerðir sínar 7. júlí, Sigurjóns Á. Ólafssonar, og annars, sem kærður er fyrir framferði sitt 9. nóv., Sigurðar Ólafssonar. Framburður ýmissa vitna hefir sýnt það, sem nú skal greina:

Matthías Sveinbjörnsson lögregluþjónn segir, að hann hafi 9. nóv. séð Sigurð Ólafsson með spýtu í hendinni. Ekki sá hann þó Sigurð berja neinn, en heyrði hann hrópa: „Hættið að berja“, og hafi þá orðið hlé á barsmíðunum. Þetta er nú allt og sumt, sem þessi lögregluþjónn segir: að Sigurður hafi verið með spýtu, en sagt mönnum að hætta að berjast.

Annar lögregluþjónn, Sveinn Sæmundsson, segir, að Sig. Ól. hafi látið það í ljós, að ef þeir, sem úti væru, fengju ekki að fara inn í húsið, væru þeir nógu fjölmennir til að taka þann rétt sjálfir, en þó hafi hann ekkert gert til þess.

Þá segir Sigurður Albertsson, að Sig. Ól. hafi tekið í fingur á einhverjum lögregluþjóni og hótað að snúa hann af, ef lögregluþjónninn sleppti ekki manni, sem hann var að reyna að koma út. En enginn lögregluþjónn hefir borið sig upp undan því eða kannast við, að Sig. Ól. hafi tekið í fingur á honum.

Þá er að athuga, hvað Sigurður Ólafsson segir sjálfur, því að auðvitað var hann kallaður fyrir rétt. Hann segist hafa staðið við dyrnar í þrengslunum og ekkert gert af sér, en þá hafi verið ýtt á sig utan frá og hann borizt inn í dyrnar og í fangið á lögreglunni, og þá hafi einn lögregluþjónninn tekið í hárið á sér og í því hafi hann fengið 3 kylfuhögg í höfuðið, sem lögregluþjónarnir við dyrnar hafi veitt sér, en hann hafi ekki snert við neinum lögregluþjónanna nema þeim, sem tók í hárið á honum, en utan um hann hafi hann tekið. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa tekið neinn þátt í ryskingunum, en aftur á móti hjálpaði hann lögregluþjóni, sem barinn var í götuna. Þá segist hann hafa tekið upp spýtu, er hann var barinn með, og hafi hann haft þessa spýtu í hendinni, er einn lögregluþjónninn hafði ráðizt að honum, en þá hafi hann kallað: „Hættið að berja“, og við það hafi barsmíðunum hætt.

Það virðist vera vandlifað í þessu landi, ef ekki má taka upp og halda á spýtu, sem menn hafa verið barðir með, og ef fyrirskipuð er sakamálsrannsókn og sakamálshöfðun gegn mönnum fyrir slíkt.

Og ef einhver finnur upp á því að segja, að einhver hefi tekið í fingur á lögregluþjóni, sem þó enginn lögregluþjónn kannast við, þá er það tilefni til sakamálshöfðunar. Athæfi dómsmrh., að fyrirskipa sakamálsrannsókn og málshöfðun fyrir slíkt, er fyrir neðan allar hellur. Það er bæði heimskulegt og ósæmilegt.

Þá vil ég minnast á afbrot Sigurjóns Ólafssonar, sem er ákærður fyrir ólöglegt athæfi 7. júlí í sumar. Honum er fundið það eitt til saka, að hann hafi átt að segja í ræðu af tröppum Þórshamars: „Þarna kemur Jakob Möller. Látið hann nú standa fyrir máli sínu“.

Lögregluþjónarnir segja, að Sigurjón hafi verið að halda ræðu af tröppum Þórshamars, en ekkert hafi verið athugavert við ræðu hans og hún hafi ekki valdið neinum æsingum. Þegar bæjarfulltrúarnir komu út af fundinum, hafi athyglin snúizt að þeim, svo að Sigurjón hafi orðið að hætta að halda ræðuna. En það, sem mestu ætti að skipta í þessu máli, mun þó vera vitnisburður Jakobs Möllers sjálfs. Hann segir það eitt, að Sigurjón hafi sagt: „Þarna kemur Jakob Möller“ — og hafi þá athyglin snúizt að sér, en þó hafi hann ekki orðið fyrir neinum beinum árásum. Þetta er framburður Jakobs Möllers, og alveg samhljóða þessu er framburður Knúts Zimsens borgarstjóra. Hvorugur segir, að Sigurjón hafi hvatt menn til að gera aðsúg að Möller, enda varð hann ekki fyrir neinu hnjaski.

Ég hefi þá tekið 2 af þessum 30 sakamálum, sem stj. hefir ákveðið að láta höfða út af þessum atburðum. Annað dæmið er tekið frá 7. júlí, en hitt frá 9. nóv. Geta menn nú athugað og borið saman meðferð hæstv. stj. á þessum málum og málunum út af gjaldþroti Íslandsbanka. Í Íslandsbankamálinu, sem ég drap áðan lítillega á, fyrirskipar stj. ekki einu sinni réttarrannsókn, sennilega af ótta við, að það mundi leiða til málshöfðunar og dóms, en í þessum smávægilegu málum tekur hún rögg á sig og fyrirskipar sakamálsrannsókn og sakamálshöfðun á þessa 2 menn og 28 aðra, sem svipað virðist ástatt um suma hverja. Ég efast um, að þetta háttalag hæstv. dómsmrh. verði til að auka virðingu manna fyrir yfirvöldum landsins, réttarfari og lögum.

Ég hygg þvert á móti, að ef hann með þessu hefir ætlað sér að brjóta niður trú fólksins á löggæzlu og réttarfari, þá hafi hann með aðgerðum sínum í þessum málum náð þeim tilgangi prýðilega. Réttarfarinu í landinu er misþyrmt með slíkri misbeitingu á valdi dómsmrh., annarsvegar með óafsakanlegum sakaeftirgjöfum gæðinga og hinsvegar með tilefnislausum sakamálshöfðunum á andstæðinga. Mun ég víkja að þessu í næstu ræðu minni.