24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

1. mál, fjárlög 1934

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég mun ekki tala eins langt mál og hv. síðasti ræðumaður. Það er að vísu eldhúsdagur í dag, en það er útlit fyrir, að meira sé til að brenna en bíta, og svo mun yfirleitt vera í okkar landi, að ekki sé margt að bíta, en hægt að brenna upp eitthverjum af þeim möguleikum, sem við höfum á þessum vandræðatímum. Hitt er ekki síður nauðsynlegt, að þingflokkar starfi á slíkum tímum fremur en ella með tilliti til allra stétta og hagsmuna þeirra. Og ég vil óska, að þessi stjórn mætti fá það eftirmæli, að hún hafi eftir mætti reynt að sinna allra þörfum án tillits til stuðnings eða andstöðu. Ef svo verður, hefir hún reynzt þjóðstjórn í þeirri merkingu, sem ég vil leggja í það orð.

Það hefir verið sagt, að stjórnin hafi verið mynduð á síðasta þingi í því skyni, að hún leysti úr tveim vandamálum, kreppumálunum og stjskrmálinu. Jafnaðarmenn segjast ekki hafa viljað eiga sæti í stjórninni, Vegna þess að þeir hafi enga tryggingu fengið fyrir því, að lausn fengist á stjskrmálinu. Þetta er rétt, því að slíka tryggingu er ekki hægt að gefa, en hana fengu jafnaðarmenn ekki fremur, þótt þeir stæðu utan við stjórnina. En óhætt er að fullyrða það, að stjskrmálið stendur nú nær lausn sinni en nokkurn tíma áður. Og eins og öllu er háttað, hlýtur það mál að fá sína lausn innan skamms tíma. Loftið hreinsast ekki og önnur þjóðmál fá ekki notið sín fyrr en þetta mál hefir hlotið viðunanlega afgreiðslu.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að samvinnan innan stj. hefði verið góð, nema um eitt mál, sem opinber sundurþykkja væri um. Já, samvinnan hefir verið góð, og jafnvel við andstæðingana hefir hún verið svo góð, að ég ætla, að nú hafi ekki meira eldsneyti verið saman dregið heldur en oft og tíðum í betra árferði.

Eins og ég hefi þegar sagt, hefir stj. reynt að fullnægja óskum og þörfum manna án þess að fara í pólitískt manngreinarálit. Hún hefir reynt í senn að framfylgja heimildum þingsins og framkvæma sparnað á ríkisbúskapnum. Kröfurnar til stj. hafa gengið í mjög gagnstæðar áttir, framkvæmda og sparnaðar hefir verið krafizt í senn. Ég hygg, að stj. hafi tekizt að samríma þetta hvorttveggja svo vel sem unnt var á síðastl. ári.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að ekkert stjfrv. hefði enn komið fyrir þingið um kreppumálin. Viðurkenndi hann þó, að stj. hefði skipað n. til að athuga kreppumál bænda. Þessi n. hefir starfað af kappi og hefir nú skilað till. sínum í 5 frv., og mun þó von á fleirum. Er það ósk nefndarinnar og stj., að þau verði lögð fyrir öll í einu lagi og verði rædd óslitið þegar 2. umr. fjárl. í Nd. er lokið.

Þessar till. verða eitt af höfuðviðfangsefnum þingsins. Áður hefir nokkuð verið reynt að sinna málum annara og draga úr mesta atvinnnuleysinu, eftir því sem heimild hefir verið til. Þetta hefir tekizt svo viðunanlegt má teljast í slíku árferði án þess að fara nokkuð að ráði fram úr heimildum. Stj. hefir veitt 316 þús. til atvinnubóta, í stað 300 þús., sem heimilaðar voru. Nú virðist heldur vera að lifna til við sjóinn. Tvö undanfarin ár hafa verið mikil tapsár. En nú hefir smáútvegurinn rétt sig og betri horfur um stórútgerð en áður. Nú í ársbyrjun 1933 er meira um atvinnu við sjóinn en undanfarin tvö ár, og síðasta hálfan annan mánuð hefir verið meiri eftirspurn eftir vinnu en um langan tíma áður. Kaupgeta hefir vaxið. Tekjur ríkisins hafa orðið meiri en á sama tíma í fyrra. Vegna batnandi verðlags og vaxandi framkvæmdavilja er því nú betur statt við sjóinn en áður, þótt ekki sé um að hælast. En um landbúnaðinn er öðru máli að gegna. Landbúnaðarkreppan þjakar enn öllum heimi. Lægra verðlag og þrengri markaður fylgist að. Landbúnaðurinn getur ekki svarað kreppunni á sama hátt og iðnaður og sjávarútvegur. Þessar atvinnugreinar draga saman seglin í kreppunni, en bóndinn neyðist til að auka sína framleiðslu. Svo er þetta í öllum löndum, og því verður kreppan erfiðari viðfangs í landbúnaðinum en í öðrum atvinnugreinum.

Nú er kaup bænda ekki sambærilegt við nokkurt annað kaupgjald. Bændur eru erfiðismenn, sem leggja hart að sér, en nú er kaup þeirra 60% lægra en það var fyrir 3 árum. Þessir menn reka margir búskap með fjármagni, sem þeir skulda að talsverðu leyti. Þessar skuldir eru jafnháar og fyrir 3 árum, en eru orðnar meira en helmingi þungbærari en þá. Því er engin von til þess, að þessi atvinnuvegur fái staðizt án aðstoðar ríkisvaldsins, þetta verður að gera með því að lækka vexti og öðrum ráðstöfunum til að kjörin geti orðið skaplegri. Tillögur um þessi efni munu bráðlega koma fyrir þingið.

Þegar svona er ástatt, er þess ekki að vænta, að ríkið hafi peninga til allra hluta. Hv. þm. Seyðf. sagði, að ég væri rogginn yfir 1,25 millj. kr. tekjuhalla ársins. Ég taldi útkomuna ekki verri en við mátti búast, en svona góða útkomu er auðvitað ekki hægt að fá nema draga nokkuð úr framkvæmdum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ég minntist þess í fjárlagaræðu minni, að ýmsir útgjaldaliðir hefðu lækkað stórum. Þannig hefir kostnaður við dómgæzlu og lögreglustjórn lækkað um 200 þús. kr. Hefir sá sparnaður einkum orðið á minnkuðu úthaldi varðskipanna. Meðan síðasta stj. sat við völd var farið að tala um að halda ekki úti nema einu varðskipi á sumrin. Hv. þm. Seyðf. talaði um óánægju út af minnkaðri landhelgisgæzlu og talaði um, að slíkar raddir hefðu borizt vestan af fjörðum. Ég býst að vísu við, að landhelgisgæzlan sé varla eins góð og áður, en minnkað sektarfé út af fyrir sig þarf ekki að þýða annað en að hún sé „effektiv“. Út af þessum óánægjuröddum, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að hefðu komið fram, get ég sagt það, að í mínu kjördæmi var á fjölmennum fundi lýst ánægju yfir landhelgisgæzlunni og samþ. sú ósk, að hún yrði með sama fyrirkomulagi framvegis. Að vísu hafði varðbáturinn tvisvar orðið var við togara, sem ekki varð náð, en grunur leikur á, að það hafi verið sami togarinn í bæði skiptin.

Annars mun ég játa hæstv. dómsmrh. um það að ræða landhelgismálin.

Það má vitanlega segja, að sparnaður ríkisins auki jafnan vandræði fólksins, en þegar heimildir um framlög til atvinnubótavinnu eru notaðar til hins ýtrasta verður ekki annað sagt en að ríkisvaldið reyni að milda kreppuna og draga úr afleiðingum, svo að það vegi töluvert á móti þeim framkvæmdum, sem felldar hafa verið niður. 316 þús. til atvinnubóta þýðir sama sem 1 millj., því að bæjar- og sveitarfélög eiga að leggja fram 2/3 á móti.

Ég minntist á sparnaðinn á dómgæzlunni, en þess má geta, að á vegamálum hafa verið sparaðar 750 þús. kr. Þetta þýðir að vísu minni vinnu, en jafnframt að tekið er tillit til ríkissjóðs. Á strandferðum hafa verið sparaðar 100 þús. kr. og á kennslumálum 150 þús. kr. og á sérstökum lögum og fjáraukalögum 400 þús. krónur.

Þessi dæmi ættu að sanna, að stj. hefir haft auga á sparnaðarþörf ríkissjóðs. Þetta veldur auðvitað því, að vinna minnkar, en á móti kemur 1 millj. til atvinnubóta.

Nú er þess ekki að vænta, að stj. geti lagt fyrir þingið fjárlfrv., sem gerir ráð fyrir svipuðum framkvæmdum og 1929 og 1930. Nú hafa bætzt við sérstakar kröfur um lausn á kreppumálunum, og þá einkum bændakreppunni. Allt, sem kynni að verða umfram það að halda uppi svipuðum framkvæmdum og í fyrra, verður að ganga til þessa.

Hv. þm. Seyðf. fann að því, að stj. flytti öll hin sömu tekjufrv. og í fyrra. Þetta er alveg rétt. Þau önnur tekjufrv., er flutt kunna að verða, verða í sambandi við hin sérstöku kreppumál. Ætti engan að furða á því, þótt stj. hafi ekki fellt niður gamla tekjustofna, þegar þess er gætt, hve mjög þeir hafa fallið. Tóbakstollurinn hefir lækkað um 470 þús., vörutollur um 200 þús., verðtollur um 775 þús. síðan 1931 og 1½ millj. síðan 1930. Ágóðinn af áfengisverzluninni er 150 þús. kr. minni og af viðtækjaverzluninni 135 þús. minni. Er því meiri ástæða til að bæta við nýjum tekjustofnum en fella þá gömlu niður.

Ég vil lítið eitt minnast á ríkislögregluna, sem stofnuð var á síðasta ári og kostað hefir nokkurt fé. Það er sorglegt til þess að vita, að þörf skuli hafa orðið á stofnun hennar, en þeir, sem valdið hafa óróanum, eiga sökina á þeim kostnaði. Auk þess myndi kostnaðurinn hafa orðið stórum minni, ef ekki hefði verið lagt verkbann á þessa menn, og mega því þeir, sem verkbanninu ráða, kenna sjálfum sér um allmikinn hluta kostnaðarins.

Ég vil segja, að þetta þing eigi ekki skilið vanvirðu, ef það styður að því að koma atvinnuvegunum í betra horf en ella, og það getur þingið með því að taka myndarlega á samningunum við Norðmenn og Englendinga, sem nú standa yfir og þarf að taka á, ekki þannig eins og við eigum allskostar við alla, heldur eigum við að hugsa um okkur, okkar þjóðarheild og hennar mesta gagn. Við eigum að hugsa um, að viðskiptin geti haldið áfram, en ekki að mikla þann möguleika, að ekkert geri til, þótt allt stöðvist, atvinnulíf okkar og nágrannaþjóðanna. Það er þetta, sem nú þarf helzt að sinna, það er fjárhagur ríkisins og möguleikar atvinnuveganna og hin miklu skuldamál bændastéttarinnar íslenzku. Það er erfitt fyrir þá stétt að starfa, sem hefir hálfu lægra kaup en áður og hálfu þyngri skuldabyrði en hún hafði fyrir þrem árum. Ef þessi mál verða leyst, þá á þetta þing og þessi stj. enga vanvirðu skilið, heldur þvert á móti heiður. En til þess að slíkt geti orðið, þá nægir enginn eldhúsdagur. Fyrsta skilyrðið er, að menn vilji fá beztu úrlausn sem kostur er á, því að úrslitin koma ekki án þess að einstakir þm. vilji fá þau. Ég óska, að þingið beri gæfu til, að sá vilji sé fyrir hendi.