25.03.1933
Neðri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. (Ólafur Thors):

Þessu máli var vísað til fjhn. N. mælir í nál. 222 með frv. með þeirri breyt., að ríkissjóður fái 20% af nettóágóða.

Þetta mál er þegar orðið kunnugt, þar sem það hefir legið fyrir áður og samþ. á þingi 1926. Jafnframt fylgir allýtarleg grg. frv., svo að ástæðulaust er að bæta miklu við.

Það hafa verið samþ. lög, sem heimila stj. að byggja háskóla, ef fjárhagur ríkisins leyfir. Í þessari samþ. felst viðurkenning á brýnni þörf á háskólabyggingu og jafnframt á skyldum ríkisins til þess að styðja þetta mál. Rektor háskólans, prófessorarnir og háskólastúdentar og aðrir akademískir borgarar líta svo á, að þessi vilji, sem kom fram í samþ. í fyrra, sé þakkarverður, en ekki nægilegur. Telja þeir nauðsynlegt að leysa þetta viðfangsefni á annan hátt, finna önnur ráð, sem fremur næðu samþykki þingsins, án þess að pína ríkissjóð til fjárframlaga í þessu skyni. Til þessa virðist einmitt hugmyndin um happdrætti vel fallin, þar sem arðurinn af því rynni til háskólabyggingar. Mér virðist óþarfi að fara mörgum orðum um frv. Það er stutt og greinargott og skýrir sig að mestu leyti sjálft, og það, sem á vantar, er tekið fram í grg. Hér er aðalatriðið, hvort menn viðurkenni þörfina fyrir háskólabyggingu. Ég fyrir mitt leyti get ekki neitað því, að mér finnst tæplega unandi við þau húsakynni, sem háskólinn hefir, svo að ég segi ekki meira, sem fremur er sanni nær, að það sé hrein og bein minnkun að bjóða háskóla upp á önnur eins húsakynni.

Ég geng þess ekki dulinn, að t. d. stj.ráðshúsið er orðið algerlega ófullnægjandi, svo að tignir erlendir gestir hafa varla tréstóla til þess að sitja á, meðan þeir bíða eftir viðtali við ráðherra. Ég get gengið inn á, að brýn þörf væri á því að byggja hús fyrir stjórnarráðið, sem fullnægði betur kröfum tímans, en af því að hugmyndin er að koma þessu happdrætti upp til ágóða fyrir háskólabyggingu, og þar sem rektor háskólans á uppástunguna, þá væri ódrengilegt að segja sem svo: Frv. er gott, en við tökum ágóðann af happdrættinu fyrir annað.

Ef þetta frv. nær fram að ganga, þá er bætt úr þörfinni á háskólabyggingu og þannig létt undir með löggjöfinni. Ég get því eindregið mælt með því, að frv. gangi fram.

Ég hefði heldur kosið að þurfa ekki að bera fram brtt. um, að ríkissjóður fái 20% af ágóðanum. Í raun og veru er það skylda ríkisins að sjá háskólanum fyrir viðunandi húsnæði. En ríkissjóður kallar á sinn part af þessum tekjum happdrættisins, og má að vísu segja þar um, að „skylt er skegg höku“ og „náið nef augum“, en heldur hefði ég kosið, að arðurinn hefði runnið óskiptur til háskólabyggingarinnar. Ég mun því fyrst greiða atkv. með brtt. á þskj. 230, um að þessi 20% til ríkissjóðs lækki í 10%, en hinsvegar síðar greiða till. n. atkv., þar sem ég tel þetta ekkert aðalatriði.

Þá vil ég geta um nokkrar ástæður til að sinna því, sem hér er fram borið um lögfestingu á happdrætti fyrir Ísland. Íslendingar hafa gert þó nokkuð að því að kaupa erlenda happdrættismiða að undanförnu. En nú hafa gjaldeyrishöftin dregið úr þessu. Hinsvegar mun spilaþörfin nokkuð vakandi meðal þjóðarinnar, og væri gott, ef hægt væri að beina þessari spilaþörf inn á réttar brautir, inn í innlend happdrætti. Venjulega þarf alveg sérstök átök til þess að breyta rásinni burt frá gömlu venjunum, en hér hygg ég, að vel megi takast, þar sem hvort sem er er hindruð að miklum mun þátttaka manna í erlendu happdrætti. Þær till., sem liggja fyrir, hefir n. enn ekki haft aðstöðu til þess að taka til íhugunar. Þær eru alveg nýkomnar fram. — Ég fyrir mitt leyti mun greiða atkv. með till hv. 3. þm. Reykv. Till. hv. þm. Dal. tel ég persónulega ekki skipta miklu máli; hygg ég, að þær hnigi í sömu átt og flm. frv. hafa hugsað sér. Þegar arðurinn af happdrættinu er orðinn nægilega mikill til þess að hægt sé að koma upp háskólabyggingu, þá tekur ríkissjóður við tekjunum og ver þeim til opinberra bygginga. Virðist mér þetta vera beint áframhald af þeirri grundvallarhugsun, sem fram kemur í frv. og grg. — Brtt. hv. þm. V.-Húnv. á þskj. 229 er ég ekki reiðubúinn til að ræða — og vil ég mælast til þess, að hinn taki þær aftur til 3. umr., svo að n. gefist kostur á að athuga þær betur.

Að lokum vil ég eindregið mæla með því, að háskólinn fái hag af þessu happdrætti, en það renni ekki í ríkissjóð, bæði af því, að þörfin fyrir háskólabyggingu er meira aðkallandi en nokkur önnur, og svo er það þannig, að ég tel þessu máli betur borgið undir forustu prófessoranna og annara menntamanna heldur en ef það á að vera undir dutlungum þings og stj. komið, hvort háskólinn verður byggður eða ekki. Í höndum rektors háskólans, prófessoranna og annara áhrifaríkra manna er vel séð fyrir þessu máli; þeir munu leggjast á eitt um að hrinda háskólabyggingunni í framkvæmd og fyrirbyggja með því, að 1. verði pappírsl. ein.

Vil ég svo leyfa mér að vænta þess, að málið nái samþykki d., og vil ég eindregið mælast til þess, að hv. þm. V.-Húnv. taki till. sínar aftur til 3. umr., svo að hægt sé að ræða þær í n., því að með því mætti fremur fyrirbyggja óþarft þref um þær við umr. vegna misskilnings af því að þær kæmi lítið hugsaðar til umr.