25.03.1933
Neðri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Hannes Jónsson:

Það er enginn nýr gestur á hæstv. Alþ., frv. um happdrætti. En þegar það hefir verið hér á ferð, hefir aðallega verið um það rætt, hvort það væri hollt fyrir hugsunarhátt þjóðarinnar eða ekki, og hvort það ætti að vera eða ekki. Það kann að vera, að hv. þm. álíti það nú ekki óhollt. Ég tel, að ekki nein veruleg hætta geti af því stafað. En ég gat ekki orðið sammála samnm. mínum um fyrirkomulagið. Ég tel það óheppilegt spor, sem stigið hefir verið hér á þingi, í þá átt að binda tekjur ríkisins um langt árabil. Nú geri ég að vísu ráð fyrir því í brtt. minni á þskj. 229, en að þær séu þó bundnar nokkuð á annan hátt en gert er ráð fyrir í frv. sjálfu. Í því er gert ráð fyrir að veita einkarétt á happdrætti. En ef það er stofnað hér á landi, þá á það að vera rekið af ríkinu sjálfu strax. Því að það er hætt við, að aðrir vildu annars síðar fá svipað einkaleyfi og með sama rétti og háskólinn vill nú fá það. Það er fjarstæða, sem hv. frsm. hélt fram, að það sé verið að reyna að stela þessari hugmynd frá háskólanum, með því að flytja brtt. eins og mína. Það mætti frekar segja, að háskólinn hafi stolið hugmyndinni frá ríkissjóði, því að árið 1925 var svipað frv. flutt hér á þingi, til þess að reyna að ná tekjum fyrir ríkissjóð. Flm. þess þá, hv. núv. 3. þm. Reykv., taldi einn höfuðkost þess frv. það, að með því fengjust vissar tekjur fyrir ríkissjóð, sem hann áleit þá, að full þörf væri fyrir. Hafi sú þörf verið þá, mun hún ekki síður brýn nú. Þess vegna vil ég breyta frv. nú í það horf, sem frv. 1925 hafði, að láta veita ríkissjóði tekjur þess.

Hv. frsm. gat þess, að það væru aðrar byggingar, sem meiri þörf væri á að reisa en háskólabyggingu. Það getur orðið ágreiningsmál. Mér skildist, að í ársbyrjun 1935 geti fyrst verið um að tala framlög af þessu til framkvæmda. Árið 1934 á happdrættið að byrja að starfa og varla getur á því ári orðið að ræða um framkvæmdir fyrir framlög frá því. Það er því nægur tími til að athuga það, á hvaða byggingum ætti að byrja, þótt það verði ekki nú ákveðið.

Till. mín gengur í þá átt, að frv. verði gert eins og frv. var 1925, að öðru leyti en því, að nú eiga tekjurnar af happdrættinu að renna í sérstakan sjóð, sem nota á til opinberra bygginga, og ráðstöfun á fé hans á að hlíta samþykktum þingsins í hvert skipti. Ég hefi viljað setja tryggingar fyrir því, að væntanlegum tekjum sjóðsins yrði ekki ráðstafað um óákveðinn tíma, og því sett þetta ákvæði um úrskurð þingsins í því efni. Þó að nú sýnist máske mest þörf á að reisa einhverja sérstaka byggingu, getur aðstaðan breytzt þannig, að síðar þyki annað nauðsynlegra að byggja. Auðvitað ef byrjað er á einhverri byggingu samkv. ákvæðum þingsins fyrir fé úr þessum sjóði, þá verður að klára hana. Svo að það má segja, að með því að byrja að veita fé til einhverrar byggingar, þá sé endanlega gengið út frá því að halda áfram með þá byggingu. En gætilegar ætti að vera farið í þær sakir, ef það þyrfti að sækja um fjárveitingu úr sjóðnum í hvert skipti, heldur en ef hægt væri að agitera í eitt skipti um fjárframlög úr sjóðnum um óákveðinn tíma.

Hv. frsm. hélt því fram, að það hefði lítið að segja, hvort tekjurnar, sem rynnu í ríkissjóð af þessari starfsemi beint, væru meiri eða minni. Það má kannske segja, að það skipti ekki miklu máli, en þó teldi ég ekki óeðlilegt að ætla ríkissjóði nokkurn hluta þeirra. Og hinar opinberu byggingar mættu vel við una, þótt allar tekjurnar rynnu ekki til þeirra. og þó að farið yrði eftir minni till., sem gerir ráð fyrir, að meira af tekjum þessum renni í ríkissjóð heldur en brtt. n. gerir ráð fyrir.

Út af tilmælum hv. frsm. um að ég taki brtt. mína aftur nú við þessa umr., er það að segja, að ég get gengið nokkuð á móti honum í þessu efni, ef hann vill mælast til þess við hæstv. forseta að taka málið af dagskrá. En ég vil ekki láta þessa umr. fara svo fram, að ekki verði greidd atkv. um þær brtt., sem ég hefi hér borið fram. Því að verði þær felldar, þá mun ég enn gera tilraun til að færa þetta mál í það horf, sem ég get unað við.

Út af þeirri brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Dal., vil ég segja það, að ég kann ekki við, að verið sé með frv. að fastbinda það, að nokkur viss stofnun fái þetta til einkarekstrar fyrir sig. Og sama er að segja um það, eins og þau ákvæði í frv. sjálfu, að mér finnst það nokkuð fyrir sig fram að ákveða það nú, að þegar sá tími er liðinn, sem einkaleyfi háskólans á að ná yfir, þá eigi happdrættið að verða ríkisfyrirtæki. Ég held, að það ákvæði hefði getað beðið svo sem eitt eða tvö ár. Ég finn svo ekki ástæðu til þess að rökræða frekar um afstöðu mína til þessa máls. Atkvgr. mun sýna afstöðu hv. dm. til aðalatriða og ágreiningsatriða þessa máls.