25.03.1933
Neðri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Jónas Þorbergsson:

Ég hefi borið fram brtt. á þskj. 251. Ég skal játa það, að ég hefði fellt mig betur við, að málið hefði verið borið fram í svipuðum farvegi eins og hv. þm. V.-Húnv. hefir gert í sinni brtt., ef hann hefði viljað láta það vera tryggt, að þörf háskólans yrði fyrst fullnægt með ágóða af happdrættinu. En þar sem hann virðist vera fjarri þeirri stefnu, þá geri ég ekki ráð fyrir, að við getum orðið samferða. Hinsvegar ber ég fram brtt. þessa til þess að byggja brú milli þeirra, sem vilja styrkja háskólann um 10 ára bil með því að veita honum þetta einkaleyfi, og hinna, sem vilja ríkishappdrætti. Eftir minni till. er gert ráð fyrir því, að þegar þörf háskólans væri leyst, sem gæti orðið innan 10 ára, þá yrði málinu komið í þann farveg, sem hv. þm. V.-Húnv. vill láta það falla í nú þegar. Mig furðar á því, hve lítils hann metur við mig, að ég vil þannig leitast við að koma til liðs við hann í málinu. Út af því, sem hann segir, að það sé nokkuð fyrir sig fram að ákveða nú um, að happdrættið skuli verða ríkisfyrirtæki, þegar þörf háskólans er leyst, þá finnst mér það ekki mæla á móti minni till., þó að þingið geri ráð fyrir, að þetta starf haldi þá áfram sem ríkisfyrirtæki og ágóða þess verði varið til opinberra bygginga fyrir ríkið.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um brtt. Hún hefir ekki sætt neinum mótmælum og er í sjálfu sér meinlaus, og vænti ég þess, að hv. dm. treysti sér til að samþ. hana. Mér virðist að með því mundi málið síður vera eins í lausu lofti og það er nú samkvæmt frv. En ég býst við, að ég treysti mér ekki til að fylgja brtt. hv. 3. þm. Reykv. á þskj. 230.