25.03.1933
Neðri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Magnús Jónsson:

Við 1. umr. gerði ég allýtarlega grein fyrir frv. f. h. menntmn., sem hefir flutt frv., og ég skal ekki endurtaka neitt af þeim almennu rökum, sem ég bar fram til stuðnings málinu. Ég vil þakka hv. fjhn. fyrir það, að hún mælti einróma með því, að þetta frv. verði samþ. En hinsvegar hefir rætzt sá grunur, sem ég hafði um það, að tilgangurinn með því að koma þessu máli til fjhn. væri sá, að skerða dálítið tekjurnar, sem eiga að ganga af happdrættinu til þessa ákveðna verkefnis. En annars skal ég ekki ræða mikið um það. Hv. dm. verða hver og einn að gera það upp við sjálfa sig, hvort þeir vilja láta ríkissjóð seilast til að taka nokkuð af tekjum þessum til sinna almennu þarfa. Það stappar nærri hugsunarvillu, að ríkið fari þannig að skattleggja sjálft sig. Tilgangurinn, sem á að ná með tekjunum af happdrættinu, er ekki annar en sá, að leysa eina af þörfum ríkissjóðs, þar sem það er tvímælalaust, að ríkið verður að taka á sig og mundi taka á sig, ef þess væri nokkur kostur, að koma upp þessari byggingu fyrir háskólann. Þetta þýðir þá ekki annað en það, að ríkið vill ekki fara eins hart í að sinna þessu verkefni eins og farið yrði, ef þessar tekjur rynnu allar til þess óskertar. Ef ekki verður bætt úr þessari þörf með slíku móti sem þessu fyrirtæki, þá yrði ríkissjóður að leggja fram fé til þess. En þegar stungið er upp á að losa ríkissjóð við bein fjárframlög til þessa þarfa málefnis, þá vill ríkið fá dálítið fyrir að leyfa það. Það er náttúrlega mjög einkennileg aðferð. Þó ætla ég ekki að gera þetta að kappsmáli. Ég bar fram brtt. um að lækka þennan ríkisskatt niður í 10%, einungis til þess að ekki yrði tafið eins mikið fyrir framkvæmd þessa þarfa málefnis.

Mér mundi þykja vel ganga, ef allir miðar seldust og ágóði yrði um 300 þús. kr. árlega. En við því þarf ekki að búast. Ef helmingur miðanna seldist, mundu tekjurnar verða á annað hundrað þús. kr. og varla er hægt að leggja upp með minna en það til þess að byrja framkvæmd á svona fyrirtæki. Ef happdrættið fær að njóta allra teknanna í 10—20 ár, er augljóst, að hægt er að gera mikið á þeim tíma. En úr þessum tekjum má ekki draga, enda getur hreint og beint orðið óhentugt að vinna verk það, sem fyrir liggur, ef ekki falla nokkuð miklar tekjur til, eins og ég mun síðar víkja að.

Hv. þm. Seyðf. er hinn eini, sem hefir tjáð sig andvígan frv. Þó er það ekki sjálf hugmyndin, sem hann amast við, heldur vill hann verja tekjunum til annars. Happdrættið hefir áður verið innlimað í tekjuöflunarfrv. hans og flokksmanna hans, í því skyni að koma út innlendum ríkisskuldabréfum. En ég hefi ekki trú á því, að innlend lánsútboð beri mikinn árangur. Það þýðir ekki að vitna til þess, að 60 millj. kr. af innstæðufé sé til í landinu. Það fé er allt fast. Ef þetta fé væri bundið í ríkisskuldabréfum í sambandi við happdrætti yrði að kalla inn tilsvarandi mikið fá frá atvinnuvegunum. Ég álít ekki rétt að hleypa spilalöngun manna á það stig, að hún valdi raski í atvinnulífinu, né heldur að rétt sé að keppa við önnur verðbréf hins opinbera, eins og veðdeildarbréf og ræktunarsjóðsbréf. Ég ætla, að slík ráðstöfun gæti leitt af sér meira atvinnuleysi og vandræði en svaraði til gagnsins.

Hv. þm. V.-Húnv. er með allvíðtækar brtt. og vill koma málinu í annan farveg. Fyrsta brtt. er langvíðtækust, að formi til a. an. k. Hún gengur í þá átt, að ríkið sjálft reki happdrættið í stað háskólans. Þetta atriði var vandlega athugað í menntmn. og það varð einróma álit nm., að það væri háskólanum fyrir beztu, að hann sjálfur ræki happdrættið, en ekki ríkið. Ef rekstur þess er falinn háskólanum, er fengin trygging fyrir því, að hann sé í höndum þeirra manna, sem hafa sérstakan áhuga á málinu. Ég er ekki að efast um, að happdrættið gæti gefið arð sem ríkisstofnun, en ég efast um, að það yrði rekið eins vel. Ég held, að það væri einmitt gott fyrir ríkið að varpa af sér áhyggjunum af þessu fyrirtæki yfir á annan aðila í byrjun, en taka það svo að sér, þegar það er komið á legg og hefir öðlazt vinsældir þjóðarinnar, því að enginn vafi er á, að háskólinn myndi reka happdrættið með meiri natni og minni tilkostnaði en kostur er á í höndum hins opinbera. Það er ekki heldur svo, að hér sé verið að selja happdrættið í hendur neinum braskara, þótt það sé um vissan tíma falið virðulegri ríkisstofnun, sem háð er eftirliti ríkisvaldsins.

Annað atriðið í till. hv. þm. V.-Húnv. er, að ágóðinn skuli tekinn með stimpilgjaldi af brúttótekjum happdrættisins. Ég held, að tekjur ríkissjóðs, teknar af brúttóágóða, geti orðið óeðlilega miklar, og jafnvel töluverðar, þótt lítill eða enginn hagnaður væri af happdrættinu. Ég tel því sjálfsagt, að nettóágóði sé lagður til grundvallar.

Í þriðja lagi vill hv. þm. V.-Húnv. breyta til um úthlutun fjárins. Vill hann láta Sþ. ákveða um úthlutun fjárins í hvert skipti. Ég veit nú satt að segja ekki, hvernig hv. þm. hugsar sér þetta. Mér skilst, að tilgangur byggingarsjóðs sé sá, að reistar verði fyrir hann oft og tíðum alldýrar opinberar byggingar, og veit ég þá ekki, hvernig á að komast hjá því að binda tekjurnar fyrir fram um víst tímabil, nema það sé meiningin að verja 150 þús. kr. í stjórnarráðshús eitt árið, og næsta ár sé, svipuð upphæð lögð til háskóla og síðan sé haldið svo áfram með listasafn, kvennaskóla o. s. frv. Það er vitanlega óhjákvæmilegt að binda ágóðann meðan verið er að koma upp hverju húsi. Verkið verður að bjóða út í samningsvinnu, og vel getur þurft ágóða 3—4 ár til að standa við akkorðið, og ég get ekki skilið, hversu það má verða, ef engin trygging er fyrir því, að peningar fáist til framkvæmda.

Hv. þm. V.-Húnv. og hv. frsm. töluðu um, að orkað gæti tvímælis, hvert fyrsta húsið ætti að vera. En það er eitt hús, sem Alþingi hefir ákveðið að reisa á vissu árabili, og ef aflað er fjár til opinberra byggingu, hlýtur það hús að sitja fyrir vegna sæmdar Alþingis. Og þetta hús er háskólabyggingin.

Um brtt. í heild er það að segja, að ég get ekki fallizt á þær né ráðið öðrum til að samþ. þær, með því að ég tel þær miða til hins lakara. Brtt. hv. þm. Dal. má kallast miðlunartill. milli frv. og brtt. hv. þm. V-Húnv. Í henni er tekið fram, að ríkið skuli taka happdrættið í sínar hendur, er hús handa háskólanum hefir verið reist. Ég get fallizt á efni brtt., en finnst þó 10 ár vera nægur tími til stefnu til að athuga þetta. Happdrættið er í frv. hugsað sem ríkishappdrætti, þótt ríkið feli það um stund öðrum aðila.