28.03.1933
Neðri deild: 38. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Hannes Jónsson:

Það er tvennt einkennilegt í umr. um þá tekjuvon, sem þetta frv. gefur, og þá fyrst og fremst það, að þetta sé einhver hugmynd, sem háskólinn sérstaklega eigi, og verið sé að seilast inn á svið háskólaráðsins, ef talað er um happdrætti til rekstrar fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Ég skil ekkert í þessari rökvillu hjá þeim; það er a. m. k. óskiljanlegt hjá þeim mönnum, sem áður hafa flutt frv. á Alþingi um að afla ríkissjóði tekna á þennan hátt. Það er því sannarlega ekki verið að taka neina löghelgaða séreign frá háskólanum, þótt lagt sé til að snúa þessu frv. upp í það, að hjálpa þeim nú, sem við allra mesta örðugleika eiga að stríða.

Annað er líka einkennilegt í sambandi við þetta, og það er það, að það er eins og enginn geti fest hendur á þessu nema háskólaráðið sjálft. Það er eins og þessi tekjustofn sé eins og bragandi norðurljós, sem gangi út frá veldisstóli háskólaráðsins og enginn geti fest hendur á nema háskólaráðið. Það þurfi ekki annað en að rétta út hendina og kinka kolli, svo að þingið allt falli fram fyrir þessum gullkálfum og tilbiðji þá og viðurkenni, að það, sem mest ríður á fyrir þjóðfélagið, sé að reisa háskóla, milljónabyggingu. Hv. þm. talaði eins og ekkert væri hægara en að láta allt ganga sinn gang og bæta við nýjum framkvæmdum, en þessi kreppumál séu einhversstaðar úti í horni og útheimti ekki nema einhver smávægileg gjöld, sem engu nemi, og að við skulum halda áfram eins og áður að auka þau útgjöld, sem allir hafa verið að tala um, að helzt mætti spara.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það væri ekkert deilumál, að hér væri kreppa og bændur væru í vandræðum. Hann getur vel fallizt á það, að atvinnurekendur landsins séu yfirleitt í mestu vandræðum, en þeir eiga bara að vera þeir aðrir eða þriðju í röðinni, þegar verið er að úthluta því fé, sem landsmenn hafa yfir að ráða. Hann vildi telja það stóran kost á frv., að ef það næði fram að ganga, þá fengjust 200—300 þús. kr. árlega til atvinnubóta. Það hefir nú samt verið svo hingað til, að húsbyggingar hafa ekki verið taldar beztu atvinnubæturnar, vegna þess að svo mikill hluti af öllum kostnaði fer til annars en verkakaups. Það er því áreiðanlega miklu heppilegra að fara aðrar leiðir, þegar um er að ræða atvinnubætur fyrir Rvík.

Hv. 3. þm. Reykv. fór í þessu sambandi að bera saman hafnargerðina á Akranesi og háskólabygginguna. Hann sagði, að eins og hv. þm. Borgf. segði, að skólinn gæti starfað áfram við sömu kjör og hann hefði gert, eins mætti segja, að menn gætu haldið áfram að róa á Akranesi, þó að engin höfn væri byggð. Ég get tekið það fram, að ég hefi ekki verið mjög „spenntur“ fyrir öllum þessum höfnum, sem hefir átt að reisa hér við land, en það verð ég þó að segja, að ég álít ólíkt betra að verja fé til þess heldur en til háskólabyggingar, a. m. k. eins og nú standa sakir, því að það yrði þó til að létta eitthvað undir með atvinnuvegunum, og þorskur, sem dreginn er á land á Akranesi, mundi skapa meira verðmæti en þorskur, sem dreginn er á land í háskólanum.

Hv. þm. G.-K. var að tala um, að þessi málflutningur minn væri ógeðslegur, þar sem ég var að tala um vandræði bænda og þeirra þarfir. Ég skal ekkert væna hann um, að hann hafi þar talað á móti sannfæringu sinni. Ég get vel búizt við, að honum þyki ógeðslegt, að talað sé um vandræði og þarfir bænda og að þeir þurfi hjálpar við. Ennþá hefir ekkert komið fram um það, á hvern hátt það verði bezt gert. En þó að n. sú, sem hefir haft þau mál til athugunar, beri fram till. í því efni, sem að miklu gagni mega koma, þá hygg ég, að möguleikarnir verði ekki of miklir, þó að þetta ráð, sem ég hefi nú bent á, sé tekið upp til viðbótar.

Hv. þm. Dal. var að tala um, að till. mínar við 2. umr. hefðu verið til þess að tefja þessa nauðsynlegu byggingu háskólans, og nú við þessa umr. hefðum við flm. þessarar brtt. komið með aðra till., sem við teldum sigurvænlegri, af því að við hefðum þar tekið kreppuna í okkar þjónustu. En ég get sagt hv. þm. það, að þessar till. eru eingöngu bornar fram af því, að við viljum meta meira að reyna að leysa yfirstandandi fjárhagsvandræði en að reisa milljónabyggingu hér í Rvík.

Hv. þm. sagði, að till. okkar hv. þm. Borgf. væru agn, sem þm. bændakjördæma væri ætlað að bíta á, og lét mikið yfir því, að hann mundi ekki gína við þeirri flugu og þora alls óhræddur að standa við það frammi fyrir sínum kjósendum. Ég býst líka við, að það sé óþarfi fyrir hann að vera hræddur í því efni, því að enginn mun geta farið óhræddari heim til kjósenda sinna en hann. Annars þarf hann ekki að vera neitt smeykur, þó að hann drýgi einhverjar syndir, því að þær koma aldrei á hans reikning, heldur verða þær bara skrifaðar hjá útvarpinu.