27.03.1933
Neðri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

1. mál, fjárlög 1934

Haraldur Guðmundsson:

Í ræðu minni á föstudagskvöldið gerði ég grein fyrir myndun samsteypustj. og sýndi fram á, að sannast hefir algerlega fyrirsögn okkar Alþ.flokksmanna, að Íhalds- og Framsóknarflokkurinn eru nú runnir saman í einn flokk, þótt nöfnin enn séu tvö til að blekkja kjósendur, að enginn ágreiningur er milli þeirra um mál og nær enginn lengur um menn. Þá sannaði ég, að stj. hefir enn nær ekkert gert til þess að leysa þau tvö mál, sem vera skyldu höfuðverkefni hennar — kjördæmamálið og kreppuvandræðin —, og að enn hefir ekki bólað á viðleitni líklegri til árangurs í þessum efnum. Ég henti ennfremur á, að óánægjan fer að maklegleikum vaxandi hjá þorra þjóðarinnar yfir úrræðaleysi og aðgerðarleysi þings og stj., og að vantraust á löggjafarvaldið fer hraðvaxandi vegna sífelldra vanefnda á gefnum loforðum, að fyrir aðgerðaleysi í kreppumálunum, stórminnkaða atvinnu við opinberar framkvæmdir, framlengda og aukna nauðsynjatolla og stórlega viðleitni til þess að lækka kaup láglaunafólksins hefir skapazt ástand eða horfur í landinu, sem sjálf stj. telur svo ískyggilegar, að hún krefst þess að fá ótakmarkað fé og liðsafla til ríkislögreglu, til þess að geta haldið uppi „friði“ og haldið hinum óánægðu í skefjum. Ég hefi sýnt fram á, að vegna frámunalega slælegrar landhelgisgæzlu, sem þó kostar stórfé, hefir þorri bátafiskimanna misst trú á framkvæmdavaldið og erlendir og innlendir veiðiþjófar nauðsynlegan ótta; að vegna óskaplegrar misbeitingar, misþyrmingar réttarfarsins, svo sem algerlega tilefnislausar náðanir stórafbrotamanna og niðurfelling rannsóknar á stærsta fjárþrotamáli hérlendis, Íslandsbanka, samtímis því, sem tilefnislitlar og tilefnislausar sakamálshöfðanir eru settar á tugi manna, er að gereyðileggjast allt traust á dómsvaldið í landinu, en stráksskapur misendismanna að stælast og allur uggur og ótti slíkra manna, sem eitthvað eiga undir sér eða áhrifamenn að, með öllu að hverfa.

Engu þessara meginatriða ræðu minnar reyndu hæstv. ráðh. að hnekkja, enda er hér um staðreyndir að ræða, eins og hver maður veit, sem fylgzt hefir með í verkum og verkleysu hæstv. stj. og kynnt sér ástandið. Hinsvegar gerðu hæstv. ráðh. nokkrar aths. við ýms einstök atriði ræðu minnar, og skal ég nú víkja að þeim.

Þá er það fyrst hæstv. forsrh. Ræðu hans þarf ég fáu að svara. Hún var mestmegnis almennar hugleiðingar um lífið og tilveruna, sem hann flytur flesta daga hér í deild í meira og minna prestlegum tón. Ég verð að slá honum gullhamra. Orðheppinn maður sagði fyrir nokkru um íbúa eins héraðs, hverra menningu var mjög á lofti haldið: „Þeir vita bezt það sem allir vita“. Eins er það um ráðherrann. Hann virðist vita bezt það, sem allir vita, og sjálfur vil ég bæta við, að hann miðlar öðrum af þessum vísdómi mjög örlátlega. Ég þekki engan mann, sem oftar eða betur kann að segja það, sem Danir kalla Selvfölgeligheder, önnur eins spakmæli eins og þetta: „ríkissjóður þarf að fá tekjur“, „það er ekki hægt í einu að spara mikið og eyða miklu“, „beztu úrslit fást ekki, nema með góðum vilja og samvinnu“, „ríkissjóður er samnefnari hags allra landsmanna“. Þetta eru örfá af gullkornum þeim, sem hæstv. ráðh. miðlaði svo örlátlega. Vísdómur þessi er hvorki nýr né frumlegur, og ekkert af þessum spakmælum hnekkir neinu af því, sem ég hélt fram í minni ræðu, eða kom henni neitt við.

Hæstv. ráðh. kvað það rétt, sem ég sagði um myndun samsteypustj. og kjördæmamálið, að ekki sé útlit fyrir lausn þess á þessu þingi. En hann taldi hinsvegar, að lausnin færðist nær með hverjum degi, sem líður, eins og hver dagur, sem líður, styttir það, sem ólifað er. Heldur er það huggun fyrir þessar þúsundir, sem í raun réttri eru sviptir atkvæðisrétti með kjördæmaskipuninni, að einhverntíma kunni að koma að lausnarstundinni. Um kreppuna talaði hæstv. ráðh. nokkuð, mótmælti þó engu af því, sem ég hafði sagt, en lék þá list, sem ég áðan dáðist að. Hann hafði ekki á móti því, að hann hefði verið dálítið drjúgur yfir, hversu vel hann hefði gætt fjárhagsins 1932. Hann hefði sparað mikið og bjargað þannig fjárhagnum, gert mikið og afstýrt atvinnuleysi. Fjárhagnum hefði hann bjargað með því m. a. að draga svo úr fé til verklegra framkvæmda, að svaraði til að þrjú hundruð menn a. m. k. væru sviptir 6 mánaða vinnu. „Það eru óþægindi að atvinnuleysinu“, sagði ráðh., en í það ber ekki að horfa. (HStef: Við erum búnir að lesa þetta í Alþýðublaðinu). Hv. þm. hefir gott af að heyra það aftur. Svo bjargar hæstv. ráðh. atvinnuleysinu með því að taka örlítið brot af þessum þrjú hundruð þús. krónum og leggja til atvinnubóta. Af þeim 300—400 mönnum, sem voru gerðir atvinnulausir til að bjarga fjárhagnum, var 30—40 veitt atvinnubótavinna til að aflétta atvinnuleysinu. Svona listir leika ekki nema slyngir menn. Það er smáræði að metta 5000 manns með nokkrum brauðum og fiskum samanborið við þetta. Þó verð ég að draga úr fullyrðingu hæstv. ráðh. um það, hve mikið hann hefði „sparað“ 1932. Hæstv. ráðh. forðaðist eins og kölski grallarann að nefna fjárlögin fyrir 1932 við samanburð sinn. Hann sagði alltaf, að þetta og þetta hefði verið svona miklu lægra en 1931. Heldur hæstv. ráðh., að LR. 1931 segi til um það, hve miklu eigi að eyða 1932. Ég veit ekki betur en að fjárlög hafi verið samin fyrir það ár eins og önnur. Hann kvartaði ekki undan því, þegar þessi fjárlög voru afgr., að ekki væri hægt að framfylgja þeim. — Einn liðurinn, sem „sparað“ hefir verið á, að því er ráðh. sagði, er dómgæzla og lögreglustjórn. Það er rétt, að ef borið er saman við árið 1931, hafa gjöldin lækkað, en ef borið er saman við það, sem Alþ. ætlaðist til að eytt væri, þ. e. fjárlögin fyrir 1932, þá er sparnaðurinn enginn, minni en enginn. Alþ. heimilaði 955 þús. kr., en ráðh. eyddi 1056 þús. kr., 101 þús. kr. fram yfir heimild. Þetta er þá sparnaðurinn. Umframeyðsla yfir 100 þús. Í hvað hefir þetta farið?' Í ríkislögregluna. Frá því snemma í nóv. hefir verið eytt í hana 1100 kr. á dag. Nei, sparnaður er ekki á þessum lið, heldur umframeyðsla, óþörf, óheimiluð og háskaleg. Ég nefni þennan lið einan; svo er þó um fleiri, sem hann taldi, að þeir hafa farið fram úr áætlun fjárlaga.

Þá minntist ráðh. á landhelgisgæzluna og flutti þá kenningu, að lítið sektarfé gæti vel verið sönnun þess, að gæzlan væri „effektiv“. Þetta er fjarstæða, sem ekki er svaraverð, að gæzlan sé meira „effektiv“ þegar eitt skip annast hana en þrjú. Danska varðskipið tók 1932 þrjú skip, eða þrefalt fleiri en 1931, svo að ekki hefir þar verið minna um lögbrjótana. En íslenzku skipin tóku ekki nema fjögur skip 1932, en 12 árið 1931, það er að segja þrem sinnum færri. Um þetta þarf ekki að orðlengja. Hver maður skilur, að gæzlan er ekki jafngóð með einu skipi og mörgum. Um ánægju V.-Ísfirðinga með landhelgisgæzluna skal ég ekki deila. Ég veit, að þeir eru menn hæverskir og vilja ekki hrella forsrh. og þm. sinn mikið, þegar hann er gestur þeirra. En ekki gátu þeir nú setið á sér að skjóta að honum smápillum, að því er hæstv. ráðh. sjálfur upplýsir. Því aftan í „ánægjuna“ skjóta þeir aths. um það, að varðbáturinn hafi tvisvar sinnum orðið var við togara í landhelgi, sem hann ekki náði númeri af, og sterkur grunur leiki á, að það hafi verið sami togarinn í bæði skiptin. Þetta finnst mér nú draga dálítið úr traustinu, þegar tillit er tekið til hæversku V.-Ísfirðinga. Ég hefi í dag fengið skeyti frá Arnarfirði, þar sem hermt er, að sízt sé ofmælt í ræðu minni á föstudaginn um óánægjuna með landhelgisgæzluna. Vil ég leyfa mér að lesa hér upp skeyti frá stjórn fiskideildarinnar „Framtíðarinnar“, og hljóðar það svo:

„Að gefnu tilefni vottast, að það, sem sagt hefir verið um strandvarnir í Arnarfirði og birt er í Ægi, 12. tbl. 1932, er rétt hermt. Ummæli gegn því hafa við lítil rök að styðjast.

Stjórn fiskideildarinnar Framtíðin Bíldudal“.

Eitt af spakmælum hæstv. ráðh. var:

„Ríkissjóður þarf að fá tekjur“. Ég veit ekki til, að nokkur maður hafi andmælt þessu. Aldrei hefi ég gert það. En milli mín og hæstv. ráðh. er djúpsettur ágreiningur um það, hvernig eigi að afla teknanna. Hann vill afla þeirra með tollum á tolla ofan á nauðsynjar fólksins, taka af þeim, sem ekkert eiga, eins og biblían kemst að orði, en ég vil taka af þeim, sem eitthvað eiga, með því að leggja toll á hreinar óhófsvörur og með einkasölum og með sköttum á arð, aðrar hátekjur og eignir. Þetta er eitur í beinum hæstv. ráðh. Hans leið er nauðsynjatollarnir. Hæstv. ráðh. segir, að atvinnubótavinnan sé engin framtíðarúrlausn. Ég er honum alveg sammála um þetta. En hún getur verið alveg stórkostleg og nauðsynleg hjálp í bili, og frá þjóðhagslegu sjónarmiði er það tvímælalaust mikill gróði að sjá mönnum fyrir vinnu við gagnleg störf, í stað þess að úthluta fátækrastyrk fyrir að gera ekkert. Auk þess má einmitt í atvinnubótavinnu vinna ýms þau verk, sem geta stutt að varanlegri atvinnu í framtíðinni og bætt afkomuskilyrði staðanna. En úr því að hæstv. ráðh. er eins annt um atvinnubótavinnuna og hann lét, þá vil ég leyfa mér að beina til hans einni fyrirspurn: Hvernig stendur á því, að í fjárlfrv. 1934, sem hæstv. ráðh. hefir lagt fyrir þingið, er ekki einn einasti eyrir ætlaður til atvinnubóta? Úr því að hann hefir séð þýðingu atvinnubótanna og telur þær nauðsynlegar, hví tekur hann þá ekki einn einasta eyri í þessu skyni? Hann þótti þó hafa nægilegt að gera með þær þrjú hundruð þúsund krónur, sem voru í seinustu fjárl. í þessu skyni. Heldur ráðh., sem stundum talar skáldlega og segir, að kreppan sé eins og vindurinn, sem enginn viti hvaðan kemur eða hvert fer, að hún sé að blása burt með vindgolunni og að alls engin kreppa verði 1934. Ég held, að það sé of mikil bjartsýni.

Þá vil ég víkja mér að hæstv. dómsmrh. Hann hélt sig að efninu í ræðu minni, en þótt sorglegt sé að segja frá því um mann, sem er dómsmrh. Íslands, þá verð ég að segja, að hann fór mjög á snið við sannleikann, sagði beinlínis ósatt þéttingsoft í ræðu sinni, og a. m. k. nokkrum sinnum vitandi vits. Það ber ekki vott um sterkar varnir að verða að grípa til slíks.

Ég ætla að víkja fyrst að því smæsta og drepa á, að hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði sjálfur sagt, að sagan um togarann, sem var að veiðum inni á Vaðlavík, væri lygi, svo að henni þyrfti ekki að svara. Ég vil vona, að hæstv. ráðh. hafi heyrt þetta rangt, en ekki sagt hér vísvitandi ósatt. Mér þykir mjög sennilegt, að sagan sé rétt að því leyti, að togari hafi verið að veiðum uppi undir landsteinum innan um fiskibátana, því slíkir atburðir gerast nú ærið tíðir, svo slæleg sem gæzlan er. Hitt tel ég aftur á móti ólíklegt, að það hafi verið rétt, sem togaraskipverjinn kallaði til bátamannanna: að ráðh. hefði leyft þessum togara að veiða í landhelgi. Ég vil ekki trúa því, að þetta sé satt um hæstv. ráðh. En sagan sýnir vel álit Austfirðinga á röggsemi hans við landhelgisgæzluna.

Þá er það sparnaðurinn við landhelgisgæzluna, sem ég þarf að víkja að. Ég vék að því í fyrri ræðunni, að það væri undarlegur sparnaður hjá ráðh. að hafa eitt skip í gangi, en hafa á föstum launum 4 skipherra og yfirmenn tveggja skipa. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta liti nú e. t. v. ekki sem bezt út, en þetta mundi borga sig vegna ketilhreinsunar, því að það væri einkar hentugt að geta hreinsað ketilinn þann mánuðinn, sem skipin lægju inni. (Dómsmrh.: Þetta er víst ekki útúrsnúningur.) Nei! Mér er sem ég sjái þá yfirmennina hreinsa ketilinn! En svo er nú það skrítna við þessa miklu ketilhreinsun, að ef Óðinn hefði verið látinn liggja, þá hefði enga ketilhreinsun þurft, því að það er mótor í Ægi og þar þarf enga ketilhreinsun. Annars er það nú miklu meira en ég skil, að það þurfi tvo skipstjóra til að hreinsa ketilinn auk annara yfirmanna, einkum þegar vitað er, að til þess eru aðrir menn fengnir. Þá sagði hæstv. ráðh., að kostnaðurinn við landhelgisgæzluna 1930 hefði orðið 700 þús. kr., sem er rétt, en svo bætti hann því við, sem er rangt, að ég hefði étið eitthvað af þessu fé, þegar ég var í ferðalögum með skipunum þetta sama ár. Ég segi ekki, að þetta séu vísvitandi ósannindi, en ég vil upplýsa ráðh. um, að það er alveg rangt. Ég greiddi að fullu fyrir mitt fæði um borð í skipunum, og er mér ljúft að votta, að Pétur Magnússon, samflokksmaður hæstv. ráðh., sem fylgdist með mér, greiddi einnig fyrir sig. Ég hefi því ekki étið neitt af þessu fé.

Þá er það þakkarávarpið, sem hæstv. ráðh. flutti mér fyrir að ég hefði drepið á 8000 kr. greiðslu til Guðm. Sveinbjörnssonar fyrir tveggja ára yfirumsjón, sem hann ekki hafði á hendi með varðskipunum. Það er rétt, að ég sagði, að hæstv. stj. hefði greitt Guðm. Sveinbjörnssyni þessar 8000 kr. Hvort ástæða er nú til að flytja mér þakkarávarp fyrir þetta, er ég ekki alveg viss um. Saga þessa máls gæti verið fróðleg fyrir flokksmenn ráðh., og ekki síður fyrir ýmsa framsóknarmenn úti um hinar „dreifðu byggðir“ landsins. Sú er saga málsins, að Guðm. Sveinbjörnsson hafði að nafninu til á hendi yfirstjórn varðskipanna og fékk greitt fyrir það 4000 kr. árlega fram á árið 1930. Í júlí 1930 var Ríkisskip látið taka við þessum störfum og hafði þau til jafnlengdar 1932, eða um tveggja ára bil. En nú hafði Guðm. Sveinbjörnsson verið greiddar 4000 kr. fyrir 1930, þótt umsjónin væri flutt til Ríkisskip á miðju því ári og hann hefði ekki neitt séð um varðskipin fyrri hluta þess árs heldur. Vil ég leyfa mér að lesa hér upp bréf, sem mér hefir borizt viðvíkjandi þessu frá Jónasi Jónssyni fyrrv. dómsmrh. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv forseta:

„Rvík, 25. marz 1933.

Hr. alþm. Haraldur Guðmundsson.

Út af villandi ummælum Magnúsar Guðm. dómsmrh. í útvarpsræðu á laugardaginn var um afstöðu fyrrv. stjórnar um tvö mál, vil ég gefa nokkrar skýringar, sem þér megið lesa í svarræðu yðar, ef þér teljið ástæðu til að skýra þau atriði nánar.

1. Út af því, að Guðm. Sveinbjörnsson skrifstofustjóri hefir nú í vetur fengið útborgaðar 8000 kr. fyrir svokallað eftirlit með landhelgisgæzlunni, auk fullra embættislauna, vil ég taka þetta fram: Ég hafði oft tjáð Guðm. Sveinbjörnssyni, að ég áliti, að hann ætti enga aukaborgun að fá vegna varðskipanna. En um það bil sem fullráðið var að taka af honum þessi laun, lagðist hann hættulega veikur og varð að kosta sig og konu sína á spítala erlendis um langa stund. Til að gera honum kleift að standast þennan kostnað fékk hann að halda launum sínum og aukaborgun fyrir varðskipin sem sjúkrastyrk, meðan á þessu stæði, en starfsfólkið í dómsmálaskrifstofunni bætti á sig allri vinnu hans þar án endurgjalds, en Pálmi Loftsson o. fl. umsjón varðskipanna, líka fyrir ekki neitt. En er Guðm. Sveinbjörnsson tók aftur við starfi sínu var það skýrt tekið fram af mér við hann, að þá fengi hann ekki lengur neina borgun fyrir varðskipin, enda var þá öll vinna við þau hjá skrifstofu ríkisskipanna. Ég hefi þess vegna ekkert tilefni gefið til þess, að Guðm. Sveinbjörnssyni yrði borgað fyrir varðskipin árin 1931 og 1932.

2. Sömuleiðis er það alrangt, að ég hafi gefið ástæðu til að fella niður fangelsisvist Þórðar Flygenrings í vor sem leið. Ég hafði þverneitað honum og vinum hans um náðun frá byrjun, en sagt honum og þeim, að þegar færi að líða að hausti, gæti orðið forsvaranlegt að fara að athuga, hvort mæla mætti með náðun, í samræmi við almennar venjur um umkomulausa menn.

Jónas Jónsson“.

Mér þótti rétt að lesa bréfið í heild, þó að ég víki að öðru atriðinu síðar.

Hæstv. dómsmrh. sagði í ræðu sinni á föstudaginn, að fyrrv. dómsmrh. hefði greitt Guðm. Sveinbjörnssyni þessi 4000 kr. laun fyrir 1931. En þetta er alveg rangt, eins og bréf J. J. sýnir. Upphæðin öll, kr. 8000, var greidd í ráðherratíð hæstv. núv. dómsmrh., þrátt fyrir neitanir hans nú, og skal ég leggja fram óyggjandi sönnunargögn fyrir þessu.

Ég hefi í höndum eftirrit af greiðslufyrirskipunum þessum, sem ég hefi fengið hjá ríkisféhirði, og skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa þau hér fyrir hæstv. ráðh. og hv. þm. og aðra áheyrendur. Þau hljóða svo:

„Sem útgjöld úr Landhelgissjóði við varðskipin ber að greiða skrifstofustjóra G. Sveinbjörnsson, þá er hann óskar þess, venjulega þóknun hans fyrir umsjón með landhelgisgæzlunni o. fl. snertandi hana, fyrir árið 1932, með 4000 — fjögur þúsund krónum.

Í dómsmálaráðuneytinu, 1. sept. 1932.

M. Guðmundsson.

Meðtekið 10. des. 1932.

G. Sveinbjörnsson“.

Alveg samhljóða ávísun þessari var gefin út af dómsmrh. 19. ágúst 1931 og undirrituð af Tryggva Þórhallssyni, svo hlj. samkv. eftirriti frá ríkisféhirði:

„Sem útgjöld við varðskipin ber að greiða skrifstofustjóra G. Sveinbjörnsson, þegar hann óskar þess, venjulega þóknun hans fyrir umsjón með landhelgisgæzlunni o. fl. snertandi hana, fyrir árið 1931, með 4000 — fjögur þúsund krónum.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 19. ágúst 1931.

Tryggvi Þórhallsson.

Meðtekið 10. des. 1932.

G. Sveinbjörnsson“.

Saga þessa máls er fróðleg, einkum fyrir sanntrúaða framsóknarmenn. Eins og hv. þdm. muna, þá urðu ráðherraskipti á stjórnarskútunni seint í aprílm. 1931. Jónas Jónsson vék þá úr stjórninni, en Tryggvi Þórhallsson tók við dóms- og kirkjumrh.embættinu ásamt fjmrh.embættinu, og hélt hann þeim störfum þangað til seint á sumarþinginu 1931. Það virðist nú vera býsna undarleg tilviljun, að 2 dögum áður en nýja stjórnin sezt á laggirnar, 21. ágúst 1931, og J. J. tók aftur við dómsmrh.embættinu fær G. Sv. þessa 4000 kr. ávísun hjá Tr. Þ. sem þóknun fyrir árið 1931, þegar hann skipti sér ekkert af varðskipunum, eins og öllum er kunnugt. En hitt er ekki síður eftirtektarvert, að einhverra hluta vegna, ef til vill af ótta við rekistefnu í málinu, þá framvísar G. Sv. ekki þessari ávísun allan þann tíma, sem Jónas Jónsson situr í stjórninni. Það er ekki fyrr en seint á árinu 1932, þegar M. G. er tekinn við dómsmrh.emb., þá kemur þessi gamla ávísun frá Tr. Þ. í leitirnar. Núv. dómsmrh., M. G., hafði þá 1. sept. 1932 gefið G. Sv. ávísun upp á 1 árs laun fyrir þetta starf, sem G. Sv. gegndi aðeins síðari helming ársins 1932. Að því búnu framvísar G. Sv. báðum ávísunum samtímis og fær þær greiddar með 8000 kr. 10. des. síðastl. fyrir að gera ekki neitt árið 1931 og fyrri hl. ársins 1932. Þetta eru laun fyrir röskl. 5 mánaða aukastarf 1932, aukastarf, sem Ríkisskip annaðist þessi 2 ár fyrir ekkert.

Þeir eru svo innilega sammála um þetta fóstbræðurnir nýju, hæstv. dómsmrh. (MG) og form. Frsfl. (TrÞ), sem nú er orðinn helzti skjaldsveinn dómsmrh. og varði hann dyggilegast, þegar vantraustsyfirlýsingin var hér síðast til umr. í Sþ. Ég býst við þakklæti frá hv. þm. Str. fyrir þessar upplýsingar í málinu, eigi síður en frá hæstv. dómsmrh.

Um bréf Jónasar Jónssonar skal ég ekki fjölyrða að öðru leyti. Hann talar þar um sjúkrastyrk til G. Sv. Ég álít, að það sé ekki á valdi stj. að úthluta embættismönnum sjúkrastyrk, og tilgangur landhelgissjóðs er vitaskuld alls eigi að veita vinum hv. stj. sjúkrastyrk.

Þá minntist hæstv. dómsmrh. á rannsóknina í máli Lárusar læknis á Kleppi. Þar felur hann sig á bak við hv. þm. G.-K. (ÓTh), en ekki Jónas, eins og í hinum málunum. Ég hefi ekkert að athuga við það, að sú rannsókn fór fram. En þar sem hæstv. ráðh. þótti ástæða til að benda á, að rannsóknin á Íslandsbanka hefði kostað 7000 kr., þá má einnig geta þess, að rannsóknin á þessu litla Kleppsmáli kostaði nú ekki minna en 2000 kr.

En það spaugilega við þetta mál er það, að fyrst er Lárusi lækni vikið frá embætti, og síðan er fyrirskipuð rannsókn til þess að athuga, hvort nokkrar ástæður hafi verið fyrir hendi til frávikningarinnar. En jafnframt var ekkert tillit tekið til þess, þó að kvartanir kæmu fram opinberlega um drykkjuskaparóreglu annara lækna og ekki talin ástæða til að rannsaka það, enda þeir sjálfsagt betur séðir af hæstv. ráðh. en L. J. Þetta skýrir sig sjálft.

Áður en ég vík að náðunarafrekum hæstv. dómsmrh. vil ég beina til hans fyrirspurn um það, hvort hann ætli ekki að áfrýja til hæstaréttar dómi undirréttarins í Hesteyrarmálinu. Eins og kunnugt er, þá dæmdi undirréttur tvo af framkvæmdastjórum Kveldúlfsfél. í 130 kr. sekt hvorn þeirra. En það undarlegasta við þennan fágæta dóm er það, að þrátt fyrir að hinir ákærðu eru sekir fundnir og dæmdir til að greiða sekt, þá á hið opinbera að greiða málskostnaðinn. Þetta er mjög óvenjulegt, og ef til vill einsdæmi. Þá er þess getið í dómnum, að síldarmálin á Hesteyri hafi verið 6% stærri en þau mega vera mest að meðtalinni skekkju, sem ekki telst refsiverð, en engin viðleitni er sýnd í dómnum eða forsendum til þess að reikna út, hvað verksmiðjan hafi haft upp úr því að nota þessi óleyfilega stóru síldarmál. En síðan hefir það verið reiknað út í blaði hér í bænum, að verksmiðjan hafi á þennan hátt haft af viðskiptamönnum og sjómönnum um 60 þús. kr. virði af síld, og er sennilegt, að þar sé fremur vantalið en hitt. Ég vænti, að hæstv. dómsmrh. svari því afdráttarlaust, hvað hann ætlar að gera í þessu máli, og hvort því verður ekki áfrýjað til hæstaréttar.

Þá eru það náðanirnar, hin pólitísku mannúðarverk hæstv. dómsmrh., og virtist mér það ömurlegasti kaflinn í síðustu ræðu hans, er hann var að leitast við að afsaka þessar óafsakanlegu gerðir sínar. Hæstv. ráðh. tvítók það, að ég hefði sagt ósatt, þegar ég fullyrti, að Ísleifur Briem hefði verið dæmdur fyrir fals. Það er hæstv. ráðh., sem fer með ósannindi um þetta, en ekki ég. Og ég verð að segja, að mér þykir það býsna bíræfið af manni, sem hlýtur að vera þaulkunnugur dómnum í þessu máli, því væntanlega hefir ráðh. lesið hann, að hann skuli leyfa sér að bera hér blákalt fram þessi ósannindi, þvert ofan í dóminn. Skal ég svo, með leyfi hæstv. fors., lesa hér upp nokkur orð úr forsendum dómsins: „:Mál þetta er af réttvísinnar hálfu höfðað gegn Ísleifi Briem, fyrrv. starfsmanni hjá frakkneska konsúlatinu hér í bænum, til heimilis í Tjarnargötu 20, fyrir brot gegn ákvæðum 26. og 27. kapítula almennra hegningarlaga frá 25. tími 1869 og lögum nr. 51 frá 1928, um nokkrar breytingar til bráðabirgða á hegningarlöggjöfinni og viðauka við hana, og af valdstjórnarinnar hálfu fyrir brot gegn ákvæðum áfengislaga, nr. 64 1928 og áfengislaga nr. 64 1930“. Og í dómnum: ,,Afbrot ákærða ber að heimfæra undir 1. gr. áfengislaga, nr. 64 1928, sbr. 27. gr. 1. tölulið sömu laga. (Fyrsta áfengissendingin, 54 lítrar), sbr. 27. gr. 1. tölulið áfengislaga, nr. 64 1930 (það, sem flutt var inn á árinu 1931, 72 lítrar) og 11. gr. sbr. 32. gr. sömu laga (veitingar vinanna)“. Og nú bið ég hæstv. dómsmrh. að taka eftir: „270 gr. almennra hegningarlaga frá 25. júní 1869 (fölsun pantana)“ og ennfremur: „272 gr. sömu laga (fölsun bréfsins til forsætisráðherra)“.

Ég skil ekki í því, að hæstv. dómsmrh. þurfi að fá þetta skýrara. Það er beinlínis tekið fram í dómnum, að maðurinn sé dæmdur eftir 270. og 272. gr. hegningarlaganna, og ennfremur er það tekið fram, fyrir hverskonar fölsun hann er dæmdur, þar á meðal falsað bréf til forsrh. Og svo stendur hæstv. dómsmrh. hér upp og segir, að það sé lygi, að maðurinn hafi verið dæmdur fyrir fölsun. Ég vil óska, að slíkt hendi hæstv. ráðh. ekki aftur. Og til þess enn frekar að taka af öll tvímæli um þetta, skal ég lesa upphaf 270. gr. hegningarl., um víti við því að skrifa ranglega annars manns nafn undir skjöl:

„Hver, sem skrifar ranglega annars manns nafn undir erfðaskrá, samning, skuldabréf, framsal, ávísun, ábyrgð, umboðsbréf, kvittun eða annað þesskonar skjal, sem miðar til að veita einstökum mönnum réttindi, eða til að losa þá undan skuldbindingum, skal sæta 1 til 8 ára hegningarvinnu“ . . . Og í byrjun 272. gr. sömu laga segir svo: „Skrifi nokkur annars manns nafn ranglega undir bænaskrá, vottorð, vegabréf eða önnur skjöl“, þá varðar það fangelsi eða hegningarvinnu, eftir því sem nánar er tiltekið. Ég læt svo úttalað um þetta mál.

Þá vík ég að náðun Þórðar Flygenrings. Hæstv. dómsmrh. bar það fram sér til varnar, að fyrrv. dómsmrh. hefði verið búinn að lofa honum náðun. Ég hefi nú lesið hér upp bréf frá fyrrv. ráðh. um þetta og lofa þeim að kljást um það. En ég verð að segja það, að mér þykir nú bregða undarlega við, ef þessi hæstv. dómsmrh. er nú allt í einu orðinn svo hrifinn af verkum fyrirrennara síns í embættinu, að hann þykist endilega þurfa að taka þau sér til fyrirmyndar. En hæstv. ráðh. hefir ekki einungis náðað þennan mann frá réttmætri refsingu og sleppt honum við fangelsisvist. Hann hefir gert meira. Hann hefir einnig létt af Þórði Fl. því ákvæði dómsins, þar sem honum var algerlega bannað að fást aftur við verzlunaratvinnu. Nú er þessum manni leyfilegt að byrja á ný atvinnurekstur eins og ekkert hefði í skorizt og hefja aftur samskonar starfsemi. Og það tekur út yfir allt.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að Björn Björnsson bakari hefði verið náðaður við fangelsisvist, með því skilyrði, að hann greiddi sektina í peningum! Og hann bætti við: „Ég ræð þessu, hvað sem hv. þm. Seyðf. segir um það, þá þýðir það ekkert fyrir hann“!! Þetta er með öllu ósæmilegt svar hjá hæstv. ráðh. Skylda hans er að rökstyðja gerðir sínar, greina ástæður til svo óvenjulegra stjórnarathafna. Eða ætlar hæstv. ráðh. að gerast nokkurskonar Hitler eða Mussolini hér á landi? Ég hélt, að hann væri orðinn of gamall til þess, og hefi enga trú á, að honum tækist vel að leika slíkt hlutverk hér. Það kann að vera, að hæstv. ráðh. þykist hafa gert með þessu góða „forretningu“ fyrir ríkissjóð. En ég tel, að hér sé um alveg ósæmilega kaupmennsku að ræða hjá hæstv. dómsmrh.

Ég skal taka það fram, að ég ræði ekki þessi mál hér til þess að rifja upp raunir þeirra manna, sem ég hefi nefnt hér; ég er ekki að ræða um gerðir þeirra í þeim tilgangi, heldur til að sýna fram á misgerðir hæstv. dómsmrh. í sambandi við mál þeirra. Það má náttúrlega segja, að það skipti ekki ýkjamiklu máli fyrir þjóðfélagið, hvort þessir menn sitja nokkrum mánuðum lengur eða skemur í fangelsi. Hitt skiptir aftur á móti geysimiklu máli, hvort hæstv. dómsmrh. ætlar að svipta dómstóla landsins því valdi, sem þeim er ætlað að hafa, með því að misheita náðunarvaldinu. Yfirleitt er alls ekki til þess ætlazt, að náðunarvaldinu sé beitt nema alveg sérstakar ástæður séu fyrir hendi, t. d. málsbætur, sem vegna strangleika laganna hefir ekki verið hægt að taka tillit til í dómi, heilsuleysi fangans, eða alveg sérstakar heimilisástæður. Engu slíku er til að dreifa í þessum tilfellum. Ef hæstv. dómsmrh. taldi dóm undirréttarins í málum Ísleifs Briems og Björns Björnssonar of strangan — og reyndar hvort sem var —, þá bar honum að sjálfsögðu að áfrýja honum til hæstaréttar. Hæstv. dómsmrh. má ekki gleyma því, að hann er ráðh., en ekki dómari, þó hann ef til vill langi til þess að fá dómsvaldið í sínar hendur og ætli sér máske sæti í hæstarétti síðar. Og þó tekur hitt út yfir, ef sá siður á upp að takast, að afbrotamönnum sé leyft að kaupa sig, frá refsingum með fégjöldum — eins og hæstv. dóms.mrh. segist hafa samið um við Björn Björnsson. — Það hlýtur að verða til þess, að hver fépúki, sem nóg hefir í buddunni, þykist geta mútað dómsvaldinu og keypt sig undan réttmætum refsingum, með því að bera fémútur á réttvísina. Allir hljóta að sjá, hvert slíkt stefnir. Og er ömurlegt til þess að vita, að við Íslendingar skulum eiga þann mann í dómsmálaráðherrasæti, sem gerist málsvari slíks réttarfars.

Fjöldi manna leiðist til afbrota hér sem annarsstaðar út úr vandræðum og af bjargarskorti: ófá dæmi eru til þess, að gripdeildir, hnupl og fleiri afbrot eru framin eingöngu vegna þess, að sulturinn sverfur að. En slíkir menn eiga enga háttsetta pólitíska mattadora að, og þeir hafa heldur ekkert fé að bjóða. Náðarsól dómsmrh., mildi og meðaumkvun hans nær ekki til þeirra. Þeir verða að afplána þyngstu refsingu eins og lög standa til.

Þá skal ég víkja að því málinu, sem hæstv. dómsmrh. hafði flest orð um —Íslandsbankamálinu. Ég átaldi það í fyrri ræðu minni, að hann hefði afturkallað fyrirskipun, sem gefin var í maí 1932, um að hefja opinbera réttarrannsókn í máli þessu, eftir að hann hafði legið á skjölum málsins í 9 mánuði, og þá fært það til, að málið væri orðið svo gamalt og þess vegna fyrnt. Ýmsu í ræðu hæstv. ráðh. þarf ég ekki að svara, eins og t. d. því, að jafnaðarmenn hafi stöðugt verið hatursmenn Íslandsbanka og E. Claessens og elt bankann og hann með óréttmætum ofsóknum. Reynslan hefir nú svo ótvírætt sannað, að ekkert af því, sem Alþýðuflokks.menn eða blöð þeirra haft sagt um hag bankans, var ofmælt. Þvert á móti. Ástandið var enn verra. Óstjórnin á bankanum enn meiri. Alþfl.menn höfðu fremur vanmælt en ofmælt. Þá sagði hæstv. ráðh.: „að samvizka þeirra, sem nú göluðu sig hása, hefði sofið þangað til 1931, frá því að bankanum var lokað“. Hér á hann sennilega við okkur Alþfl.menn. En annaðhvort hefir hæstv. ráðh. heyrt illa, eða hann er minnislítill. Þessi fullyrðing hans er alveg röng. Árið 1930 komu sífelldar kröfur frá okkur Alþfl.mönnum til þings og stjórnar um að rannsaka málið. Loks þegar sýnt var, að þáv. stj. daufheyrðist við þessum kröfum, og vetrarþingið 1931 daufheyrðist líka við þeim, þá var gripið til þess ráðs að kæra til lögreglustjórans í Reykjavík, með þeim árangri, sem kunnugt er, að hann skipaði 3 menn, þar á meðal Einar Arnórsson núv. hæstaréttardómara, til að rannsaka málið utan réttar. Þessi rannsókn var geysimikið verk, þar sem fara þurfti gegnum 10 ára reikninga bankans, og ársveltan skipti mörgum tugum millj. kr. Rannsókn þessi átti að leiða það í ljós, hvort þörf væri opinberrar réttarrannsóknar út af starfsemi og stj. bankans. Eftir 11 mánaða starf skiluðu þessir þrímenningar ýtarlegri skýrslu til stj. í marz 1932, og í maímán. síðastl. ár fyrirskipar svo fyrrv. dómsmrh. (JónasJ) opinbera réttarrannsókn í málinu. Fyrrv. forsrh. (TrÞ) óskaði svo eftir að fá málsskjölin frá lögreglustjóra til athugunar. Og núv. dómsmrh., sem tók við því embætti nokkrum dögum síðar, afturkallaði rannsóknina, eftir að hann var búinn að liggja á skjölunum í 9 mánuði.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að vantraustsyfirlýsingin hefði ekki verið komin fram í þinginu, þegar hann afturkallaði þessa rannsóknarfyrirskipun, og má það vel vera, en Hlaðgerðarkotsmálið hafði þá þegar vakið svo mikla og almenna óánægju, að hæstv. ráðh. óttaðist, að það mundi leiða til þess, að hann yrði að víkja úr sæti sínu í Stjórnarráðinu. En núv. forseti Sþ., þm. Str., forðaði honum frá því svo eftirminnilega eins og kunnugt er. Svona er samvinnan orðin náin á milli þessara fornandstæðinga, hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Str. Það er því bert, að hæstv. ráðh. afturkallar rannsóknarfyrirskipunina til þess að girða fyrir aðgerðir í málinu af hendi eftirmanns síns. Hæstv. dómsmrh. sagði, að þriggja manna rannsóknarn. hefði ekki leitað upplýsinga hjá fyrrv. bankastj. Íslandsbanka. Það kann vel að vera; mér er ekki kunnugt um það. Bankastjórarnir áttu vitanlega að leggja fram sínar skýrslur og varnir við hina opinberu réttarrannsókn. En hæstv. dómsmrh. sagðist nú hafa sýnt bankastjórunum skýrsluna og leitað umsagnar þeirra, og hafi þeir, að mér skildist, sagt, að ekkert hefði verið við stjórn bankans að athuga! Þetta mun nú vera alveg nýr siður, að senda sakborning plögg málsins til athugunar áður en honum er stefnt eða málið tekið til opinberrar rannsóknar. Óneitanlega er það dálítið kynleg aðferð, en það kann nú að vera praksis hjá þessum hæstv. ráðh. En hitt er þó einkennilegri aðferð, að taka umsögn sakborninga um, að allt hafi verið í bezta lagi hjá sjálfum þeim, sem fullnaðarúrskurð í málinu. Ég hefi haldið, að sakborningar væru sjaldnast látnir gera út um slíkt sjálfir! Og undarlegt yrði réttarfarið þá, ef slík regla yrði upp tekin, að láta sakborninga sjálfa úrskurða, hvort sakarrannsókn skyldi hafin gegn þeim.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að bókfærslan í Íslandsbanka hefði verið í góðu lagi og að rétt hefði verið fært á milli bóka. Það kemur málinu ekki við og afsannar ekki, að reikningar bankans hafi verið falskir. Það getur verið samræmi í bókfærslunni þó að skuldir bankans séu taldar 1½ millj. kr. lægri í efnahagsreikningum bankans en þær voru í raun og veru, eins og átti sér stað um skuld bankans við ríkissjóð Dana og enska lánið. Bókfærslan getur verið í lagi, þótt verðlausir víxlar svo milljónum skiptir séu taldir góð og gild eign og ófallnir, en ógreiddir vextir af þeim sem tekjur. Hæstv. ráðh. sagði, að bankastjórunum væri ekki borið annað á brýn en að bankinn hefði tapað fé undir þeirri stjórn, en allir bankar hefðu tapað. En þarna segir hæstv. ráðh. vísvitandi ósatt. Bankastjórarnir voru sakaðir um ranga reikningsfærslu, óforsvaranlegar lánveitingar, stórkostlegt eftirlitsleysi o. fl. Þetta veit hæstv. ráðh. fullvel. Þó segir hann, að hæstiréttur hefði ekki getað sakfellt bankastjórana, af því að þeir voru saklausir. En úr því að hann er svo viss, því þá ekki að láta rannsókn og dóm ganga í málinu? Bankastjórarnir máttu verða því fegnir að vera hreinsaðir af grunsemdum og orðróm almennings. Og var þá ekki bezt fyrir þá að fá sýknudóm? Flestir munu líta svo á, að ástæðan til þess, að rannsókn var þögguð niður og málið ekki látið ganga til dóms, hafi verið sú, að málsaðilum hafi þótt betra að láta það falla niður, og ráðh. af pólitískum ástæðum verið sömu skoðunar.

Hæstv. dómsmrh. byrsti sig mjög og sagði, að það væri enginn leikur að höfða sakamálsrannsókn. Það er alveg rétt. En hitt er vissulega enginn leikur heldur, að liggja saklaus undir jafnþungri ákæru og hér um ræðir og fá ekki að hreinsa sig af henni. Það er heldur enginn leikur fyrir þjóðfélagið, ef um sekt er að ræða, að láta þá seku alveg sleppa við rannsókn og dóm. Slíkt er of alvarlegt mál. Það er enginn leikur fyrir hæstv. dómsmrh. að taka á sig ábyrgðina af því að játa þessa málssókn falla niður, og koma í veg fyrir, að réttur dómur gangi fram í málinu.

Hæstv. dómsmrh. sagði ennfremur, að sakamálsrannsókn væri svívirðilegt vopn. En ef svo er, hvers vegna beitir hann því þá sjálfur, eins og hann hefir gert í einstökum tilfellum? Hvaða vit er í því t. d. að höfða sakamál á hendur Sigurjóni Ólafssyni fyrir það, sem hann sagði 7. júní síðastl.? (Dómsmrh.: Og 9. nóv. síðastl.). Sigurjón var ekkert riðinn við það, sem gerðist 9. nóv. Ég tók þetta sakarefni upp úr prófskjölum í málinu; Sigurj. Ólafss. sagði: „Þarna kemur Jakob Möller“. Einhver vitni bera, að hann hafi ennfremur sagt: „látið hann standa fyrir máli sínu“. Þetta er allt sakarefnið. Enginn gerði J. Möller minnsta miska. Þessu svívirðilega vopni, sem hæstv. dómsmrh. kallar, hefir hann sjálfur beitt gegn Sigurjóni Ólafssyni, þó hann þrætti fyrir það og teldi sig hvorki hafa höfðað mál út af óeirðunum 7. júlí né 9. nóv. síðastl. Ég verð að telja það stórvítavert að beita þessu „svívirðilega vopni“, sem hæstv. ráðh. talaði um, í jafnhégómlegu og lítilfjörlegu máli og þessu. — Annars virtist mér þegar leið á ræðu hæstv. ráðh., að hann vilja hverfa frá þeirri fullyrðingu sinni, að bankastjórarnir væru alveg sýknir saka. Þá fór hann að tala um, að ef til vill mætti álíta, að þeir hefðu gert sig seka um hirðuleysi eða vanrækslu í starfi sínu. Og út af því fór hæstv. ráðh. að kenna mér lögspeki. Það var nú út af fyrir sig gott, ég er ekki svo vel að mér í þeim efnum. En gallinn er sá, að þessar lögskýringar hans áttu alls ekki við þær sakir, sem hér var um að ræða. Hæstv. ráðh. sagði, að þyngsta refsing embættismanna fyrir hirðuleysi og vanrækslu í embættisrekstri væri embættismissir, og þessa refsingu hefðu 2 bankastjóranna þegar orðið að þola: Sigurður Eggerz og Kristján Karlsson, og væru búnir að taka hana út, ef þeir hefðu átt að teljast embættismenn. En af því að Eggert Claessen hefði ekki verið embættismaður, þá væri hans sök nú fyrnd eftir 2 ár. En allir væru bankastjórarnir eldri en svo, að refsiákvæði laganna um „hýðingu með vendi“, gæti náð til þeirra. Niðurstaða hæstv. ráðh. var því á þessa leið:

Í fyrsta lagi eru bankastjórarnir saklausir.

Í öðru lagi eru þeir búnir að taka út refsingu sína, og í þriðja lagi er sökin fyrnd. Þetta minnir á sögu af öðrum lögspekingi, Nasreddin, í máli, sem reis út af pottbroti: Hann sagði: Í fyrsta lagi fékk ég engan pott lánaðan. Í öðru lagi skilaði ég heilum potti, og í þriðja lagi var potturinn brotinn þegar ég fékk hann. Þetta er alls ekki ósvipuð rökfræði og hjá kollega hans hér, hæstv. dómsmálaráðherra.

En sleppum öllu gamni. Eins og ég hefi áður tekið fram, þá er ekki hægt að mótmæla því, að bankastjórarnir eru bornir miklu alvarlegri sökum en hæstv. dómsmrh. vill vera láta, sem aðeins hefir talað um hirðuleysi þeirra og vanrækslu í embættisrekstri. Skal ég þessu til sönnunar benda á nokkur atriði úr dómi hæstaréttar í máli Kristjáns Karlssonar fyrrv. bankastjóra, sem hann höfðaði gegn Útvegsbanka Íslands út af því, að hann vildi fá sér greidd bankastjóralaun. Hæstiréttur dæmdi hann frá laununum.

Í forsendum dómsins eru bankastjórar Íslandsbanka sakaðir um ranga reikningsfærslu í mjög verulegum atriðum í efnahagsreikningum bankans, og að gerðar hafi verið ýmsar óhæfilegar ráðstafanir á fé bankans, einkum með alveg óforsvaranlegum lánveitingum. Og svo leyfir hæstv. dómsmrh. sér að fullyrða, að ég segi ósatt, þegar ég held því fram, að bankastjórarnir hafi verið sakaðir um ranga reikningsfærslu og fölsun á efnahagsreikningum bankans. (Dómsmrh.: Hv. þm. verður að fara rétt með). Ég geri það. (Dómsmrh.: Nei, það er ósatt). Ég kann þó að lesa prentað mál. Um þetta segir hæstiréttur, og þar með einmitt Einar Arnórsson, sem nú er orðinn fastur dómari í réttinum fyrir náð þessa hæstv. ráðh., og sennilega hefir lagt til uppistöðuna í forsendur dómsins, þar sem honum var kunnugast um stjórn bankans, vegna starfsemi sinnar við rannsóknina: „Það er óvéfengt í málinu, að í efnahagsreikningi Íslb. pr. 31. des. 1928 og í efnahagsyfirlitum hans árið 1929 sé skuld ein, þá að upphæð d. kr. 3900000,00, tilfærð með sömu upphæð í íslenzkum krónum, enda þótt þá væri lægra gengi á íslenzkri kr. en danskri, svo að á þessari upphæð munaði um 856000 krónum“.

Sama segir hæstiréttur að sé um færslu enska lánsins alræmda á efnahagsreikningi. Líka fært með of lágu gengi. Niðurstaðan af þessu er sú, segir í dómnum, að „með þessum hætti urðu skuldir bankans kr. 1045507,74 lægri í áðurnefndum efnahagsreikningum en þær voru í raun og veru“. M. ö. o. reikningarnir eru rangir. Síðan kemur kafli þar sem segir, að þó að þessi reikningsfærsla hafi að vísu tíðkazt áður í bankanum, þá sé sá bankastjóri, sem þar um ræðir, meðsekur, hinir, sem lengur höfðu verið, líka sekir, og meira fyrir það, að þeir voru eldri í embættinu.

Þá segir í dómnum, að efnahagsreikningar Íslandsbanka hafi einnig verið rangir að því leyti, að taldar hafi verið meðal eigna bankans mjög háar kröfur á nokkra skuldunauta hans, sem hættir hafi verið vegna getuleysis að standa í skilum. Nú er upplýst, að þessar töpuðu kröfur, sem taldar voru sem eignir, námu mörgum milljónum. Síðan kemur niðurstaðan: „Misfellur þær, sem að framan er lýst og telja verður áfrýjanda meðsekan um, verður að telja svo verulegar, að fjármálaráðherra hefði verið rétt að segja honum upp bankastjórastöðu hans fyrirvaralaust og bótalaust“.

M. ö. o., því er slegið föstu í þessum dómi, að reikningar bankans hafi verið rangir að því leyti, að skuldir hafi verið vantaldar og eignir oftaldar, og að óforsvaranlegum lánveitingum hafi verið haldið áfram til manna, sem fyrirsjáanlega gátu ekki greitt skuldir sínar, en hæstv. ráðh. segir, að hér geti í hæsta lagi verið um að ræða lítilfjörlega vanrækslu eða hirðuleysi. Til þess að færa fram enn frekari sannanir fyrir því, að það er síður en svo, að það hafi verið ofmælt, að reikningarnir hafi verið rangir, væri fróðlegt að lesa upp kafla úr skýrslu þeirra manna, sem rannsökuðu hag Íslandsbanka. Í niðurlagi skýrslunnar segir: Alls hafði verið afskrifað af skuldum bankans til ársloka 1930 kr. 18588693,86. Síðan hefir eitthvað verið afskrifað, svo að afskrifuð töp bankans nema sennilega yfir 20 millj. króna alls. — Af þessu eru a. m. k. 10—11 millj. kr. taldar sem góð og gild eign í síðasta efnahagsyfirliti bankans 1. okt. 1929. — Er ofmælt að nefna þetta ranga reikninga? Af þessum töpum koma á eina 5 menn hvorki meira né minna en 8—9 millj. kr. miðað við árslok 1930, en síðan reyndust töpin á þessum mönnum eitthvað meiri, líklega yfir 9 millj. kr. Ýmsum þeirra hafði verið gefið eftir þrásinnis, t. d. Copland árið 1922 ca. 1930 þús. kr. Svo er farið að lána honum að nýju og 1926 er honum gefið eftir 620 þús. kr. og gerður við hann sá kostulegi samningur, að hann þyrfti ekki að borga skuldir sínar, nema félagið, sem hann stofnaði, græddi svo mikið, að það gæti greitt honum 35 þús. kr. laun. Niðurstaðan verður sú, að árið 1930 eru honum gefnar eftir 730 þús. kr. Töpin á einum manni nema 3270000 kr.

Ég verð tímans vegna að sleppa að lesa upp úr þessari skýrslu, en það gerir ekki svo mikið til, því að það mundi að miklu leyti verða endurtekning á því, sem sagt var í dómi hæstaréttar, sem ég las upp úr áðan. Ég vil enn minna á, að einn af dómurunum í hæstarétti, þegar hann kvað upp dóm í máli Kristjáns Karlssonar, var einmitt Einar Arnórsson, einn af þeim mönnum, sem skipaðir voru til að rannsaka hag Íslandsbanka, og tel ég víst, að hann hefir lagt mikið til í forsendurnar. Þetta er sá maður, sem hæstv. dómsmrh. hefir gert að hæstaréttardómara, og veit ég ekki til, að hann hafi ástæðu til að óttast ranga dóma af honum vegna óvináttu eða pólitískrar andstöðu. A. m. k. veit ég eigi til, að hann hafi kvartað yfir, að dómur hæstaréttar í hans máli og máli Behrens hafi verið rangur. Hversu viðfelldið það er að skipa sjálfur mann til þess að dæma í sínu eigin máli, það gæti nú verið eitt eldhúsdagsumræðuefnið, en ég hefi aðeins haldið því stærsta til haga, en látið sprökin liggja. Ég hefi sýnt fram á, að bæði samkv. skýrslunni og hæstaréttardómnum er sýnt og sannað, að hér er um miklu stórvægilegri misfellur á stj. og rekstri bankans að ræða en hæstv. dómsmrh. heldur fram. Reikningar rangir, algerlega óverjandi lánveitingar, auk afskaplegs eftirlitsleysis, en ekki aðeins lítilfjörleg vanræksla, og að bankinn hefir af þessum sökum tapað stórfé, svo millj. skiptir. Hæstv. dómsmrh. segir rangt frá og reynir að segja landsfólkinu ósatt, þegar hann heldur slíkri fjarstæðu fram. — Ég skal ekki gera mig svo lögspakan, að ég ætli að kveða upp dóm í máli bankastjóranna, né segja fyrir, hver hefði orðið dómur hæstaréttar. Engar skýrslur hafa opinberlega komið fram af hálfu bankastjóranna, varnir né aths., og það er vitaskuld fjarri sanni að kveða upp dóm áður en slíkt er fengið. En einmitt við réttarrannsóknina hefðu bankastj. fengið kost á því að bera fram skýrslu sína og varnir. Þar var sá rétti vettvangur. Hitt vil ég fullyrða, að það er ósæmandi af hæstv. dómsmrh. í svo stórkostlegu máli sem hér um ræðir, þar sem svo alvarlegar misfellur eru bornar á menn, að láta ekki fara fram opinbera réttarrannsókn og dóm ganga í málinu til sektar eða sýknu, hvort sem litið er til mannanna, sem undir þessum sakaráburði liggja, eða til hins opinbera, sem á að gæta þess, að lög gangi jafnt yfir alla. Það er skylda hans sem dómsmrh. að sjá um það, að réttvísinni sé fullnægt, ef um sekt er að ræða, og eins um hitt, að sýkna komi fram, ef hún er fyrir hendi.

Ég hefi sýnt fram á, að hæstv. ráðh. hefir býsna oft hent það ólán að fara rangt með í ræðu sinni á föstudaginn. Þá er eitt eftir enn, sem ég vil benda á. Þegar ég ásakaði hæstv. dómsmrh. fyrir málshöfðanirnar út af viðburðunum frá 7. júlí og 9. nóv. og sýndi fram á, hve smávægilegar og hlægilegar sakir væru bornar á suma þá menn, samanborið við náðarnjótendur hæstv. dómsmrh., þá svaraði hann því hvatvíslega, að þar væri ekki við sig að eiga, en vildi skjóta sér á bak við hv. þm. G.-K., sem ekki var viðstaddur hér í d. Þetta er nú ekki nema hálfur sannleikur og upp undir það full ósannindi. Hæstv. dómsmrh. fyrirskipaði málshöfðun á alla þá, sem um ræðir í sambandi við 7. júlí, 31. des. síðastl., en ég ætla, að hv. þm. G.-K. hafi losnað úr sínum ráðherradómi 20. des., eða rétt fyrir jólin, svo að honum er ekki til að dreifa í þessu tilfelli. Hæstv. ráðh. hefir því einnig í þessu valið það ráðið að reyna að verja sig með skýlausum ósannindum.

Ég vil að lokum rétt minna á, hve geysilega smávægilegar þær sakir eru, sem bornar eru á þessa tvo menn, Sigurjón Á. Ólafsson og Sigurð Ólafsson, annan í sambandi við 7. júlí, en hinn 9. nóv., samanborið við þá menn, sem náðaðir hafa verið, og Íslandsbankastj. Annar þessara manna er sakaður um að hafa sagt: „Þarna kemur Jakob Möller, látið hann standa fyrir máli sínu“. Það er ekki nema eitt vitni, sem segir, að þessi maður hafi sagt: Látið hann standa fyrir máli sínu! Annað hefir ekki sannazt á Sigurjón, en að hann hafi sagt: þarna kemur Jakob Möller. En þá fer að verða vandlifað á landi hér, ef það kostar sakamálsrannsókn og sakamálshöfðun að segja slíkt. Hinn maðurinn er sakaður um að hafa tekið í fingur á lögregluþjóni, sem þó hvergi finnst. Engum gerði hann miska, en stillti þvert á móti til friðar. Fyrir þetta er miskunnarlaust sett á hann hið „svívirðilega vopn“, svo ég noti orð hæstv. ráðh., sakamálshöfðun. Ég vildi biðja hv. þdm. og aðra áheyrendur að gera með mér dálítinn samanburð, samanburð á aðgerðum réttvísinnar í þessum málum, sem ég hefi nú drepið á. Annarsvegar tilefnislausar náðanir hæstv. dómsmrh. á 3 afbrotamönnum, sem ég hefi nefnt og dæmdir hafa verið fyrir stórfelldar sakir, og afturköllun sjálfsagðrar rannsóknar í Íslandsbankamálinu, stærsta fjárþrotamáli hér á landi, sem lagt hefir ríkissjóði og landsmönnum milljónaskuldabyrðar á bak, — og hinsvegar sakamálsrannsókn og málshöfðun á upp undir 30 manns, þar á meðal þá tvo, er ég áðan nefndi, fyrir jafnléttvægar og hégómlegar sakir eins og ég sýndi fram á í ræðu minni.

Gerum samanburð á þessum athöfnum dómsmrh. — Mig minnir, að það standi einhversstaðar, jafnvel víðar en á einum stað, að allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum. Það getur verið, að það eigi allir að vera jafnir fyrir lögunum, en það er víst, að eftir áliti og breytni hæstv. dómsmrh. Íslands eiga ekki allir að vera jafnir fyrir lögunum. — Það er eldhúsdagur í dag. Ég hafði ekki hugsað mér að kynda bál að hæstv. stj. Þess ætti ekki að þurfa. Mér virðist hún hafa kynt og kynda sjálf að sér það eldhúsbál, sem verður henni að aldurtila. Það gerir hún með sínum verkum og verkleysum.