24.04.1933
Efri deild: 54. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er komið frá Nd. og fjhn. hefir haft það til meðferðar. Efni frv. er að veita ríkisstj. heimild til að veita Háskóla Íslands einkaleyfi til stofnunar happdrættis hér á landi. N. sá ekki ástæðu til að leggjast á móti þessu frv., jafnvel þótt hún fyndi á því ýmsa smágalla, sérstaklega formgalla, þótt þeir séu í sjálfu sér ekki mikilvægir. Þeir eru sérstaklega fólgnir í orðalagi og smáatriðum, sem sennilega mætti þá lagfæra eftir því, sem reynslan og framkvæmd l. segði til um. Ég get getið þess, að ég er yfirleitt á móti því, að fjár sé aflað á þennan hátt, en þar sem þetta virðist hafa talsvert fylgi hér í þinginu og hér á í hlut stofnun, sem ég tel lífsnauðsyn að geti eignazt húsnæði, þá hefi ég þó gengið inn á að fara þessa leið. Ég tek þetta fram vegna þess, að þessi stefna mín kom hér fram í fyrra og er að vissu leyti óbreytt, og einnig vildi ég taka þetta fram, ef ég skyldi síðar eiga eftir að greiða atkv. um slíkt mál. — Fjhn. telur rétt, að frv. gangi fram í þeim búningi, sem það nú er, og er það aðallega byggt á þeirri nauðsyn, sem háskólanum er á fé til húsbyggingar. Ég geri ráð fyrir, að þar sem háskólaráðið hefir fengið allmikinn áhuga fyrir þessu máli, megi vænta þess, að sem mestur hluti fjárins komi háskólanum sjálfum til góða. Einn af þeim göllum, sem ég tel á þessu fyrirkomulagi, er, að töluverður hluti fjárins fer í rekstrarkostnað, og verður þá nokkurskonar atvinnubótavinna fyrir þá, sem að þessu vinna. Vona ég þó, að í þessu tilfelli megi treysta því, að unnið verði á svo ódýran hátt sem framast er unnt og að háskólinn njóti fjárins sjálfur. Vil ég svo mælast til, að frv. nái fram að ganga.